Framsækið rokk

Tónlistarstefna
(Endurbeint frá Progressive rock)

Framsækið rokk, progrokk eða progg (enska: progressive rock eða í stuttu máli prog rock) er undirflokkur rokks sem blandar klassíkri tónlist og djassi við rokk. Það kom fram á Englandi á seinustu árum sjöunda áratugarins og blómstraði á miðum áttunda áratugarins. Framsæknir rokkarar voru mjög tilraunagjarnir og reyndu að slíta sig frá hinu hefðbundna rokki með mikilli hljóðfæranotkun, óreglulegum takti og óvenjulegu formi á lögum. Helstu hljómsveitir framsækins rokks voru King Crimson, Genesis, Emerson, Lake and Palmer, Rush, Jethro Tull, Yes og Pink Floyd.[1]

Uppruni

breyta

Á sjöunda áratugnum varð til menningarkimi í London. Þeir sem mynduðu menningarkimann voru hvítir unglingar af millistétt sem neituðu lífsviðhorfum foreldra sinna og urðu seinna þekktir sem hippar. Hipparnir skilgreindu sig með einkennandi klæðaburði en þó fyrst og fremst með tónlistarsmekk sínum. Hipparnir hlustuðu á sýrurokk sem kom fram á seinustu árum sjöunda áratugsins en hippunum fannst tónlistin vera hálfgerð opinberun.[2] Þegar sýrurokkið kom fram þá gátu plötufyrirtækin ekki vitað hvað myndi seljast best og þurftu því að gefa út margar plötur hjá mismunandi hljómsveitum og sjá hvað myndi seljast. Vegna þess að plötuútgefundur vissu ekki hvað kaupendur vildu gáfu þeir tónlistarmönnunum einnig aukið rými fyrir tilraunir og listræna stjórnun á plötum sínum. Þetta var nauðsynlegt til þess að framsækið rokk gæti þróast.[3]

Á sama tíma og plötuútgefendur gáfu tónlsitarmönnum lausan tauminn urðu til neðanjaraðar útvarpsstöðvar sem spiluðu sýrurokk. Þessar útvarpsstöðvar studdu sýrurokkið í það að verða ákveðin tónlistarstöð og spiluðu svo líka framsækið rokk þegar það kom fram.[4]

Í júni árið 1967 kom Bítlaplatan Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band út. Sú plata er stundum talin fyrsta framsækna rokkplatan en hvort sem hún var það eða ekki var henni tekið fagnandi. Ungt fólk um allan heim tók plötunni opnum örmum og fagnaði því að út hefði komið plata sem væri svo tilraunakennd og ólík öllu öðru sem það hefði heyrt.[5] The Rolling Stones komu stuttu síðar með plötuna Their Satanic Majesties Request sem var mjög tilraunakennd.

Sgt Pepper's hafði mikil áhrif og margar sýrurokks hljómsveitir tóku eftir klassískum áhrifum plötunnar og hófu að nota hana í tónlist sína, til dæmis Procol Harum, The Moody Blues, The Nice og Pink Floyd.[6]

Á sínum tíma fannst fólk að þessar hljómsveitir væru sýrurokkshljómsveitir en þeir voru í raun partur af fyrstu bylgju framsækna rokksins. Þessar hljómsveitir höfðu allar viss einkenni framsækna rokksins en engin þeirra hafði öll einkenni framsækna rokksins. Þessar hljómsveitir byrjuðu ferla sína á því að spila á litlum stöðum þar sem lítið bil var á milli áhorfenda og flytjenda.

Pink Floyd er eina hljómsveitin af þeim sem nefnd eru hér að ofan sem þróaðist og varð þáttur af annarri bylgju framsækna rokksins líka.[7][8]

Gullöldin 1971–1976

breyta

Á árunum 1968–1970 komu út fyrstu plötur frægustu framsæknu rokkara í Englandi. Til dæmis This Was eftir Jethro Tull árið 1968. In the Court of the Crimson King eftir King Crimson, Yes eftir Yes og From Genesis to Revelation eftir Genesis komu út árið 1969 og Emerson, Lake & Palmer gáfu út samnefnda plötu árið 1970.[9] Gentle Giant og Frank Zappa voru með flóknar útsetningar og sægur hljóðfæra.

