Cristiano Ronaldo

portúgalskur knattspyrnumaður

Cristiano Ronaldo (fullt nafn Cristiano Ronaldo dos Santos Aveiro, fæddur 5. febrúar 1985 á Funchal á Madeira-eyjum) er portúgalskur knattspyrnumaður sem spilar sem framherji fyrir sádíska liðið Al-Nassr.

Cristiano Ronaldo
Upplýsingar
Fullt nafn Cristiano Ronaldo dos Santos Aveiro
Fæðingardagur 5. febrúar 1985 (1985-02-05) (39 ára)
Fæðingarstaður    Funchal, Madeira, Portúgal
Hæð 1,86 m
Leikstaða framherji/kantmaður
Núverandi lið
Núverandi lið Al-Nassr
Númer 7
Yngriflokkaferill
1993–1995
1995–1997
1997–2002
CF Andorinha
CD Nacional
Sporting CP
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
2002–2003 Sporting CP 25 (5)
2003–2009 Manchester United 196 (84)
2009–2018 Real Madrid 292 (311)
2018-2021 Juventus 98 (81)
2021-2022 Manchester United 40 (19)
2023- Al-Nassr 47 (49)
Landsliðsferill2
2002–2003
2003–
Portúgal U-21
Portúgal
2 (1)
207 (130)

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins og
síðast uppfært 12-6-2024.
2 Landsliðsleikir og mörk uppfærð
12-6-2024.

Ronaldo og Lionel Messi. Portúgal á móti Argentínu.

Ronaldo hóf feril sinn hjá Sporting Lissabon en var síðan keyptur til Manchester United þar sem hann gerði garðinn frægan. Hann lék síðar með spænska liðinu Real Madrid og hinu ítalska Juventus. Hann var kjörinn knattspyrnumaður ársins af FIFA árið 2008, 2013, 2014 og 2016. Ennfremur hefur hann unnið 32 titla með félagsliðum og landsliðum.

Ronaldo hefur skorað um 900 mörk fyrir félagslið og landslið og er meðal markahæstu leikmanna allra tíma. Fjöldi spilaðra leikja er um 1.200. [1] Hann er sá fyrsti til að ná 50 mörkum sex sinnum í röð með félagi sínu, sá fyrsti til að ná 100 mörkum í Evrópukeppnum og er markahæstur í Meistaradeild Evrópu. Hann er markahæsti landsliðsmaður allra tíma.

Leikni Ronaldo með boltann er mikil og er hann með mestu jafnvígur á báða fætur og getur því spilað báðum megin á vellinum. Hann er þekktur fyrir skærin sem hann tekur með fótunum.

Félagslið

Sporting CP

Þegar Ronaldo var tólf ára var hann farinn að hlaupa af sér fullorðna menn og gat því hæglega spilað með eldri flokkum í félagi sínu. Ferilinn hóf hann hjá Nacional stærsta liði Madeira-eyja, en fór fljótlega til Sporting Lissabon og í fyrsta leik sínum skoraði hann tvö mörk, draumabyrjun hjá liðinu sem hann hafði alla tíð haldið með. Alex Ferguson tók eftir honum í æfingaleik sem Manchester United spilaði við Sporting Lissabon og fékk strax áhuga á að fá hann til liðs við Manchester United. Lærisveinar hans sögðu við hann að hann yrði að kaupa piltinn og svo fór að hann var keyptur haustið 2003.

Manchester United

Ronaldo varð fyrsti Portúgalinn í herbúðum United þegar hann var keyptur á £12.24 milljónir punda árið 2003. Hann bað um treyju númer 28 (númerið hans hjá Sporting) en Ferguson sagði að hann skildi bera treyju nr. 7 sem er í goðsagnakennd í herbúðum United en leikmenn eins og David Beckham og Eric Cantona hafa borið þetta númer. Fyrsti leikur Ronaldos fyrir Manchester United var gegn Bolton Wanderers í 4-0 sigri. Hans fyrsta mark var úr aukaspyrnu var hins vegar gegn Portsmouth þann 1. nóvember 2003 í 3-0 sigri þeirra rauðklæddu. Fyrsti titill Ronaldos með Manchester United var þegar liðið varð bikarmeistari leiktíðina 2003-04. Síðan þá vann hann ensku úrvalsdeildina með liðinu 3 sinnum, deildarbikarinn og samfélagsskjöldinn tvisvar og United orðið Evrópumeistari- og heimsmeistari félagsliða einu sinni en það var árið 2008.

