Náttúrufræðistofa Kópavogs

Náttúrufræðistofa Kópavogs var opnuð í desember 1983. Til að byrja með var stofnunin til húsa að Digranesvegi 12 en hefur hún verið flutt í Hamraborg 6a, í sama hús og Bókasafn Kópavogs. Hlutverk Náttúrufræðistofunnar er að safna, varðveita og sýna náttúrugripi, ásamt því að standa að fræðslu og rannsóknum í náttúrufræðum og stuðla að náttúru- og umhverfisvernd.

Upphaf Náttúrufræðistofu Kópavogs má rekja til kaupa Kópavogsbæjar á skeldýrasafni Jóns Bogasonar. Þetta skeldýrasafn er einn af kjörnunum í náttúrugripasafni Náttúrufræðistofunnar. Einnig myndaðist töluvert fuglasafn á tímum Árna Waag sem var fyrsti forstöðumaður stofunnar. Á síðustu árum hefur svo orðið til gott safn af berg- og steintegundum. Það er Kópavogsbær sem stendur að rekstri stofunnar en hún hefur einnig aflað verulegra sértekna með útseldum verkefnum.

Húsnæði Náttúrufræðistofunnar er það fyrsta á landinu sem er hannað fyrir náttúrufræðisafn frá grunni og er því öll aðstaða og þjónusta eins og best verður á kosið. Náttúrufræðistofan sér um ýmsar rannsóknir og eru þær einkum á sviði vatnavistfræði. Unnin hafa verið verkefni af öllum stærðum og gerðum og í samstarfvi við aðrar rannsóknarstofnanir jafnt innanlands og utan. Sum verkefni hafa verið unnin fyrir eigin reikning en önnur hafa hlotið styrki. Einnig hefur verið nokkuð um útseld verkefni. Núverandi forstöðumaður er Finnur Ingimarsson (1.9.2014-) en hann er þriðji aðilinn sem gegnir þeirri stöðu. Fyrsti forstöðumaður var Árni Waag (1983-1992) og svo Hilmar J. Malmquist (1992-2014).

Tengt efni

breyta

Tengill

breyta

64°06.693′N 21°54.542′V / 64.111550°N 21.909033°V / 64.111550; -21.909033