Sigurður Jónsson (lögmaður)
- Sjá aðgreiningarsíðu fyrir aðra einstaklinga sem heita Sigurður Jónsson.
Sigurður Jónsson (1618 – 4. mars 1677) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. öld og bjó í Einarsnesi á Mýrum.
Hann var sonur Jóns Sigurðssonar (d. 1648) sýslumanns í Einarsnesi og fyrri konu hans, Ragnheiðar Hannesdóttur frá Snóksdal. Albræður hans voru þeir Guðmundur sýslumaður á Hvítárvöllum og Þorleifur skólameistari í Skálholti og síðar prófastur í Odda, faðir Björns Þorleifssonar biskups.
Sigurður var sýslumaður í Snæfellsnessýslu um tíma og síðan Mýrasýslu eftir að faðir hans lést. Árið 1644, meðan hann var sýslumaður í Snæfellsnessýslu, sakaði höfuðsmaður hann um að hafa leyft verslun við útlendinga en Sigurður bar af sér sakir en játaði þó að keypt hefði verið færi og messuvín.
Hann var kjörinn lögmaður sunnan og austan þegar Árni Oddsson sagði af sér í upphafi Alþingis 1663 og gegndi því embætti til dauðadags. Þeir Þorleifur Kortsson voru lögmenn nokkurn veginn sama tíma og þóttu heldur atkvæðalitlir í störfum sínum, svo að stöðugt dró úr áhrifum Alþingis en að sama skapi óx vald höfuðsmanna og umboðsmanna þeirra.
Kona Sigurðar var Kristín, dóttir séra Jóns Guðmundssonar skólameistara í Skálholti og síðar prófasts í Hítardal og Guðríðar dóttur Gísla Þórðarsonar lögmanns. Börn þeirra voru Jón eldri sýslumaður í Húnaþingi og klausturhaldari á Reynistað, Jón yngri sýslumaður í Einarsnesi, Ragnheiður kona Sigurðar Björnssonar lögmanns og Guðmundur bóndi í Álftanesi á Mýrum.
Heimildir
breyta- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Fyrirrennari: Árni Oddsson |
|
Eftirmaður: Sigurður Björnsson |