Björn Markússon
Björn Markússon (31. ágúst 1716 – 9. mars 1791) var íslenskur lögmaður á 18. öld.
Foreldrar Björns voru Markús Bergsson sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og kona hans Elín, dóttir Hjalta Þorsteinssonar prófasts í Vatnsfirði, eins helsta myndlistarmanns 18. aldar. Björn fór til Kaupmannahafnar til náms og var þá vel fullorðinn, var innritaður í Kaupmannahafnarháskóla 1744, 28 ára gamall. Þegar hann var í Kaupmannahöfn var hann meðal annars fenginn til þess með öðrum að skrifa upp Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns og hann las líka prófarkir að Wajsenhús-biblíunni svokölluðu.
Árið 1749 var hann skipaður sýslumaður í Skagafjarðarsýsu þegar Skúli Magnússon varð landfógeti og ári síðar varð hann varalögmaður sunnan og austan með loforði um að taka við af Magnúsi Gíslasyni. Hann sat fyrst í lögmannssæti á Alþingi 1752 en þá hafði Magnús verið settur amtmaður. Magnús hélt þó lögmannsembættinu til 1756 en á Alþingi 1757 tók Björn við og hélt embættinu til dauðadags.
Björn var sýslumaður í Skagafirði til 1757 og bjó á Stóru-Ökrum. Stjórn Hólastóls og prentsmiðjunnar var þá að miklu leyti í höndum hans og lét hann þá prenta ýmsar Íslendingasögur, þýddar skáldsögur og ljóðmæli og fleira sem ekki taldist til guðsorðs, en Hálfdan Einarsson skólameistari annaðist þá útgáfu. Björn var áhugamaður um framfarir af ýmsu tagi og fékk meðal annars styrk til kornyrkjutilrauna árið 1750, en þær tilraunir mistókust. Þegar Björn fór úr Skagafirði flutti hann sig fyrst að Hvítárvöllum, svo að Leirá en seinast bjó hann á Innra-Hólmi og dó þar.
Björn fékk fljótlega varalögmenn sér til aðstoðar. Fyrstur þeirra, frá 1758, var Jón Ólafsson frá Eyri í Seyðisfirði en árið 1767 færði hann sig og varð varalögmaður Sveins Sölvasonar. Þá tók Eggert Ólafsson við en það entist stutt því hann drukknaði vorið eftir. Bróðir Eggerts, Magnús Ólafsson, var þá settur varalögmaður. Hann gegndi því embætti frá 1769 þar til Björn dó og varð síðan lögmaður.
Heimildir
breyta- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Fyrirrennari: Magnús Gíslason |
|
Eftirmaður: Magnús Ólafsson |