Þann 11. júní 2009 samþykkti Manchester United kauptilboð Real Madrid í Ronaldo upp á 80 milljónir punda eða 13 milljarða íslenskra króna.

Real Madrid

Um 80.000 aðdáendur hylltu Ronaldo á kynningu hans á Santiago Bernabéu þegar hann kom til Real árið 2009. Ronaldo spilaði fyrstu undir númerinu 9 þar sem 7 var upptekið af Raúl en tímabilið 2010-2011 fékk hann aftur treyju númer 7. Á tímabilinu 2011–12 skoraði hann 60 mörk í öllum keppnum og hafði aldrei skorað svo mikið. En tímabilið 2014–15 sló hann það með 61 mark. Tímabilið 2014-2015 skoraði Ronaldo 5 mörk í 9–1 sigri á Granada. Real Madrid hafði unnið 22 leiki í röð í byrjun tímabils áður en það tapaði gegn Valencia. Tímabilið 2015–16 fór Ronaldo fram úr Raúl sem mesti markaskorari liðsins með 230 mörk. Hann hafði þá skorað meira en 50 mörk á tímabilinu sjötta skiptið í röð.

Í lok árs 2016 skoraði Ronaldo 500. mark sitt í öllum keppnum (377 fyrir Madrid, 118 fyrir Manchester United og 5 fyrir Sporting Lisbon). Hann skrifaði undir samning við Real Madrid þangað til árið 2021. Árið 2017 í úrslitum Meistaradeildarinnar, skoraði hann tvö mörk í sigri gegn Juventus og varð markahæstur í Meistaradeildinni fimmta árið í röð.

Juventus

Eftir HM 2018 tilkynnti Ronaldo að hann myndi yfirgefa Real Madrid. Hann gerði 4 ára samning við ítölsku meistarana Juventus.

Ronaldo skoraði sína fyrstu þrennu í Serie A janúar 2020. Hann varð annar til að skora þrennu í Serie A, La Liga og Premier League ( á eftir Alexis Sánchez). En fyrstur til að skora fleiri en 50 mörk í áðurnefndum deildum. Hann varð markahæstur tímabilið 2020-2021 í Serie A.

Í ágúst 2021 bárust fréttir af því að Ronaldo hyggðist yfirgefa Juventus og að Manchester City yrði líklegur áfangastaður. Sú skipti gerðust ekki en hann ákvað að fara aftur til Manchester United.

Endurkoma í Manchester United

Ronaldo skrifaði undir 2 ára samning við United, sama dag og hann hafði verið orðaður við Man. City. Kaupverð var 25 milljón evrur. Samskipti við fyrrum þjálfara Alex Ferguson, fyrrum félagana Rio Ferdinand og Patrice Evra hjálpuðu til. Einnig var landi hans Bruno Fernandes, landsliðsfélagi hans og leikmaður United hluti af því. [2] Ronaldo skoraði tvennu í endurkomuleik sínum á Old Trafford. Hann skoraði sína fyrstu þrennu gegn Tottenham síðar á tímabilinu, sína fyrstu í 14 ár fyrir félagið.

Í apríl skoraði Ronaldo sitt 100. mark í ensku úrvalsdeildinni.

Ronaldo yfirgaf félagið í nóvember 2022 í kjölfar viðtals við fjölmiðlamanninn Piers Morgan þar sem hann gagnrýndi félagið. Í byrjun tímabilsins 2022-2023 var hann oftar en ekki á bekknum hjá nýjum stjóra, Erik ten Hag.

Al Nassr

Ronaldo gekk til liðs við sádíska liðið Al Nassr áramótin 2022/2023. Samningurinn sem var til 2025 gerði hann að launahæsta knattspyrnumanni sögunnar. [3]

Landslið Portúgals

Fyrsti landsliðsleikur Ronaldo var fyrir Portúgal gegn Kasakstan haustið 2003 og skoraði hann eina mark liðs síns í upphafsleik Evrópumeistaramótsins 2004 gegn Grikkjum. Ronaldo er fyrirliði portúgalska landsliðsins. Árið 2016 varð Ronaldo Evrópumeistari með landsliðinu. Ronaldo skoraði þrennu gegn Spáni á HM 2018 og alls 4 mörk í keppninni. Portúgal var þó slegið út í 16 liða úrslitum.

