Skarðsströnd er sveit í Dalasýslu, sem er á milli Hvammsfjarðar og Gilsfjarðar. Mörkin milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar eru um Klofning, klettarana fram af Klofningsfjalli, sem skilur á milli sveitanna. Skarðsströnd nær svo inn að Fagradalsá, en þar tekur Saurbærinn við.

Skarðsströnd

Nokkuð breitt undirlendi er frá Klofningi að Skarði á Skarðsströnd en þar eru margir bæir farnir í eyði þótt landið sé vel gróið og búsældarlegt. Ballará er þó enn í byggð. Þar bjó meðal annars Pétur Einarsson, sem skrifaði Ballarárannál. Seinna bjó þar séra Eggert Jónsson, sem sumir telja að hafi að hluta verið fyrirmyndin að séra Sigvalda í Manni og konu eftir Jón Thoroddsen.

Helsta höfuðból á Skarðsströnd og raunar eitt helsta höfuðból landsins fyrr á öldum er Skarð. Þar hefur sama ættin búið frá 11. öld og jafnvel allt frá landnámsöld. Margir þekktir einstaklingar af ætt Skarðverja hafa búið á Skarði og þekktust allra kannski Ólöf ríka Loftsdóttir, sem bjó á Skarði á 15. öld. Kirkja er á Skarði og átti hún áður margt góðra gripa en nu er fátt eftir nema altaristafla sem sagt er að Ólöf hafi gefið. Tvær frægar skinnbækur eru líka kenndar við Skarð. Í Skarðsstöð, hinni fornu höfn Skarðverja, er smábátahöfn og er þar nokkur útgerð, ekki síst á grásleppu. Þar var fyrsta fasta verslun í Dalasýslu og hófst 1890.

Nokkru innar á ströndinni er höfuðbólið Búðardalur, sem ekki má rugla saman við kauptúnið Búðardal við Hvammsfjörð. Þekktastur bænda í Búðardal er Magnús Ketilsson sýslumaður, sem stundaði þar merkar jarðyrkjutilraunir á 18. öld og skrifaði fjölda fræðirita.

Innst á Skarðsströnd eru svo bæirnir Ytri- og Innri-Fagridalur. Í Ytri-Fagradal er nú unnið að sauðfjárræktarverkefni sem felst í því að ala lömb á hvönn, sem þykir skila sér í bragðinu af kjötinu.

Heimildir

breyta
  • * „Strandahringurinn. Af www.dalabyggð.is“.