Árni Oddsson (159210. mars 1665) var íslenskur lögmaður á 17. öld og er þekktastur fyrir að hafa undirritað erfðahyllinguna á Kópavogsfundi 1662 nauðbeygður og sumir segja tárfellandi.

Árni var fæddur í Skálholti, sonur Odds Einarssonar biskups og Helgu Jónsdóttur konu hans. Hann fór til náms í Kaupmannahöfn 1609, kom aftur 1612 og var þá tvítugur að aldri. Faðir hans var þekktur fyrir dugnað sinn við að koma ættmennum í embætti og Árni var þegar gerður að skólameistara Skálholtsskóla og gegndi því embætti til 1615. Raunar var ekki einsdæmi að svo ungir menn fengju skólameistaraembætti.

Árið 1617 sigldi hann til Kaupmannahafnar til að reka erindi fyrir föður sinn, sem átti í útistöðum við Herluf Daa höfuðsmann, og kom aftur til landsins árið eftir og unnu þeir feðgar svo málið gegn Daa eða Herlegdáð eins og Íslendingar áttu til að kalla höfuðsmanninn í háðungarskyni. Frásagnir af heimkomu hans eru allar með miklum þjóðsagnablæ en þær segja að Herluf Daa hafi bannað kaupmönnum að flytja Árna til landsins en honum tókst á endanum að komast í Vopnafjarðarskip og lenti í Vopnafirði þegar fjórir dagar voru til þings (í sumum sögunum er hann jafnvel sagður hafa komist með göldrum til Íslands). Hann keypti tvo úrvalshesta en þegar upp á Jökuldal kom hafði hann sprengt þá báða undan sér. Þá keypti hann brúnan hest og reið honum einhesta þvert yfir landið og stóðst á endum að hann kom í Almannagjá þegar kallað var á hann í þriðja og síðasta sinn og vann málið. Hvað sem til er í þessu er víst að Árni hlaut mikla sæmd og frægð af málinu.

Árni varð Skálholtsráðsmaður 1620. Árið 1632 varð hann svo lögmaður sunnan og vestan og hélt því embætti í 32 ár. Einnig var hann sýslumaður í Árnnesþingi og umboðsmaður Reynistaðarklaustursjarða. Hann þótti sinna embættum sínum vel og af dugnaði og bera hag landsmanna fyrir brjósti, enda var hann vinsæll. Hann þótti enginn sérstakur gáfumaður en farsæll í störfum sínum. Hann bjó lengst á Leirá í Leirársveit.

Sumarið 1662, þegar Árni stóð á sjötugu, kom Henrik Bjelke höfuðsmaður til landsins til að láta Íslendinga undirrita erfðahyllingu við konung. Sögur segja að ýmsir hafi verið tregir til, þar á meðal Árni Oddsson, en Bjelke hafi hótað að beita hervaldi og þá hafi Árni undirritað yfirlýsinguna og tárfellt um leið. Samtímaheimildir staðfesta ekki þessa frásögn en Árni sagði af sér lögmannsembættinu á næsta þingi; hafði reyndar verið búinn að segja því af sér áður en látið undan óskum almennings um að hann sæti lengur. Sögunni um tárvota vanga Árna var hins vegar mjög haldið á lofti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld.

Árni drukknaði eða varð bráðkvaddur í laug á Leirá 10. mars 1665. Fyrri kona hans var Helga dóttir Jóns Vigfússonar sýslumanns á Galtalæk en hún dó úr bólusótt eftir fárra ára hjónaband. Síðari kona hans, sem hann kvæntist 1617, var Þórdís Jónsdóttir (1600 - 1. september 1670) frá Sjávarborg í Borgarsveit. Á meðal barna þeirra voru Sigurður Árnason lögréttumaður í Leirárgörðum og Helga kona Þórðar Jónssonar prests og fræðimanns í Hítardal.

Heimildir

breyta
  • „Saga latínuskóla á Íslandi til 1846. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 1893“.
  • „Árni Oddson. Sögnin um heimkomu hans. Á snerpa.is“.


Fyrirrennari:
Gísli Hákonarson
Lögmaður sunnan og austan
(16311662)
Eftirmaður:
Sigurður Jónsson