Benedikt Þorsteinsson (lögmaður)
Benedikt Þorsteinsson (12. júlí 1688 – 1733) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 18. öld. Hann bjó í Rauðuskriðu í Reykjadal.
Foreldrar Benedikts voru Þorsteinn Benediktsson sýslumaður í Bólstaðarhlíð í Húnaþingi og kona hans Halldóra Erlendsdóttir. Benedikt var við nám í Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1707-1708 en þá kom hann heim og varð sýslumaður í Þingeyjarsýslu tvítugur að aldri. Því embætti gegndi hann allt til dauðadags.
Þegar Oddur Sigurðsson lögmaður kom ekki til þings 1716 var Benedikt skipaður til að sitja í lögmannssæti og árið eftir varð hann varalögmaður norðan og vestan. Oddur var settur af embætti 1726 og varð Benedikt þá lögmaður en hafði þó ekki nema hálf laun fyrr en búið var að dæma í máli Odds í hæstarétti. Benedikt var veikur vorið 1733, treysti sér ekki til að ríða til þings og bað Magnús Gíslason lögmann að gegna störfum fyrir sig á þinginu. Hann dó svo sama ár.
Árið 1726 fékk Benedikt leyfi hjá konungi til að mega reisa kirkju í Rauðuskriðu á eigin kostnað, en þar hafði áður verið kirkja en var löngu aflögð. Honum entist þó ekki aldur til og lauk Jón sonur hans verkinu.
Kona Benedikts var Þórunn Björnsdóttir (1690 – 28. janúar 1748), dóttir Björns Péturssonar sýslumanns á Bustarfelli í Vopnafirði og Guðrúnar Marteinsdóttur konu hans.
Heimildir
breyta- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Fyrirrennari: Oddur Sigurðsson lögmaður |
|
Eftirmaður: Alexander Christian Smith |