Ronaldo er markahæsti landsliðsmaður Portúgals og markahæsti landsliðsmaður allra tíma (hann sló met Íranans Ali Daei árið 2021). Hann er eini Evrópubúinn sem hefur skorað yfir 100 landsliðsmörk.

Árið 2021 sló hann met Michel Platini yfir flest mörk skoruð í lokakeppni Evrópumótsins þegar hann skoraði 2 mörk í lok leiks gegn Ungverjalandi á EM 2021. Við það komst hann í 11 mörk í keppninni. Hann var einnig markahæstur í keppninni, ásamt Tékkanum Patrick Schick, en hlaut gullskóinn vegna fleiri stoðsendinga. Um haustið sama ár skoraði hann 10. þrennu sína fyrir landsliðið og sló þá met og komst framúr Svíanum Sven Rydell [4].

Á HM 2022 varð hann fyrsti leikmaðurinn til að skora á 5 heimsmeistaramótum. Hann skoraði þó ekki meira og var settur á bekkinn síðustu 2 leikina eftir ósætti hans og þjálfarans. Portúgal féll úr keppni í 8. liða úrslitunum gegn Marokkó.

Í júní 2023 spilaði Ronaldo sinn 200. landsleik gegn Íslandi á Laugardalsvelli. Skoraði hann sigurmarkið á 90. mínútu.

Fjölskylda

Ronaldo var yngsti sonur foreldra sinna, Maria Dolores dos Santos Aveiro og José Dinis Aveiro. Hann fékk seinna nafn sitt í höfuð á þáverandi Bandaríkjaforseta Ronald Reagan, en Reagan var í miklu uppáhaldi hjá föður Ronaldo. Ronaldo á einn eldri bróður, Hugo, og tvær eldri systur, þær Elma og Liliana Cátia.

Ronaldo á fimm börn: Eitt með núverandi konu sinni, tvíbura sem staðgöngumóður gekk með og einn son hverrar barnsmóður hann hefur ekki gefið upp. Árið 2022 gekk kona hans, Georgina Rodríguez, með tvíbura, dreng og stúlku. Drengurinn lést í fæðingunni.

Titlar og verðlaun

Sporting CP

 • Supertaça Cândido de Oliveira: 2002

Manchester United

 • Premier League: 2006–07, 2007–08, 2008–09
 • FA Cup: 2003–04
 • Football League Cup: 2005–06, 2008–09
 • FA Community Shield: 2007
 • UEFA Champions League: 2007–08
 • FIFA Club World Cup: 2008

Real Madrid

 • La Liga: 2011–12, 2016–17
 • Copa del Rey: 2010–11, 2013–14
 • Supercopa de España: 2012, 2017
 • UEFA Champions League: 2013–14, 2015–16, 2016–17, 2017–18
 • UEFA Super Cup: 2014, 2017
 • FIFA Club World Cup: 2014, 2016, 2017

Juventus

Al Nassr

 • Arabíski meistarabikarinn: 2023

Portúgal

Einstaklingverðlaun og afrek (listi er ekki tæmandi)

 • FIFA Ballon d'Or: 2008, 2013, 2014, 2016, 2017
 • FIFA leikmaður ársins: 2008
 • UEFA Besti leikmaður Evrópu: 2014, 2016, 2017
 • Premier League leikmaður tímabilsins: 2006–07, 2007–08
 • Premier League Gullskórinn: 2007–08
 • La Liga Besti leikmaðurinn: 2013–14
 • Pichichi-bikarinn, markahæsti í La Liga: 2010–11, 2013–14, 2014–15
 • Serie A leikmaður ársins: 2019, 2020
 • Serie A markahæstur: 2020-2021
 • Saudi Pro League: Markahæstur 2023-2024
 • Markahæstur á EM 2021
 • Markahæstur á EM í knattspyrnu frá upphafi
 • Markahæsti landsliðsmaður frá upphafi.
 • Flestar þrennur fyrir landslið.

Tilvísanir

 1. News - Cristiano Ronaldo: Has the Juventus forward equalled world goalscoring record?[óvirkur tengill] BBC. Skoðað 12. janúar 2021.
 2. Cristiano Ronaldo: How Man Utd pulled off shock transfer BBC news, sótt 28/8 2021
 3. BBC News - Cristiano Ronaldo: New Al Nassr signing says work in Europe is done despite 'many opportunities'BBC, 3/1 2023
 4. Tíunda þrenna Ronaldo fyrir Portúgal Fótbolti.net, sótt 13 okt. 2021