Mýraeldar
Mýraeldar voru miklir sinueldar í Hraunhreppi í Borgarbyggð sem loguðu í þrjá daga vorið 2006. Að morgni 30. mars blossaði upp eldur í sinu sem fór um 75 km² landsvæði á Mýrum, en alls brunnu um 67 km² lands. Þetta voru nefndir „mestu sinueldabrunar Íslandssögunnar”.[1][2]
Líklegt er talið að kviknað hafi í út frá vindlingi við þjóðveg 54 á móts við Bretavatn. Sinueldurinn barst mjög hratt, um 18 kílómetra á fyrstu sex klukkustundunum. Brennda svæðið var allt á milli þjóðvega 54, 540 og 537, að undanskilinni einni tungu sem náði suður fyrir veg 537. Þegar mest var var eldveggurinn allt að tveggja metra hár og fór með tuga metra hraða á mínútu.
Sinueldarnir voru slökktir með gríðarlegu slökkvistarfi af hálfu íbúa svæðisins, brunavarna Borgarbyggðar, aðstoðarslökkviliðs frá nærliggjandi byggðarlögum og þyrlu frá Þyrluþjónustunni. Engar skemmdir urðu á mannvirkjum, að girðingum undanskildum en margir bæir voru mjög nálægt því að verða eldinum að bráð. Bærinn Hamrar var einungis örfáa metra frá eldinum á tímabili. Eldarnir höfðu gífurleg áhrif á lífríki svæðisins, en svæðið sem brann var eitt stærsta samfellda mýrlendi á landinu og er í raun nær lagi að tala um náttúruhamfarir en venjulegan sinubruna. Engin meiðsl urðu þó á fólki.
Sinubruninn
breytaSinubrunar höfðu þegar átt sér stað í Reykholtsdal og Skorradal, auk minni bruna í Grafarvogi. Samkvæmt heimildum blossaði sinueldurinn upp að morgni 30. mars eftir að vegfarandi hafði stöðvað bíl sinn við veg 54, andspænis Bretavatni og nálægt gatnamótum vegar 539 og í ógætni kastað sígarettustubbi eða vindli í grassvörðinn sunnan vegar.[3] Þá var NNA-átt, 13 m/s.
Veðurfar á landinu hafði verið afar þurrt og kalt. Köld norðanátt var einkennandi fyrir síðustu 10 daga marsmánaðar og fyrstu dagana í apríl og var vindur allhvass lengst af. Þá var mjög þurrt um sunnanvert landið, en snjókoma norðan- og austanlands.[4]
Vegna þurrka var gróðurinn á Mýrum eldfimur, eldurinn átti því auðvelt með að festa sig í sinu sem myndast við slíkar aðstæður. Klófífa, bláberjalyng og fjalldrapi eru útbreidd á Mýrum og stór flæmi af þessu gróðurlendi brunnu í Mýraeldum.
Útbreiðsla
breytaEldurinn barst mjög hratt og líklegt er að hann hafi borist framhjá Fíflholti (þó ekki að bænum) á um einni klukkustund. Eldveggurinn var um tveggja metra hár um þetta leyti og fór yfir með margra metra hraða á sekúndu. Hann barst til sjávar, um 18 km. leið, á sex klukkustundum, enda var þá nánast engin fyrirstaða.
