Magnús Gíslason (amtmaður)

Magnús Gíslason (1. janúar 17043. nóvember 1766) var íslenskur lögmaður og amtmaður á 18. öld. Hann bjó á Stóra-Núpi, í Bræðratungu, á Leirá og seinast á Bessastöðum.

Foreldrar Magnúsar voru Gísli Jónsson bóndi á Reykhólum og í Mávahlíð á Snæfellsnesi, sonur Jóns Vigfússonar biskups, og Margrét dóttir Magnúsar Jónssonar lögmanns. Margrét dó í Stórubólu 1707 en Gísli drukknaði í Mávahlíðarvatni 24. febrúar 1715. Magnús fór þá að Staðarstað til séra Þórðar Jónssonar föðurbróður síns og nokkru síðar að Skálholti til Jóns Vídalín biskups, sem giftur var Sigríði föðursystur hans. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla og hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla haustið 1724.

Sumarið 1728 var honum veitt embætti landskrifara en hann fór þó ekki heim fyrr en árið eftir. Gengdi hann því þar til honum var veitt lögmannsembættið sunnan og austan 1732. Árið eftir var amtmannslaust og Benedikt Þorsteinsson lögmaður norðan og vestan treysti sér ekki að ríða til þings og gegndi Magnús því öllum embættunum þremur á þingi 1733. Vorið 1736 sagði Alexander Christian Smith af sér lögmannsembætti norðan og vestan og gegndi Magnús báðum lögmannsembættunum á þingi það ár.

Pingel amtmanni var vikið úr embætti 8. maí 1752 vegna skulda og Magnús settur í hans stað. 16. maí 1757 var hann svo skipaður amtmaður yfir Íslandi, fyrstur Íslendinga, og sleppti þá lögmannsembættinu. Vorið 1764 fékk hann Ólaf Stefánsson tengdason sinn, sem þá var varalögmaður norðan og vestan, settan sér til aðstoðar. Hann dó tveimur árum síðar og tók Ólafur þá við amtmannsembættinu.

Kona Magnúsar, gift 2. júlí 1732, var Þórunn Guðmundsdóttir (8. júlí 1693 – ágúst 1766) frá Álftanesi á Mýrum, Sigurðssonar lögmanns Jónssonar. Móðir hennar var Guðrún, dóttir Eggerts Björnssonar sýslumanns á Skarði á Skarðsströnd. Einkadóttir þeirra var Sigríður, kona Ólafs Stefánssonar amtmanns.

Heimildir breyta


Fyrirrennari:
Johan Christian Pingel
Amtmaður
(17521766)
Eftirmaður:
Ólafur Stephensen
Fyrirrennari:
Niels Kier
Lögmaður sunnan og austan
(17321756)
Eftirmaður:
Björn Markússon
Fyrirrennari:
Alexander Christian Smith
Lögmaður norðan og vestan
(17361736)
Eftirmaður:
Hans Becker