Landbúnaðarháskóli Íslands

Landbúnaðarháskóli Íslands er íslenskur framhalds- og háskóli staðsettur á Hvanneyri, Reykjum í Ölfusi og á Keldnaholti í Reykjavík. Hann tók til starfa 1. janúar 2005 eftir samruna Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Garðyrkjuskólans á Reykjum og RALA. Þannig rekur skólinn einnig rannsóknarsetur á Keldnaholti, Hesti í Borgarfirði, á Möðruvöllum í Hörgárdal og Stóra-Ármóti í Flóa. Rektor er Ágúst Sigurðsson frá Kirkjubæ á Rangárvöllum.

Nám Breyta

Skólinn býður upp á nám við þrjár ólíkar deildir: Auðlindadeild, umhverfisdeild og starfs- og endurmenntunardeild þar sem hin síðastnefnda byggir á grunni Búnaðarskóla Suðuramtsins sem var stofnaður á Hvanneyri 1889. Við allar háskólabrautir er boðið upp á framhalds- og meistaranám.

Auðlindadeild Breyta

Undir auðlindadeild skólans fellur háskólanám í búvísindum til B.S-gráðu. Búvísindadeildin var stofnuð árið 1947 en áður hafði einungis verið búfræðinám við skólann. Búvísindin eru kennd á Hvanneyri; að mestu í Nýja-Skóla (Ásgarði) en einnig í öðrum húsum svo sem Nýja-Fjósi, Bútæknihúsi og Rannsóknarhúsi.

Umhverfisdeild Breyta

Við umhverfisdeild er boðið upp á þrjár námsbrautir, allar á háskólastigi. Þær eru:

 • Náttúru- og umhverfisfræði - kennsla í náttúrunýtingu, almennum náttúrufræðum, þjóðgörðum og verndarsvæðum og náttúru og sögu.
 • Skógfræði og landgræðsla - kennsla í skógarfræðum og landgræðslu með Ísland að sjónarmiði.
 • Umhverfisskipulag - grunnnám í landslagsarkitektúr.

Starfs- og endurmenntunardeild Breyta

Starfs- og endurmennturnardeildin hefur lengsta sögu allra brauta innan skólans og rekja rætur sínar til Búnaðarskóla Suðuramtsins og Garðyrkjuskólans á Reykjum. Brautir eru eftirfarandi:

 • Blómaskreytingabraut
 • Búfræðibraut (bændadeild)
 • Garðyrkjuframleiðsla
 • Skógur og umhverfi
 • Skrúðgarðyrkja

Allar brautirnar halda til á Reykjum nema bændadeildin sem er á Hvanneyri og nýtir sér aðstöðuna við kennslubúið og Bútæknihúsið sem tilheyrði áður RALA.

Félagslíf Breyta

Þar sem skólinn er nokkuð klofinn, en mestöll starfsemi fer fram á Hvanneyri, geta allir nemendur og starfsmenn ekki haft sama félagslífið. Félagslífið á Hvanneyri er öflugt undir stjórn Stúdentaráðs. Starfræktir eru meðal annars Lista- og menningarklúbbur, Útivistarklúbbur og Hestamannafélagið Grani en einnig minni klúbbar. Helstu viðburðir á skólaárinu eru Sprelldagur í september til að bjóða nýja nemendur velkomna, Árshátíð, Survivor Hvanneyri, þorrablót og minni uppákomur á vegum klúbbanna.

Viskukýrin Breyta

Viskukýrin er spurningakeppni Landbúnaðarháskólans og keppa þar sín á milli háskóladeildir, framhaldsnemar, starfsmenn, staðarbúar á Hvanneyri, bændadeild og nemendur og kennarar á Reykjum. Sigurvegarar hafa verið sem hér segir:

 • Starfsmenn bændadeildar (2005)
 • Framhaldsnemar (2006)
 • Staðarbúar (2007 og 2008)
 • Umhverfisskipulag (2009)
 • Búvísindi og hestafræði (2010)
 • Bændadeild (2011)

Keppnin er lífleg og spurningarnar úr öllum áttum. Spyrill hefur öll árin verið Logi Bergmann Eiðsson.[1][2]

Aðstaða Breyta

Hvanneyri og nágrenni Breyta

Á Hvanneyri falla öll hús kennslubúsins undir starfsemi skólans sem og öll skólahús, þar með talinn hluti skólastjórahússins sem hýsir hluta af bókasafni skólans. Eru þetta helst Ásgarður (Nýi-Skóli) sem einnig er aðalbygging skólans og heimavist, Rannsóknarhús, Gamli-Skóli sem hýsir bændadeild og skrifstofur meistaranema, Gamla-fjós (Halldórsfjós) með kennslustofu fyrir verklega kennslu í vélmjöltum, Bútæknihús (oftast kallað Bút) þar sem fer fram verkleg kennsla sem og bókleg, og Nýja-fjós sem tekið var í notkun í ágúst 2004. Er þar kennslustofa og nýtísku kennslufjós með mjaltaþjóni frá DeLaval.

Á Hesti í mynni Lundareykjadals er rannsóknarbú fyrir sauðfé og er það eitt fremsta sauðfjárbú í landinu í dag. Þar fer fram verkleg kennsla í sauðfjárrækt.

Á Mið-Fossum í Andakíl fer fram kennsla í hrossarækt og reiðmennsku. Þar er nýbyggð reiðhöll, reiðvöllur og ný hesthús fyrir nemendur skólans, sem og aðra Borgfirðinga. Var reiðhöllin blessuð 1. desember 2006 af Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi biskup Íslands. Við sama tilefni var gerður samningur milli Landbúnaðarháskólans, Landbúnaðarráðuneytis og Ármanns Ármannssonar, eiganda Mið-Fossa, um afnot skólans á aðstöðunni til 12 ára. Hestamannafélagið Faxi í Borgarfirði fær aðstöðuna einnig til afnota.

Neðanmálsgreinar Breyta

 1. „Spurningakeppnin Viskukýrin 2007“. Sótt 21. febrúar 2006.
 2. „Er Þollur rauðbrandhuppóttur eða rauðbrandsokkóttur?“. Sótt 21. febrúar 2006.

Tengill Breyta