Að kvöldi hins 30. mars var sinubruninn kominn yfir stórt svæði á milli vega 540 og 537, en mannvirkjum stóð ekki veruleg ógn af, öðrum en Skíðsholtum, sem tókst að bjarga. Um það leyti var sinubruninn farinn að hægja á yfirferð sinni og bæir norðan hins brunna svæðis, Fíflholt, Einholt, Stóri-Kálfalækur og Akrar, voru komnir úr mestu hættunni. Bæir niður við sjó voru ekki í verulegri hættu og máttu þakka það góðum aðstæðum. Hins vegar var ljóst að bæir suðaustan svæðisins voru í verulegri hættu.[5][6]
Aðfaranótt 31. mars hafði eldurinn breiðst lítillega út til vesturs, hann var þó hvergi farinn að nálgast þjóðveginn. Það má þakka góðu veðurfari, en vindur var lítill um nóttina. Um klukkan 10 að morgni jókst vindur aftur og snerist í norðanátt. Þá slapp eldurinn yfir Sauraveg nr. 537 á um eins kílómetra vegspotta, norður af bænum Hömrum. Þar með var um 30 km² landsvæði komið í bráða hættu og baráttan tók að snúast um að bjarga Hömrum. Bæirnir Laxárholt og Ánastaðir voru sömuleiðis í mikilli hættu.[5]
Lok brunans
breytaSú ákvörðun var tekin að reyna að hefta útbreiðslu eldsins við bæinn Ánastaði, enda var ljóst miðað við reynsluna sem fékkst við Hamra, að enga áhættu mætti taka og að minnka yrði eldinn áður en hann kæmi að veginum.[heimild vantar] Við Saura, nálægt upptökum eldsins, gekk slökkvistarf vel og tókst að koma í veg fyrir að eldurinn næði að skapa hættu þar.[heimild vantar]
Að kvöldi 31. mars hafði tekist að slökkva eldinn að mestu leyti. Þó logaði enn, mest við Ánastaði. Daginn eftir hélt slökkvistarf áfram en þá voru bæir úr mestu hættunni og starf slökkviliðs miðaði frekar að því að slökkva eldinn en að bjarga húsum.[heimild vantar]
Um klukkan 23:30 að kvöldi 1. apríl var ljóst af hálfu lögreglunnar í Borgarnesi að eldarnir höfðu verið slökktir. Gæsla var þó höfð áfram. Þá höfðu 67 km² lands brunnið.[7][8]
Slökkvistarf
breytaAðilar
breytaMýraeldar hefðu án efa orðið mun stærri hefði ekki komið til umfangsmikilla björgunar- og slökkviaðgerða af hálfu ýmissa aðila undir stjórn lögreglunnar í Borgarnesi. Aldrei hefur komið til svo víðtækra aðgerða vegna sinubruna hér á landi. Þegar mest var tóku um hundrað manns þátt í aðgerðunum.[9]
Lögreglan í Borgarnesi
breytaUm klukkan hálf níu þann 30. mars barst lögreglunni í Borgarnesi tilkynning um að sinubruni væri á svæðinu frá Fíflholti og að afleggjara upp í Hítardal. Lögreglan stjórnaði aðgerðum og tryggði öryggi vegfarenda og íbúa á svæðinu.[heimild vantar]
Slökkviliðsstörf
breytaSlökkviliðið í Borgarnesi var fyrsti viðbragðsaðilinn til að bregðast við eldunum. Síðdegis þann 30. mars, þegar slökkviaðgerðir voru að hefjast af fullri alvöru, voru 12 slökkviliðsmenn, tveir tankbílar og tveir dælubílar að störfum á svæðinu. Fyrst um sinn snerist starf slökkviliðsins að mestu leyti um að tryggja öryggi mannvirkja á brunasvæðinu, en þá var baráttan við eldinn mjög erfið vegna umfangs hans og skorts á aðstoð. Slökkviliðið vann nánast stanslaust við slökkvi- og björgunaraðgerðir frá 30. mars til 1. apríl, en það hafði yfir að ráða hálfum öðrum tug manna.
