Pink Floyd

Bresk rokkhljómsveit

Pink Floyd var bresk rokkhljómsveit sem spilaði framsækið rokk. Hún var ein áhrifamesta sveit allra tíma en plötur þeirra m.a Dark Side of the Moon og The Wall eru með frægari plötum þeirra. Pink Floyd var upp á sitt besta á 8. áratug tuttugustu aldar.

Einkennismerki sveitarinnar.
Pink Floyd árið 1971.
Pink Floyd, 1973
David Gilmour.

Stofnun Pink Floyd

breyta

Árið 1964 stofnuðu vinirnir og skólafélagarnir Roger Waters, Richard Wright og Nick Mason hljómsveit sem hét Sigma 6. Þeim gekk ekki vel að koma sér á framfæri og næstu tvö árin skiptu þeir oft um nafn á sveitinni og fengu til liðs við sig ýmsa hljóðfæraleikara. Þeim byrjaði ekki að ganga vel fyrr en um haustið 1966 þegar Roger skipti af gítar yfir á bassa og þeir fengu gítarleikarann Syd Barrett til liðs við sig. Syd stakk upp á því að þeir breyttu nafninu á hljómsveitinni úr Sigma 6 í The Pink Floyd Sound, eftir blúslistamönnunum Pink Anderson og Floyd Council. Hét hljómsveitin svo um tíma en síðan var nafnið stytt í Pink Floyd. Stuttu eftir að Syd byrjaði í sveitinni tóku þeir upp sína fyrstu smáskífu, „Arnold Layne“. Þann 5. ágúst árið 1967 sendu þeir frá sér plötuna The Piper at the Gates of Dawn og með henni öðluðust þeir töluverðar vinsældir sem neðanjarðarhljómsveit í London. Stuttu áður en þeir ætluðu að leggja af stað í tónleikaferð til Bandaríkjanna til að fylgja eftir plötunni veiktist Barrett alvarlega vegna ofnotkunar á LSD. Var það ekki í fyrsta skiptið sem hann veiktist vegna vímuefnanotkununar. Í lok ársins 1967, réðu þeir svo David Gilmour, sem var æskuvinur Waters og Barrett, sem varagítarleikara, ef ske kynni að Barrett yrði of dópaður til að geta spilað. Gerðist það æ oftar að Barrett gat ekki spilað og á endanum var Gilmour ráðinn sem aðalgítarleikari hljómsveitarinnar en Barrett hafður baksviðs. Hljómsveitin reyndi að halda í Barrett, að því að hann samdi flest öll lögin sem þeir gáfu út, en að lokum urðu þeir samt að láta hann fara því Barrett var orðinn veikur á geði.

Pink Floyd án Syd Barretts

breyta

Eftir að Barrett hætti átti sveitin frekar erfitt með að fóta sig aftur og er það líklegast ástæðan fyrir því að árið 1968 gerðist frekar lítið hjá henni, þeir gáfu út eina smáskífu, „More“, sem Barbet Schroders hafði beðið þá að semja fyrir samnefnda kvikmynd sína. Myndin og smáskífan urðu vinsæl í Evrópu. Árið 1969 gáfu þeir út tvöfalda plötu sem hét Ummagumma. Platan innihélt sóló-stúdíólög sem hver meðlimur sveitarinnar hafði samið og tónleikaupptökur. Snemma á árinu 1970 sendu þeir frá sér nýja plötu, Atom Heart Mother, sem kom út 5. nóvember og innihélt m.a. lagið „If“. Varð sú plata býsna vinsæl. Allt næsta árið þar á eftir fór í gerð plötu sem nefndist Meddle og kom hún út 11. nóvember 1971. Á henni voru m.a. lögin „One Of These Days“ og „Echoes“. Allir meðlimir Pink Floyd hafa sagt að það hafi fyrst verið á Meddle, sérstaklega í „Echoes“ (sem er 23 mínútur að lengd), sem sveitin áttaði sig á því hvert þeir vildu stefna tónlistarlega séð. Árið 1972 hélt Pink Floyd tónleika í Pompeii sem voru teknir upp og gefnir út og fengu nafnið Live At Pompeii.

