Hveðn (danska: Hven, sænska: Ven) er sænsk eyja í Eyrarsundi, miðja vegu á milli Skáns og Sjálands en þó nær Svíþjóð. Hún telst tilheyra Skáni og er nú hluti af Landskrona kommun. Eyjan er 7,5 km² að stærð og þar búa um 370 manns. Á Hveðn var aðsetur stjörnufræðingsins Tycho Brahe sem byggði hér stjörnuathugunarstöð sína, sem nefndist Stjörnuborg, og höllina Úraníuborg.

Höfn á Hveðn

Eyjan er hæst 39 metrar yfir sjávarmáli en sæbrött. Milt loftslag og leirkenndur jarðvegur gera að verkum að eyjan hentar vel til jarðræktar, hún er t.d. eini staðurinn í Svíþjóð þar sem hægt er að rækta dúrum-hveiti. Þar hefur um nokkurra ára skeið einnig verið stunduð vínrækt.

Helstu atvinnuvegir á eyjunni eru ferðaþjónusta, fiskveiðar, siglingar og landbúnaður. Áður var tígulsteinagerð í eynni. Höfuðstaður Hveðnar heitir Tuna og liggur á eyjunni miðri. Önnur þorp eru fiskiþorpið Kyrkbacken á vesturströndinni og Bäckviken á austurströndinni en þaðan siglir ferja til Landskrona. Einnig ganga ferjur frá Kaupmannahöfn til Bäckviken.

 
Kort sem sýnir staðsetningu Hveðnar í Eyrarsundi

Hveðn var upphaflega hluti af eiði sem tengdi Skán við Sjáland, en við lok síðustu ísaldar jókst vatnsmagnið mikið í innhafinu sem síðar varð Eystrasalt. Þá rauf sjórinn eiðið og braut mikið land sem nú myndar leirur við strendur Danmerkur og Svíþjóðar.

Tycho Brahe átti Hveðn og reisti þar Stjörnuborg og Úraníuborg um 1576, en Friðrik II fjármagnaði byggingu þeirra. Eyjan varð eftir það fastur viðkomustaður hefðarfólks frá Evrópu sem kom þangað til að hitta stjörnufræðinginn. Þangað kom meðal annarra Oddur Einarsson 2. mars árið 1585. Brahe lenti upp á kant við Kristján IV árið 1599 og flutti til Prag.

Þar sem eyjan taldist til Skáns tilheyrði hún Danmörku lengst af. Við Hróarskeldufriðinn varð Skánn hluti af Svíþjóð, en ekki var talið sjálfsagt að Hveðn fylgdi með. Er sagt að sænski konungurinn Karl X Gústaf hafi sagt „Får jag inte Ven, bryter jag freden“ („Fái ég ekki Hveðn, rýf ég friðinn“ — í Danmörku er þessari tilvitnun gjarnan fylgt eftir með: „Hann fékk Hveðn, en rauf samt friðinn“). 1660 fengu Svíar svo Hveðn í hendur.