Nýbylgjutónlist

tónlistarstefna

Nýbylgjutónlist (e. new wave, stundum kallað lummustuð[1]) er tónlistarstefna sem kom fram á sjónarsviðið seint á áttunda áratug tuttugustu aldar.

Á seinni hluta áttunda áratugarins var mikil gróska í pönkinu og spruttu upp margar nýjar tónlistarstefnur. Tvær þeirra, sem voru einna mest áberandi, voru nýbylgjan og síð-pönk. Síð-pönkið var meira ögrandi á meðan nýbylgjan var poppaðari, stílhreinni og einfaldari.[2]

Nýbylgjan felur í sér raf- og tilraunarkennda tónlist og er hljóðgervill það hljóðfæri sem hefur verið eitt aðaleinkenni stefnunnar auk litríkrar framkomu.

Menn hafa aldrei orðið fullkomlega sammála um skilgreiningu nýbylgjutónlistar. Sumir stimpla nánast hvert einasta band frá fyrri hluta níunda áratugarins sem nýbylgjusveit á meðan aðrir staðfastir fylgjendur nýbylgjunnar nota það hugtak aðeins yfir uppáhalds hljómsveitir sínar.[3]

Uppruni

breyta

Seymour Stein höfuðpaur ameríska útgáfufyrirtækisins Sire Records er talinn vera maðurinn sem bjó til hugtakið New Wave. Hann gerði það í von um að ný bönd á hans snærum ættu möguleika á einhverri velgengni og fengju útvarpsspilun. Stein þurfti að sannfæra útvarpsstöðvar um að hljómsveitirnar hans væru ekki pönksveitir þó svo að þær kæmu oft fram á CBGB, aðal pönkklúbbnum í New York.[3] Pönkið þótti of róttækt, gróft og fráhrindandi[4] fyrir almenna spilun. Þá kom Stein upp með hugtakið nýbylgja og reyndi að tengja við frönsku kvikmyndanýbylgjuna frá sjöunda áratugnum. Stein hélt því fram að nýbylgjusveitirnar legðu stund á tilraunamennsku og höfnuðu ríkjandi stefnum í tónlist og menningu.[3]

Nýbylgja er hugtak sem nær yfir gífurlega fjölbreytta tónlist, sem þó féll ekki undir það hefðbundna. Hugtakið var notað yfir allt frá hljóðgervla-danspoppi yfir í Mod og Ska-tónlist, sem náði hylli á ný á tíma nýbylgjunar. Tónlist sem var ekki viðurkennd af poppiðnaðinum flokkaðist almennt undir nýbylgju.[5]

Flókið getur verið að flokka tónlist í stefnur en í tilviki nýbylgjunnar má segja að það hafi verið sérstaklega flókið vegna þess hversu margbreytileg stefnan er.[6] Ekki voru allir tónlistarmenn sem litu á sig sem rokkara hrifnir af því að vera flokkaðir sem nýbylgjuband og sögðu hugtakið vera tilbúning blaðamanna.[7]) Að auki voru hljómsveitir sem ekki endilega flokkuðust undir nýbylgjuna auglýstar sem nýbylgja einungis vegna þess eins að stefnan var vinsæl og hljómsveitin gæti allt eins flokkast undir hana.

Þótt nýbylgjan hafi ekki orðið til fyrr en seint á áttunda áratugnum má rekja rætur hennar allt aftur til seinni hluta sjötta áratugarins. Hljómsveitir í Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi mörkuðu nýja tónlistarstefnu þar sem hljóðgervlar voru ráðandi. Tónlistarlega séð áttu brautryðjendur nýbylgjunnar lítið sameiginlegt fyrir utan það að hvorki var nauðsynlegt að hafa mikla kunnáttu í hljóðfæraleik né tónlistarhæfileika. Nýbylgjan var rokk og ról leikið af áköfum amatörum og í upphafi voru það allra minnstu útgáfufyrirtækin sem gáfu út nýbylgjuefni.

Brautryðjendur nýbylgjunnar á Englandi voru undir áhrifum frá hugmyndafræði indie-tónlistar, sóttu í tónlistarlegan einfaldleika pönksins, auk þess að sækja í fleiri þekktar tónlistarstefnur. Meðal fyrstu hljómsveitanna sem þetta á við um má nefna The Clash og The Police, sem báðar eru undir áhrifum pönks og reggae-tónlistar.