Slökkvilið frá nágrannasveitafélögum, milli Akraness og Búðardals, aðstoðaði slökkvilið Borgarness við aðgerðirnar frá 31. mars. Slökkvilið Borgarfjarðarsveitar, slökkviliðið á Akranesi og slökkviliðið í Búðardal tóku þátt í björgunaraðgerðunum. Dælubíl slökkviliðsins í Reykjavík, frá Reykjavíkurflugvelli auk annars búnaðar þaðan og tankbíla frá ýmsum fyrirtækjum í Borgarnesi voru fengnir að láni svo hægt væri að berjast við eldinn. Undir lokin leystu björgunarsveitir slökkviliðin af og vöktuðu svæðið síðustu dagana.[10][11]
Íbúar
breytaÍbúar svæðisins aðstoðuðu við aðgerðirnar strax frá byrjun og haugsugur bænda alls staðar að úr Borgarfirði og Mýrum voru afar öflug tæki í baráttunni við eldinn. Þær skáru gróðurinn í burtu og bjuggu til svæði sem eldurinn náði þar með ekki yfir. Bændur bleyttu einnig í vegum með kúamykju og sandfor, sem tryggði í flestum tilfellum að eldurinn næði ekki yfir þá. Bændur voru stærsti hluti þeirra sem unnu að slökkvistarfi og komu hvaðanæva að úr Borgarfirði og af Mýrum til að aðstoða við aðgerðir. Vegna fjölda þeirra tókst ennfremur að tryggja öryggi á öllu svæðinu.[heimild vantar]
Þyrla Þyrluþjónustunnar
breytaÞyrla frá Þyrluþjónustunni var fengin til að aðstoða við aðgerðirnar um hádegi þann 31. mars. Þetta var í fyrsta sinn sem þyrla hefur verið fengin til slökkviaðgerða hér á landi. Talið er að þyrlan hafi gert mikið gagn í baráttunni við sinueldinn.[12]
Framvinda aðgerða
breytaUm klukkan níu morguninn 30. mars barst lögreglunni í Borgarnesi tilkynning um sinubruna. Það markaði upphaf aðgerða. Á næstu viku tóku um 200 manns í heildina þátt í björgunar- og slökkvistarfi um allt brunasvæðið. Aðgerðum lauk að mestu leyti 2. apríl og var að fullu lokið þann 5. apríl.
Upphaf aðgerða
breytaÞegar tilkynningin barst fóru slökkviliðsbílar þegar af stað frá Borgarnesi að Fíflholti, þar sem tilkynnt var að eldurinn væri. Fljótt var ljóst að ekki væri mögulegt að ráða við svo víðáttumikinn eld, og slökkvistarf snerist um að bjarga húseignum. Fljótlega komu bændur á nálægum bæjum einnig til aðstoðar. Með hjálp þeirra tókst að koma í veg fyrir að eldurinn næði að bæjunum Skíðsholtum og Vogi.[13].[14]
Baráttan við eldinn
breytaAð kvöldi 30. mars var slökkvistarf komið í fullan gang og um það leyti unnu um 70 manns að björgunaraðgerðum. Skipulag slökkvistarfsins var gott, haugsugur voru notaðar þar sem eldurinn var hvað mestur og auk þess að slökkva eldana var slökkvilið í ráðleggingarhlutverki að því leyti. Slökkvilið var aðallega statt við Skíðsholt og reyndi að verja íbúðarhúsnæði, en þá var ekki talin hætta á að eldurinn bærist í nein önnur hús. Aðfaranótt 31. mars breiddist eldurinn lítið út og voru vegir þá vættir með mykju og sandfor.[15]
Morguninn 31. mars höfðu tólf jarðir brunnið. Slökkviliðið hafði þá fengið aðstoð frá fyrirtækjum í Borgarnesi sem útveguðu tankbíla til slökkvistarfanna. Um tíuleytið skapaðist mikil hætta þegar eldur slapp yfir Sauraveg, en ástæða þess er talin vera sú að vatn sem dælt hafði verið á veginn hafði frosið. Nú ógnaði eldurinn ennfremur um 30 km² landsvæði, og á því svæði eru fjórir bæir. Lögreglan vissi ekki af þessari ógn fyrr en nokkru síðar, þar sem Sauravegur var seinfær.[heimild vantar]
Ötullega var unnið að slökkvistarfi á öllu svæðinu um morguninn og allan eftirmiðdaginn. Slökkvilið Akraness kom með liðsauka um klukkan eitt, en þá voru fyrir slökkvilið Borgarness og Borgarfjarðarsveitar og bændur með haugsugur sínar. Um sextíu manns lögðu mikla vinnu í það að reyna nú að slökkva eldinn í stað þess að verjast honum og var stefnan sett á það að stöðva för eldsins við Ánastaði og reyna í framhaldinu að slökkva hann. Þá var þyrla Þyrluþjónustunnar einnig komin til starfa og gerði hún mikið gagn.[16]
Eldurinn slökktur
breytaVeðuraðstæður versnuðu og nú var orðið mjög hvasst á svæðinu. Seint um kvöldið 31. mars var loks farið að draga úr eldinum og var slökkvistarf þá miðað við Ánastaði, þar sem enn var mikið bál. Þrátt fyrir að bjartsýni hafði aukist var ennþá talið að slökkvistarfi yrði haldið áfram næstu viku eða svo. Slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli kom um kvöldið með dælubíl sem nota skyldi við að slökkva eldinn endanlega.[heimild vantar]
Þann 1. apríl bötnuðu veðursskilyrðin. Fjöldi björgunarsveitamanna var kallaður út til að leysa slökkviliðið af enda var slökkvistarfi þá að miklu leyti að ljúka. Vonir voru til þess að eldurinn yrði slökktur um kvöldið.