Gullaldartímabil Pink Floyd

breyta

Árið 1973 var mjög stórt ár í sögu sveitarinnar, en það ár gáfu þeir út sína áttundu breiðskífu, Dark Side of the Moon. Hún er næst söluhæsta breiðskífa allra tíma, á eftir Thriller með Michael Jackson. Platan er líka sú plata sem hefur verið lengst á bandaríska topp 200-listanum, en alls var hún þar í 724 vikur, eða í rúm 14 ár. Með lög á borð við „Time“, „Money“, „Us And Them“, „Brain Damage“, „The Great Gig In The Sky“ og „Eclipse“ tókst Pink Floyd endanlega á ná af sér neðanjarðarstimplinum og verða að heimsfrægri stórhljómsveit.

Næsta plata sveitarinnar var Wish You Were Here en hún kom út 15. september 1975. Var platan tileinkuð Syd Barrett. Hún náði líka gríðarlegum vinsældum og komst meðal annars í fyrsta sætið á Billboard-vinsældalistanum. Meðan á tökum á plötunni stóð hafði Barrett komið óvænt í heimsókn til þeirra til að óska þeim til hamingju með velgengni þeirra. Hann var mjög illa farinn, hann hafði rakað öll hár af hausnum á sér, líka augnbrúnirnar (það var vitnað í þetta í myndinni The Wall, þar sem aðalsögupersónan, Pink rakar af sér augnbrýrnar) og var orðin svo feitur að hljómsveitin þekkti hann ekki í fyrstu. Waters tók þessa heimsókn mjög nærri sér og ákvað hann að semja lag um Barrett; „Shine On You Crazy Diamond“. Lögin á plötunni eru fimm: „Shine On You Crazy Diamond partur 1“, „Welcome To The Machine“, „Have A Cigar“, „Wish You Were Here“ og „Shine On You Crazy Diamond partur 2“ og urðu þau öll vinsæl, en sérstaklega „Wish You Were Here“ og báðir partar „Shine On You Crazy Diamond“.

Næsta platan, Animals, kom út einu og hálfu ári eftir Wish You Were Here og innihélt hún tvö lög sem Roger Waters vildi ekki hafa á Wish You Were Here-plötunni; „Dogs“ og „Sheep“. Platan er sérstök að því leiti að hún fjallar um mismunandi gerðir af fólki og er hverjum hóp líkt við ákveðna dýrategund. Platan varð nokkuð vinsæl, en ekki næstum því eins vinsæl og fyrri plöturnar tvær.

Árið 1978 tók sveitin stutt hlé því Gilmour og Wright tóku upp sólóplötur. Á meðan hafði Waters samið tvær plötur. Sú fyrri þeirra þótti ekki nógu góð en varð samt sólóplata Rogers, The Pros and Cons of Hitch-hiking. Seinni platan var hins vegar betri og fékk hún heitið The Wall. Hún kom út 30.nóvember 1979. Platan var tvöföld og innihélt hún mörg af frægustu lögum Pink Floyd, eins og t.d. „Another Brick in the Wall, Pt. 2“, „Mother“, „Hey You“ og „Comfortably Numb“, en gítarsólóið í því lagi er af mörgum talið vera það besta sem nokkur tímann hefur verið samið. Rick Wright hætti í hljómsveitinni á meðan upptökum á The Wall stóð vegna ádeilna milli þeirra Waters. Þann 26. febrúar fór sveitin tónleikaferðalag til að fylgja plötunni eftir. Voru tónleikarnir í leikhússtíl þar sem meðal annars var reistur veggur þvert yfir sviðið. Wright spilaði með á tónleikaferðalaginu og fékk laun fyrir. Kvikmynd var gerð um plötuna og kom hún út árið 1982. Var henni leikstýrt af Alan Parker og Bob Geldof lét aðalhlutverkið. Seinna á árinu kom út platan The Final Cut (sem upphaflega átti að heita Spare Bricks) sem innihélt lög sem ekki komust á The Wall. Þegar þarna var komið við sögu var sambandið milli meðlima hljómsveitarinnar orðið frekar stirt. Þeir gáfu ekki út fleiri plötur og árið 1984 hættu þeir.