In the Court of the Crimson King er oft talin fyrsta plata framsækins rokk. Hún innihélt öll helstu atriði framsækinnar tónlistar og plötuumslagið var einnig mjög súrrealískt.[10]

Hljómsveitirnar sem nefndar voru hér að ofan voru hluti annarar bylgju framsækna rokksins. Þær voru með enn minni áherslu á hefðbundin form á lögunum en hljómsveitir fyrstu bylgjunnar. Þær tóku meiri áhrif frá djassinu sem leiddi til þess að takturinn var flóknari og minna fyrirsjáanlegur og plötur þeirra voru stórvirki. Þær héldu áfram að gefa út stórbrotnar og tilraunakenndar plötur fram eftir áttunda áratugnum og vinsældir framsækinna rokkara náðu hátindi sínum á honum miðjum.[11]

1976–1982

breyta

Pönkið varð til um miðjan áttunda áratuginn og átti það mikinn þátt í því að vinsældir framsækna rokksins dvínuðu. Það var nýtt og spennandi á meðan framsækna rokkið staðnaði og sölur á plötum framsækinna rokkara dvínaði.[12]Pönkarar fyrirlitu langflestir framsækna rokkið vegna þess hvað þeir hófu sjálfa sig yfir aðra með textum úr bókmenntaheiminum og lærðum bakgrunn sínum. Þó voru framsæknir rokkarar innblástur sumra pönkara. Van Der Graaf Generator voru til dæmis einn aðaláhrifavaldur John Lydon sem var þó mikill pönkari.[13]

Á sama tíma og pönkið naut tíma síns þá skiptist framsækna rokkið niður í marga undirflokka sem voru meira meginstraums, mun einfaldari og þar af leiðir söluvænlegri. Þannig dvínaði framúrsæknin og tilraunamennskan enn meira og framsækna rokkið var við dauðans dyr.

Níundi áratugurinn

breyta

Á níunda áratugnum fóru plötuútgefendur að skipta sér meira af hljómsveitum. Þeir leyfðu ekki jafn mikla tilraunastarfsemi og áður og vildu smekkleg plötuumslög. Framsæknir rokkarar gerðu ekkert framsækið lengur og voru meira fylgjendur en frumkvöðlar á þessum árum. Þeir hermdu mikið eftir nýbylgjustefnunni sem kom fram þegar diskóið og pönkið missti gífurlegar vinsældir sínar og sameinaði þær í eina stefnu.[14]

Miklar tækninýjungar voru á þessum árum sem gerðu hljóðfæraleikara nánast ónauðsynlega. Þegar framsæknu rokkararnir reyndu að fylgja eftir nýbylgjunni tóku þeir út mörg hljóðfæri sem hafði einkennt framsækna rokkið og hættu einnig að nota órafmögnuð hljóðfæri. Súrrealismi hvarf úr textunum og plötuumslögunum og þeir slepptu löngum sólóum og nálguðust hefðbundið lagaform aftur.[15]

Nýframsækið rokk kom fram uppúr 1980. Það er einfaldara en framsækið rokk með miklum áherslum á trommu. Nýframsækið rokk var undanfari framsækis þungarokks. Saga var fyrsta hljómveitin til þess að spila nýframskæið rokk en frægari og týpískari nýframsæknar rokkhljómsveitir eru Marillion, IQ og Pendragon.[16]

Tíundi áratugurinn

breyta

Framsækið þungarokk þróaðist þegar Images and Words, plata Dream Theater kom út 1992. Hljómsveitir á þessum tíma litu þó einnig til gullaldar framsækna rokksins og spiluðu sumar undirtegundir framsækna rokksins þá áttunda áratugnum.[17]. Á tíunda áratugnum urðu hljómsveitir eins og Muse og Air mjög vinsælar og þegar þeir sögðu í viðtölum að þeir væru undir áhrifum frá hljómsveitum eins og Yes þá fóru aðdáendur þeirra að hlusta á gamla framsækna rokkið. Þessir aðdáendur hófu svo að fara á tónleika hjá þeim hljómsveitum sem enn voru starfandi og það vakti framsækna rokkið aftur til lífsins.[18]

Einkenni

breyta

Framsæknir rokkarar brutu upp venjulega byggingu rokklagsins sem var vers, viðlag og brú. Þetta gerðu rokkararnir með margvíslegum aðferðum, þeir bættu til dæmis við milliköflum eða löngum hljóðfæraköflum sem voru blanda af sólóhefð rokksins og spunahefð djassins.