Síðla kvölds þann 1. apríl tókst að slökkva eldana. Gæsla var þó enn höfð á svæðinu enda var ætlunin að tryggja að eldarnir kæmu ekki upp aftur. Á þessum tíma var talið að allt að 150 km² hefðu brunnið, en síðar kom í ljós að sú tala var ýkt.[17][18] 2. apríl skipaði lögreglan í vakthópa til að slökkva glóðir sem víða leyndust í mosa, enda var ætlunin þá að koma endanlega í veg fyrir að eldarnir blossuðu upp aftur. Nú var beðið eftir að byrjaði að snjóa, enda var talið að þá myndi baráttunni vera endanlega lokið. Það gerðist að lokum þann 3. apríl.
Gæsla var á svæðinu í tvo daga til viðbótar, en gæslumenn þurftu lítið sem ekkert að aðhafast.
Áhrif
breytaMýraeldar höfðu gífurleg áhrif og vöktu strax mikla athygli fyrir umfang sitt, sem var áður óþekkt á Íslandi. Þeir höfðu mikil áhrif á náttúrufar og búskap á öllum Mýrum og leiddu auk þess til mikillar umræðu í þjóðfélaginu, um réttlætingu sinubruna og öryggisviðbúnað þegar svo gríðarlegs slökkvistarfs var krafist.
Áhrif á náttúru
breytaÁrið 1996 og 1997 kortlagði Náttúrufræðistofnun Íslands gróður á svæðinu sem brann og samkvæmt því var stærstur hluti svæðisins blautur flói og mýrlendi með tjörnum og vötnum á milli grjótholta. Það gróðursamfélag sem var algengast var klófífuflói með fjalldrapa og bláberjalyngi. Þessa tegund gróðurlendis er einkum að finna á Mýrum og Snæfellsnesi sunnanverðu, en sjaldgæft annars staðar á landinu, og því er ljóst að svæðið hefur mikið náttúrulegt gildi. Svo virtist sem hinn víðáttumikli og mjög svo þýfði fífuflói hafi farið verst út í brunanum, og fjalldrapinn mun líklega ekki ná sér fyrr en eftir mörg ár. Sinan á þessu svæði var eins mikil og raun bar vitni vegna lítillar beitar á svæðinu, en fjalldrapinn var það sviðinn að það sem eftir stóð var að mestu leyti dautt. Lyngtegundir virtust líka hafa farið illa út úr brunanum, en tegundir sem vaxa í mjög miklu votlendi sluppu betur, svo sem starir og glófífa. Ástæðan fyrir því er talin sú að vatnsstaðan var há og einungis efstu stráin brunnu. Smárunnar og birki sluppu einnig vel.[19]
„Í stuttu máli brennur sinan og þau efni sem breytast í lofttegundir fara upp í loftið, s.s. köfnunarefni og kolefni. Steinefnin verða hins vegar eftir, yfirborðið verður svart og hitnar þar af leiðandi meira í sólskini um vorið,“ sagði Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur.[20] Hann sagði einnig að þróunin í framtíðinni myndi líklega verða sú að meira yrði um grös, sem geta nýtt sér áburð mjög vel, en minna um smárunna og kjarr. Mýraeldar höfðu einnig áhrif á dýralíf. Varp fugla hófst ekki fyrr en mánuði eftir eldana, svo að áhrifin á fugla voru takmörkuð, en hefðu eldarnir orðið þá hefðu áhrifin án efa orðið afdrifaríkari. Fuglar fundu sér nýja varpstaði þetta vor en þau áhrif eru ekki talin varanleg. Hagamýs urðu einnig fyrir miklum áhrifum sem og lífríki vatna og tjarna á svæðinu.[2]
