Johan Christian Pingel

Johan Christian Pingel (um 1713 – febrúar 1779) var danskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi frá 1744 en var settur af árið 1752 vegna skulda og fjármálaóreiðu. Hann var hér á landi 1745-1750 og bjó á Bessastöðum.

Pingel var fæddur í Rendsborg í Slésvík-Holtsetalandi, sonur Christians Pingel kapteins í danska hernum og konu hans, Mette Sophie Ecklef. Hann gekk sjálfur í herinn en árið 1744 var hann skipaður amtmaður yfir Íslandi og kom til landsins árið eftir. Sagt er að hann hafi talið að besta leiðin til að bæta bágt ástand í efnahagsmálum Íslendinga væri að bæta aga. Í umburðarbréfi til lögmanna og sýslumanna, dagsettu 7. mars 1746, segir Pingel að orsakir ástandsins séu „leti, ómennska, þrjóska og hirðuleysi Íslendinga“ og telur best að beita nógu mikilli harðneskju og bendir máli sínu til stuðnings á að Pétur mikli Rússakeisari hafi látið berja bændalýð til auðsveipni og dáða.

Pingel var andsnúinn áformum Skúla Magnússonar og félaga hans um atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Í upphafi mun þó hafa farið vel á með þeim Skúla en fljótlega eftir að Skúli var skipaður landfógeti kastaðist í kekki og Skúli vildi ekki búa á Bessastöðum, eins og ætlað var, heldur fékk að hafa embættisbústað sinn í Viðey. Í bréfi sem Pingel skrifaði stiftamtmanninum, Rantzau greifa, 13. september 1751 segir hann meðal annars: „Er ég ekki af hjarta velviljaður Íslandi? Hef ég nokkru sinni arnnað sýnt? Yður mun þykja landfógetinn raupsamur í meira lagi, og hefir hann lært það af Horrebow sem hefir.stórspillit honum, því áður var hann viðfelldinn maður og skynsamur. Annars þykir mér ásannast hið fornkveðna, að eigi sé hollt að hefja Íslendinga til vegs og virðingar, því síðan þessi maður varð lamdfógeti, er hann orðinn svo hrokafullur, að engu tali tekur í stuttu máli: hann er orðinn allur annar maður.“

Í gögnum Hörmangarafélagsins kemur fram að Pingel fékk árlegar greiðslur þaðan, væntanlega í því skyni að hann gætti hagsmuna félagsins, meðal annars með því að vinna gegn framfarabrölti Íslendinga. Þess má þó geta að á fyrstu árum sínum studdi Pingel málstað og kvartanir Íslendinga gegn kaupmönnum í bréfum til stjórnvalda og fer stundum hörðum orðum um framferði þeirra. En Pingel átti í miklum fjárhagserfiðleikum og var því mjög háður kaupmönnum. Hann var stórskuldugur og var á endanum settur úr embætti af þeim sökum 8. maí 1752 og Magnús Gíslason skipaður í hans stað, fyrstur Íslendinga.

Pingel hafði raunar farið úr landi 1750 og kom ekki aftur til Íslands þótt komið hafi til tals að skipa hann stiftamtmann eftir lát Rantzaus 1768. Hann hlaut etatsráðsnafnbót og mun hafa lagt stund á ölgerð. Fyrri kona hans var Margrethe Elisabeth Franchin (1726 – 1753). Þau giftust í Kaupmannahöfn 3. desember 1743. Að minnsta kosti fjögur börn þeirra fæddust á Íslandi en þegar þau voru komin aftur til Danmerkur lést Margrethe í mars 1753 af barnsförum. Pingel giiftist Anna Marie Lyders (1721 – 16. mars 1795) í Kaupmannahöfn 28. janúar 1756. Pingel lést í febrúar 1779 í Skaarup í Danmörku.

Heimildir breyta

  • „Johan Christian Pingel“. Á geni.com, skoðað 6. apríl 2013.
  • „Skúii verður fógeti“. Lesbók Morgunblaðsins, 18. nóvember 1945.
  • „Amtmaðurinn og mútan“. Morgunblaðið, 19. júlí 1970.
  • „Einokunarfélögin 1733-1758“. Andvari, 1. tbl. 1939.


Fyrirrennari:
Joachim Henriksen Lafrentz
Amtmaður
(17451752)
Eftirmaður:
Magnús Gíslason