Þessir aukakaflar gerðu það að verkum að lög framsækna rokksins urðu mun lengri en hið hefðbundna rokklag, stundum eru þau jafnvel lengur en 20 mínótur. Framsæknir rokkarar bættu einnig við hljóðfærum í hljómsveitir sínar, þar sem áhrifavaldar þeirra voru klassíska tónlistin og djassinn þá tóku þeir hljóðfæri sem hæfðu því. Þetta voru til dæmis flautur, fiðlur, saxófónar og elektrónísk hljóðfæri.

Einfaldur 4/4 taktur þótti úreltur og óspennandi og framsæknir rokkarar tóku flókin og óreglulegan takt fram yfir þann einfalda. Það voru ekki heldur stuttar, auðlærðar og áheyranlegar línur í lögum framsækinna rokkara, enda litu þeir á sjálfa sig sem gáfumenni sem voru hafðir yfir einfaldleikann. Leikrænir tilburðir voru líka algengir og ákveðin hljóðfæri voru stundum látin tákna eitthvað ákveðið. Ýkt dæmi um þetta eru til dæmis klukkurnar í byrjuninni á laginu Time á Dark Side of The Moon sem tákna tímann.

Textarnir eru oft súrrealískir og miklir ádeilutextar. Rokkararnir forðuðust texta með þemu eins og ástina, dans eða drykkju eins og margir í tónlistargeiranum voru að semja um þá og enn nú í dag. Framsæknu rokkararnir leituðu fremur af þemum úr bókmenntum eða þjóðsögum.[19]

Plötuumslög höfðu verið byrjuð að breytast á tímum sýrupoppsins en framsæknu rokkararnir fóru enn lengra með listina framan á diskum sínum. Þeir horfðu til súrrealískra verka Salvadors Dalí til innblásturs, til að undirstrika enn frekar hversu gáfulegir og lærðir þeir voru.[20]

Íslenskar framsæknar rokkhljómsveitir

breyta

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Progarchives : Definition of Progressive Rock Music
  2. Macan, Edward (1997): 17
  3. Macan, Edward (1997): 18
  4. Macan, Edward (1997): 18
  5. Britannica:The Beatles
  6. Macan, Edward (1997): 21
  7. Macan, Edward (1997): 23
  8. Macan, Edward (1997): 28
  9. Macan, Edward (1997): 23
  10. Chantler, Chris. Terrorizer, tölublað 161 (2007): 41
  11. Macan, Edward (1997): 23
  12. Macan, Edward (1997):
  13. Chantler, Chris. Terrorizer, tölublað 161 (2007): 42
  14. Macan, Edward (1997): 191-192
  15. Macan, Edward (1997): 193
  16. Progarchives: Neo-Prog
  17. Progarchives:The Development of Progressive Rock Music
  18. Chantler, Chris. Terrorizer, tölublað 163 (2007): 56
  19. Progarchives:A Definition of Progressive Rock Music
  20. Chantler, Chris. Terrorizer, tölublað 162 (2007):42

Heimildir

breyta
  • „Britannica:The Beatles“. Sótt 2. mars 2012.
  • Chantler, Chris, Conn, Dara, Ellis, Graham, Morgan, Frances, Schwarz, Paul, Stannard, Joseph og Stewart-Panko, Kevin. „The Return of Prog“. Terrorizer. September 2007 (161) (2007): 39-58.
  • Chantler, Chris, Conn, Dara, Ellis, Graham, Morgan, Frances, Schwarz, Paul, Stannard, Joseph og Stewart-Panko, Kevin. „Prog Special. Rock's Visionary Position.“. Terrorizer. Október 2007 (162) (2007): 41-56.
  • Chantler, Chris, Conn, Dara, Ellis, Graham, Morgan, Frances, Schwarz, Paul, Stannard, Joseph og Stewart-Panko, Kevin. „Prog Special. Rock's Visionary Position.“. Terrorizer. Október 2007 (163) (2007): 41-56.
  • Macan, Edward (1997). Rocking the Classics. English Progressive Rock and the Counterculture. Oxford University Press. ISBN 0-19-509887-0.
  • „Progarchives:A Definition of Progressive Rock Music“. Sótt 5. mars 2012.
  • „Progarchives:Neo Prog“. Sótt 5. mars 2012.
  • „Progarhieves:The Development of Progressive Rock Music“. Sótt 5. mars 2012.