Mikil mengun varð vegna eldanna. Milljónir rúmmetra af koltvísýringi og öðrum lofttegundum losnuðu út í andrúmsloftið og svartur reykurinn var sjáanlegur víðast hvar á Vesturlandi sem og utan úr geimnum. Þá barst mikið af ösku og öðrum efnum í grunnvatn svæðisins og er sá þáttur talinn mjög alvarlegur.
Sigríður Anna Þórðardóttir, þáverandi umhverfisráðherra, fól Náttúrufræðistofnun Íslands að rannsaka áhrif eldanna á náttúru svæðisins.[21] Í kjölfarið útbjó Náttúrufræðistofnun rannsóknaráætlun í samvinnu við Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs, rannsóknir hófust sumarið 2006 og lýkur árið 2010.[1] Fyrstu niðurstöður voru kynntar í mars 2007, ári eftir eldana.[22]
Áhrif á mannlíf
breytaFyrstu viðbrögð
breytaÍ tilkynningu frá Borgarbyggð þann 3. apríl var sagt að sinueldarnir á Mýrum væru „með mestu hamförum sinnar tegundar á landinu í áratugi”.[23] Með öflugri framgöngu og góðu samstarfi slökkviliða, lögreglu, ýmissa aðila sem buðu fram aðstoð sína og ekki síst íbúa í héraðinu hafi tekist að ráða niðurlögum eldsins. Tíminn leiði í ljós hvaða áhrif sinubruninn hafi á lífríki á svæðinu en mikilvægt sé að hefja rannsóknir í þeim efnum sem fyrst. Hins vegar sé mikið lán að enginn hlaut skaða í átökunum við eldana tekist hafi að halda eignatjóni í lágmarki. Landsmenn séu dýrkeyptri reynslu ríkari og skynji væntanlega betur en áður mögulegar afleiðingar þess að sinueldur verði laus við hliðstæðar aðstæður og þarna sköpuðust.[24]
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, skoðaði svæðið í Hraunhreppi. „Þarna hafa átt sér stað hrikalegar náttúruhamfarir. Landið er illa brunnið og illa farið. Það sem maður dáist mest að er að bændur, slökkvilið og þeir sem börðust við eldinn björguðu þrátt fyrir allt miklu", sagði hann í viðtali við Morgunblaðið þann 4. apríl.[25]
Álit viðbragðsaðila var að þrátt fyrir að mestu leyti hafi tekist að koma í veg fyrir tjón af völdum eldsins þá væru sinubrunar eins og Mýraeldar mjög hættulegir og að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til að takmarka áhættu þegar að sina væri brennd.
Áhrif á viðbragðsaðila
breytaEftir að hafa skoðað málið í kjölinn komust margir, m.a. bændur á svæðinu, að þeirri niðurstöðu að skipulag slökkvistarfs hafi ekki verið nógu gott og viðbrögðum almennt ábótavant. Brunamálastofnun hefur auk slökkviliðs og lögreglu víða um land ákveðið eftir þessa sinubruna að gera viðbragðsáætlun byggða á þeirri reynslu sem fékkst af atburðunum. Talið er afar mikilvægt að geta tekist á við elda eins og Mýraelda í sumarbústaðalöndum eða öðrum stöðum þar sem sinubruni gæti ógnað þéttbýli.[26][21]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „„Mýraeldar 2006 - áætlun um rannsóknir á áhrif eldanna á lífríki"“ (pdf). maí 2006.