Pönkið hafði ekki náð jafn miklum vinsældum í Bandaríkjunum og það gerði víða í Evrópu. Þar var diskó og rokktónlist ríkjandi á vinsældarlistum. Þegar vinsældir diskósins dvínuðu seint á áttunda áratugnum myndaðist ákveðið tómarúm sem pönkið og nýbylgjan fylltu upp í. Meðal fyrstu hljómsveitanna var Blondie, sem ruddi brautina inn á vinsældarlistana fyrir bandarískar nýbylgjuhljómsveitir árið 1979. Sama ár komu fram hljómsveitirnar The Cars og The Talking Heads og hljómsveitin The Knack sló í gegn með laginu My Sharona.

Breska nýbylgjan náði til Bandaríkjanna árið 1980 með plötu Gary Numan, The Pleasure Principle. Lög af plötunni náðu hátt á vinsældarlista. Tónlist Numans er mínímalísk og byggir mikið á notkun hljóðgervla og er undir áhrifum frá tónlistarmönnum eins og Kraftwerk og Brian Eno. Í kjölfar Numans komu fram fleiri tónlistarmenn sem fluttu dansvænt hljóðgervla-pop eins og Depeche Mode, A-ha, New Order og The Pet Shop Boys.[6]

Nýbylgjan þótti markaðsvænni og ekki eins andfélagsleg og síðpönkið. Þar af leiðandi sáu stóru útgáfufyrirtækin meiri möguleika og meiri hagnað í nýbylgjuhljómsveitum.[4] Útgáfufyrirtækin sáu enn meiri möguleika með myndbandaútgáfu en stefnan er frumkvöðull metnaðarfullra tónlistarmyndbanda. Myndböndin voru notuð til þess að auglýsa tónlistarmennina og tónlist þeirra í sjónvarpi og átti sjónvarpsstöðin MTV[6] stóran þátt í að koma stefnunni á kortið. Að sama skapi á MTV nýbylgjunni margt að þakka. Fyrstu árin eftir að stöðin tók að starfa var nýbylgjan langvinsælasta tónlistarstefna áhorfenda[5] og var lagið Video Killed the Radio Star með bresku nýbylgjusveitinni Buggles fyrsta myndbandið sem stöðin sýndi.

Um tíma var nýbylgjan ríkjandi í kvikmyndatónlist, sérstaklega í þeim myndum sem vinsælustu ungleikararnir (svokallað Brat Pack gengi) léku í, eins og The Breakfast Club, Valley Girl og Sixteen Candles.[6]

Vinsældir nýbylgjunnar minnkuðu um miðbik níunda áratugarins. Bæði snéru tónlistarmenn sem áður töldust undir nýbylgju sér að öðru og svo rann nýbylgjan saman við aðrar stefnur eins og jaðarrokk. Nýbylgjan leið þó aldrei undir lok og hefur verið mikill áhrifavaldur annarra tónlistarstefna. Talað hefur verið um að nokkurskonar endurlífgun nýbylgjunnar og síð-pönksins hafi átt sér stað seint á tíunda áratugnum og fyrsta áratug tuttugustu og fyrstu aldar[8], en þá kom fram fjöldinn allur af nýjum hljómsveitum þar sem finnst fyrir greinilegum áhrifum nýbylgjunnar og síð-pönksins. Má þar nefna hljómsveitirnar The Yeah Yeah Yeahs, Franz Ferdinand, The Killers, The Strokes og Bloc Party.[9]

Nýbylgjan á Íslandi

breyta

Lifandi tónlist hafði verið í undanhaldi á skemmtistöðum um tíma og diskótónlist tekið yfir. Félagsheimili Kópavogs, sem bæði var æfinga- og tónleikastaður, var griðarstaður lifandi tónlistar. Þar komu fram meðal annars Utangarðsmenn og Fræbbblarnir og aðrar hljómsveitir nýbylgjunnar. Utangarðsmenn fóru fyrir nýbylgjunni, þó svo að þeir teljist ekki undir stefnunni.[10] Margar hljómsveitir urðu til vegna áhrifa frá þeim. Nýbylgjan hóf að rísa vorið 1980 og var orðin útbreidd um land allt ári seinna. Lifandi tónlist var komin aftur. Hótel Borg er staðurinn þar sem hjarta lifandi tónlistar sló. Borgin hafði ekki notið mikilla vinsælda á áttunda áratugnum, um það leyti er diskóæðið stóð sem hæst, en var nú risin aftur upp með því að bjóða uppa á svokallað „rokkótek“, kraftmikla rokktónlist, einkum af nýbylgjugerð.[11]

