Thierry Henry

franskur knattspyrnumaður og -þjálfari

Thierry Daniel Henry (f. 17. ágúst 1977) er fyrrum franskur knattspyrnuleikmaður og knattspyrnuþjálfari. Hann spilaði fyrir Arsenal, AS Monaco FC, Juventus, FC Barcelona og New York Red Bulls. Hann hefur þjálfað belgíska landsliðið sem aðstoðarþjálfari, franska liðið AS Monaco FC og MLS liðið Montreal Impact.

Thierry Daniel Henry (2008)

Henry hóf feril sinn sem kantmaður hjá Monaco undir stjórn Arsene Wenger. Seinna tók Juventus eftir hæfileikum hans og keypti hann en Henry gekk ekki vel hjá Juventus og sumarið 1999 eftir Heimsmeistarakeppnina í Frakklandi keypti Arsenal FC Henry. Arsene Wenger framkvæmdastjóri Arsenal setti hann í framherjastöðuna sem hann hafði spilað í alla yngri flokkana. Þar spilaði hann við hlið Dennis Bergkamp og mynduðu þeir eitt skæðasta framherjapar ensku deildarinnar. Henry skoraði 228 á sínum tíma með Arsenal (1999-2007), varð markakóngur fjórum sinnum (2002, 2004, 2005, 2006) og vann tvo deildartitla og þrjá FA bikartitla.

Eftir tímabilið 2006-2007 var Henry keyptur til FC Barcelona fyrir 24 milljónir evra. Þar lék hann til ársins 2010 þegar hann fluttist vestur um haf þar sem hann spilaði nokkur ár fyrir New York Red Bulls.

Hann hóf þjálfaraferil þegar hann gerðist aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins. Eftir það þjálfaði hann Mónakó en var rekinn eftir slakt gengi á miðju leiktímabili.

Thierry Henry er 7. markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 175 mörk. Hann á stoðsendingamet á einu tímabili sem hann deilir með Kevin De Bruyne, 20 talsins. Henry var lengi markahæsti leikmaður franska landsliðsins en Olivier Giroud jafnaði markamet hans árið 2022.


  Þetta æviágrip sem tengist knattspyrnu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.