Pink Floyd án Roger Waters og lok hljómsveitarinnar

breyta

Ekkert gerðist í tvö ár, en árið 1986 talaði Gilmour við Mason um endurkomu sveitarinnar. Waters varð ekki ánægður með það og fór í mál við þá um tónlistina og nafnið sjálft. Hann tapaði málinu en fékk rétt til að spila Pink Floyd-lög á eigin tónleikum og einnig fékk hann eignarrétt yfir The Wall og The Final Cut.

Árið 1987 kom svo út platan A Momentary Lapse of Reason sem innihélt 10 lög. Gilmour samdi flest öll lögin á plötunni og tók við af Waters sem aðallagahöfundur sveitarinnar. Eftir að platan kom út fengu þeir Rick Wight aftur til liðs við sig og fór hann með þeim á túrinn sem fylgdi plötunni. Sjö árum síðar kom síðan út platan The Division Bell sem innihélt meðal annars lagið „High Hopes“. Tónleikaferðalagið sem fylgdi var sex mánaða langt og á því spiluðu þeir Dark Side of the Moon en það höfðu þeir ekki gert í 20 ár. Á þessu ferðalagi voru líka teknir upp einir tónleikar sem fram fóru á Earls Court-vellinum í London. Tónleikarnir voru gefnir út á geisladisk og DVD og er þetta eina upptakan sem til er af Pink Floyd að flytja Dark Side Of The Moon. Eftir tónleikaferðalagið hætti sveitin síðan.

16. janúar 1996 fékk Pink Floyd inngöngu í The Rock and Roll Hall of Fame ásamt David Bowie og fleirum. Pink Floyd kom svo saman aftur 2. júlí árið 2005 á Live 8-tónleikunum í Hyde Park í London. Roger Waters spilaði líka með og var það í fyrsta skiptið í 24 ár sem hljómsveitin spilaði öll saman.

Roger Keith „Syd“ Barrett lést úr krabbameini 7. júlí í 2006. Hann var 60 ára gamall. Hann átti hvorki konu né börn. Barrett hafði þjáðst af geðveiki frá því hann hætti í Pink Floyd. Rick Wright dó úr krabbameini árið 2008.

Árið 2010 komu Waters og Gilmour saman til að spila á góðgerðatónleikum til styrktar palestínskum börnum. Gilmour lék svo á nokkrum tónleikum Waters.

Árið 2012 ákváðu Gilmour og Mason að gefa út upptökur sem Wright tók þátt í og varð útkoman platan Endless River sem kom út 2014. Gilmour tjáði að það yrði síðasta platan undir nafninu Pink Floyd og honum þætti ekki rétt að koma fram án Wright.

Pink Floyd kom þó saman árið 2022 til að taka upp lag með úkraínskum söngvara, til styrktar Úkraínumönnum vegna innrásar Rússa í landið.

Útgefið efni

breyta

Í heildina hefur Pink Floyd gefið út yfir 30 plötur og smáskífur.

Breiðskífur

breyta
Ár Plata US UK RIAA certification BPI certification CRIA certification
1967 The Piper at the Gates of Dawn 131 6 - - -
1968 A Saucerful of Secrets - 9 - - -
1969 Music From the Film More 153 9 - - -
1969 Ummagumma (líka tónleika upptaka) 74 5 Platína - -
1970 Atom Heart Mother 55 1 Gull - -
1971 Meddle 70 3 2x Platína - -
1972 Obscured by Clouds 46 6 Gull Silfur -
1973 Dark Side of the Moon 1 2 15x Platína 9x Platína 2x Demants
1975 Wish You Were Here 1 (2 vikur) 1 6x Platína Gull 3x Platína
1977 Animals 3 2 4x Platína Gull 2x Platína
1979 The Wall 1 (15 vikur) 3 23x Platína Platína 2x Demants
1983 The Final Cut 6 1 2x Platína Gull -
1987 A Momentary Lapse of Reason 3 3 4x Platína Gull 3x Platína
1994 The Division Bell 1 (4 vikur) 1 3x Platína 2x Platína 4x Platína
2014 The Endless River

Meðlimir

breyta

Tenglar

breyta