Purrkur Pillnikk er ein helsta hljómsveit íslensku nýbylgjunnar. Hún var skipuð fjórum strákum sem kunnu takmarkað á þau hljóðfæri sem þeir spiluðu á. Sveitin lék í fyrsta skipti opinberlega daginn eftir að hún var stofnuð en þrátt fyrir það flutti hún níu frumsamin lög á tónleikunum. Næstu daga spilaði hún á mörgum tónleikum og þremur vikum eftir að sveitin var stofnuð var hún komin í stúdíó. Fyrsta plata þeirra, Tilf, kom út í maí 1981 og á henni má heyra einkunnarorð Purrksins og fleiru nýbylgjuhljómsveita: „Málið er ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir.“[12]

Heimildarmyndin Rokk í Reykjavík sem tekinn var upp veturinn 1981-82 er besta heimildin um íslenska nýbylgju og pönk. Í myndinni er fylgst með hljómsveitum sem hafa verið skilgreindar sem „jaðarlistamenn 80´s nýbylgjunnar á Íslandi“.[13] Þar má nefna hljómsveitir á borð við Tappa tíkarrass, Egó, Þeyr og Fræbbblanna. Líkt og erlendis tengdist nýbylgjan hér á landi við list og ýmiskonar gjörninga og má þar einna helst nefna fjölllistahópinn Medúsu..[14]

Nýbylgjan fólst fyrst og fremst í uppreisn, nýsköpun auk spilagleði og allur gróði var aukaatriði. Íslenska nýbylgjan var ekki langlíf, hún stóð sem hæst frá 1981-1982 og dró verulega úr vinsældum hennar eftir það.[15]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. [1] Páll Pálsson. „Stiff“. Vísir (dagblað). 68 (141) (1978): 15. Skoðað 27. febrúar 2012
  2. „New Wave“, Allmusic Skoðað 4. mars 2012.
  3. 3,0 3,1 3,2 McDonald, Heather.„New Wave Music History“, Lovetoknow music Geymt 2 apríl 2010 í Wayback Machine Skoðað 1. mars 2012.
  4. 4,0 4,1 Dougan, John. „New Wave“ Geymt 11 september 2011 í Wayback Machine, Allmusic Skoðað 4. mars 2012.
  5. 5,0 5,1 Erlewine, Stephen Thomas. „New Wave“[óvirkur tengill], Allmusic Skoðað 8. mars 2012.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 Graves, Steve. „New Wave Music“ Geymt 16 apríl 2009 í Wayback Machine, Resource Library Skoðað 2. mars 2012.
  7. [2] Ásgeir Tómasson. „Stranglers lifa á meðan þeir hafa eitthvað að segja“. Dagblaðið. 4 (141) (1978): 15. Skoðað 27. febrúar 2012
  8. . „New Wave/Post-Punk Revival“ Geymt 17 mars 2012 í Wayback Machine, Allmusic Skoðað 9. mars 2012.
  9. Paoletta, Michael og Caulfield, Keith. „New Wave is back - in hot new bands“ Geymt 5 október 2012 í Wayback Machine, MSN Geymt 12 mars 2012 í Wayback Machine Skoðað 9. mars 2012.
  10. Gestur Guðmundsson (1990). Rokksaga Íslands frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990. Forlagið. ISBN 9979-53-015-4. Bls. 175-181.
  11. Gestur Guðmundsson (1990). Rokksaga Íslands frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990. Forlagið. ISBN 9979-53-015-4. Bls. 181-188.
  12. Gestur Guðmundsson (1990). Rokksaga Íslands frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990. Forlagið. ISBN 9979-53-015-4. Bls. 194-195.
  13. Haukur Viðar Alfreðsson. „Ég hef aldrei séð aðra eins frystikistu“[óvirkur tengill], Kistan Geymt 10 febrúar 2012 í Wayback Machine Skoðað 1. mars 2012.
  14. Unnur María Bergsveinsdóttir. „Væri ég bilað sjónvarp“ Geymt 8 október 2010 í Wayback Machine, Hugsandi Geymt 30 desember 2011 í Wayback Machine Skoðað 3. mars 2012.
  15. Gestur Guðmundsson (1990). Rokksaga Íslands frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990. Forlagið. ISBN 9979-53-015-4. Bls. 184-208.