- ↑ 2,0 2,1 „Fréttablaðið“ (pdf). 2. apríl 2006. bls. 6. Sótt 9. mars 2007.
- ↑ „Miklir sinueldar á Mýrum“. Sótt 26. mars 2007.
- ↑ „Veðurfarsyfirlit 2006“. Sótt 9. mars 2007.
- ↑ 5,0 5,1 „Eldurinn slapp yfir Sauraveg og hefur ný hætta skapast“. 31. mars 2006. Sótt 26. mars 2007.
- ↑ „Miklir sinueldar í Hraunhreppi á Mýrum“. 30. mars 2006. Sótt 26. mars 2007.
- ↑ „Sinueldarnir slökktir en víða leynist glóð í mosa; vakthópar skipaðir“. 2. apríl 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Búið að slökkva sinueld á Mýrum“. 2. apríl 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Mýraeldar: Svæðið vaktað“. 2. apríl 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „„Aldrei séð jafnmikinn sinubruna á svæðinu"“. 1. apríl 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Mýrar: Illa gengur að ráða niðurlögum elda“. 31. mars 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Björgunarsveitir kallaðar út á Mýrar“. 1. apríl 2006. Sótt 9. mars 2007.
- ↑ „Sinueldurinn hefur blossað upp á ný“. 1. apríl 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Miklir sinueldar á Mýrum“. 30. mars 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Séð fram á bruna fram í næstu viku“. 1. apríl 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Stefnt að því að hefta för sinueldsins á Mýrum við Ánastaði“. 31. mars 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Mýrar: Eldar ógna 2-3 bæjum“. 31. mars 2006. Sótt 29. mars 2007.
- ↑ „Mýrarnar vaktaðar - enn leynast glæður í gróðri“. 2. apríl 2006. Sótt 25. mars 2007.
- ↑ „Landið er víða illa farið“. 4. apríl 2006. Sótt 9. mars 2007.
- ↑ „„Aldrei séð jafnmikinn sinubruna á svæðinu"“. 1. apríl 2006. Sótt 9. mars 2007.
- ↑ 21,0 21,1 „Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands“. 6. apríl 2006. Sótt 25. mars 2007.
- ↑ „Ár liðið frá Mýraeldum“. 29. mars 2007. Sótt 31. mars 2007.
- ↑ „Borgarbyggð færir slökkviliðsfólki þakkir“. 3. apríl 2006. Sótt 25. mars 2007.
- ↑ „Landbúnaðarráðherra skoðar brunasvæðið á Mýrum“. 3. apríl 2006. Sótt 14. mars 2007.
- ↑ „Guðni Ágústsson skoðaði afleiðingar stórbrunans á Mýrum í gær“. 4. apríl 2006. Sótt 14. mars 2007.
- ↑ „Mýraeldar: Brýnt að læra af reynslunni“. 3. apríl 2006. Sótt 29. mars 2007.
Heimildir
breyta- Fyrstu niðurstöður rannsókna á afleiðingum Mýraeldanna Geymt 20 ágúst 2007 í Wayback Machine
- „Mýraeldar 2006 - áætlun um rannsóknir á áhrif eldanna á lífríki“ Geymt 28 september 2007 í Wayback Machine, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskóli Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs; maí 2006.
- Fréttir www.mbl.is tengdar sinubrunanum
- Fréttasafn Skessuhorns - apríl Geymt 22 mars 2016 í Wayback Machine
- Veðurfarsyfirlit Veðurstofunnar 2006
- Eldri veðurathugunarkort Veðurstofunnar
- Vefur Náttúrufræðistofu Kópavogs um upplýsingum á rannsóknum á áhrifum Mýraelda Geymt 28 september 2007 í Wayback Machine