Aðaldalur er dalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann liggur upp frá botni Skjálfandaflóa, milli Skjálfandafljóts að vestan og Laxár og Hvammsheiðar að austan og nær allt suður að Vestmannsvatni. Suðurhluti dalsins er klofinn sundur af Garðsnúpi, sem gengur til norðurs úr Fljótsheiði. Reykjadalur gengur til suðurs frá Aðaldal og eru engin glögg landfræðileg skil milli dalanna. Laxárdalur gengur svo til suðausturs frá Aðaldal upp til Mývatnssveitar. Aðaldalur var áður sérstakt sveitarfélag, Aðaldælahreppur, en er nú hluti af Þingeyjarsveit.

Aðaldalur
Grenjaðarstaður í Aðaldal

Út við Skjálfandaflóa eru breiðir sandar en síðan tekur Aðaldalshraun við og þekur mestan hluta sléttlendisins, enda er það um 100 ferkílómetrar. Aðalhraunbreiðurnar eru tvær; eldra hraunið rann úr Ketildyngju fyrir um 3500 árum og fyrir um 2000 árum rann annað hraun yfir það úr Þrengslaborgum í Mývatnssveit. Hraunið er víða vel gróið, vaxið birki, eini, hrís og lyngi. Norðausturhluti þess var þó áður gróðursnauður en um miðja síðustu öld var sett þar upp sandgræðslugirðing og hefur gróðurfarið breyst mjög til batnaðar síðan. Sunnan til í dalnum er víða nokkuð votlent. Að dalnum liggja víðast vel grónar heiðar.

Allmargir bæir eru í Aðaldal en byggðin er dreifð. Norðan til eru bæirnir yfirleitt í jaðri Aðaldalshrauns. Þéttust er byggðin í kringum Laxárvirkjun og svo við Hafralækjarskóla, en þar er jarðhiti. Þar skammt frá er félagsheimilið Ýdalir. Kirkjur eru á Grenjaðarstað og í Nesi í Aðaldal. Flugvöllur er í Aðaldalshrauni og er það Flugfélagið Ernir sem sér um áætlunarflug þangað.

Millinafnið Aðaldal var samþykkt 8. desember 2011.

Heimildir

breyta
  • Aðaldalshraun. Náttúrufræðingurinn, 3. tbl. 1942“.
  • Aðaldalur og Laxárdalur. Sótt á www.norðausturland.is, 5. nóvember 2010“.
  • Aðalskipulag Þingeyjarsveitar. Sótt á www.thingeyjarsveit.is 5. nóvember 2010“.