Ingibjörg H. Bjarnason
Ingibjörg H. Bjarnason (f. á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867, d. 30. október 1941) var um langan aldur skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík og var fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi. Hún sat á Alþingi 1922-1930 fyrir sérstakan kvennalista (Kvennalistann eldri).
Ingibjörg H. Bjarnason | |||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Alþingismaður | |||||||||||||||||
| |||||||||||||||||
Persónulegar upplýsingar | |||||||||||||||||
Fædd | 14. desember 1867 Þingeyri við Dýrafjörð, Íslandi | ||||||||||||||||
Látin | 30. október 1941 (73 ára) Reykjavík, Íslandi | ||||||||||||||||
Stjórnmálaflokkur | Kvennalistinn (fyrir 1924) Íhaldsflokkurinn (1924–1930) Sjálfstæðisflokkurinn (frá 1930) | ||||||||||||||||
Æviágrip á vef Alþingis |
Uppvöxtur og menntun
breytaIngibjörg var dóttir Hákonar Bjarnasonar og Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur. Hákon og Jóhanna Kristín eignuðust 12 börn en aðeins fimm þeirra komust á legg. Bræður Ingibjargar sem komust á legg voru Þorleifur H. Bjarnason, Brynjólfur H. Bjarnason, Lárus H. Bjarnason og Ágúst H. Bjarnason. Hákon og Þóra Gísladóttir, fyrri kona hans, áttu dótturina Valgerði Sumarlínu (1855-1944). Ingibjörg missti föður sinn þegar vöruskip sem hann kom með frá Kaupmannahöfn, strandaði á Mýrdalssandi í „páskaveðrinu mikla“ 1877. Jóhanna, ekkja Hákonar og móðir Ingibjargar, rak útgerðina og verslunina nokkur ár eftir þetta.
Ingibjörg flutti að lokinni fermingu til Reykjavíkur og hóf nám í Kvennaskólanum í Reykjavík. Ingibjörg lauk kvennaskólaprófi í Reykjavík árið 1882 og stundaði nám hjá Þóru Pétursdóttur (einnig þekkt sem Þóra biskups) árin 1882—1884. Hjá Þóru stundaði hún nám í teikningu, dönsku og ensku. Árin 1884—1885 og aftur 1886—93 stundaði hún framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Hún stundaði nám í ýmsum greinum sem tengdust uppeldis- og menntamálum og kynntist m.a. Lingsleikfimi og lauk leikfimikennaraprófi fyrst Íslendinga vorið 1892 frá Poul Petersens Institut. Hún lagði ríka áherslu á mikilvægi íþróttakennslu. Hún dvaldist einnig erlendis 1901—3 og kynnti sér skólahald, aðallega í Þýskalandi og Sviss.
Störf að skólamálum og kennslu
breytaIngibjörg starfaði við kennslu í Reykjavík 1893—1901. Hún var kennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1903—6 og var hún nánasti samstarfsmaður Þóru Melsted sem þá stýrði skólanum. Þegar Þóra lét af störfum þá tók Ingibjörg við starfi hennar og var forstöðumaður, eða skólameistari/rektor skólans frá 1906 til æviloka, eða 1941. Hún arfleiddi Kvennaskólann að flest öllum eigum sínum og eru skrifstofuhúsgögn hennar enn á skrifstofu skólastjóra ásamt rúmi hennar og borðstofuhúsgögnum. Þess má geta að heimili Ingibjargar var í húsi Kvennaskólans, en skrifstofa skólameistara Kvennaskólans er enn þann dag á heimili hennar í Kvennaskólanum í Reykjavík og notast því við húsbúnað þann sem Ingibjörg arfleiddi skólann að.
Ingibjörg kenndi fyrstu árin meðal annars leikfimi, teikningu og handavinnu. Hún kenndi dans í einkatímum utan skólatíma. Síðar kenndi hún eingöngu teikningu, dönsku og heilsufræði fram til 1922. Eitt fyrsta verk hennar eftir að hún tók við stjórn skólans var að útvega húsnæði fyrir skólann en skólinn fluttist þá í leiguhúsnæði við Fríkirkjuveg.
Ingibjörg fylgdist vel með menntaumræðunni í samfélaginu og fór oft til útlanda til að kynna sér nýjar hugmyndir. Sem dæmi má nefna að Kvennaskólinn í Reykjavík var fyrsti skólinn sem kenndi umönnun ungabarna, skyndihjálp og heimahjúkrun.[1].
Stjórnmálaþátttaka og félagsmál
breytaIngibjörg var einn stofnenda Lestrarfélags kvenna í Reykjavík. Hún var í forystu tólf kvenna sem sömdu frumvarp sem var flutt á Alþingi árið 1915 um þörfina fyrir byggingu Landspítala og var formaður Landspítalasjóðs Íslands. Landspítalasjóðurinn hittist enn þann dag í dag í hverjum mánuði til fundarhalda á heimili Ingibjargar í Kvennaskólanum í Reykjavík í virðingarskyni við frumkvöðlastarf hennar við við stofnun sjóðsins og röggsamrar stjórnar hennar á honum til dauðadags. Hún sat í menntamálaráði 1928-1932.
Ingibjörg var landskjörinn alþingismaður 1922-30 og varaforseti efri deildar Alþingis um hríð. Hún var fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi og komst á þing fyrir sérstakan kvennalista (Kvennalistann eldri) sem spratt upp úr kvenréttindabaráttu þessa tíma. Hún gekk síðar til liðs við Íhaldsflokkinn sem síðar varð Sjálfstæðisflokkurinn. Þá sat hún á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn til ársins 1930. Hún var gagnrýnd fyrir að svíkja málstaðinn þegar hún gekk til liðs við karlaflokk. Hún barðist þó ávallt ötullega fyrir réttindum kvenna, allt fram til hins síðasta. Hátíðleg athöfn var haldin hinn 19. júní 2015 fyrir framan Alþingi Íslands, þar sem afhjúpuð var stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason.
Tilvísanir
breyta- ↑ Sigríður Briem Thorsteinsson, 1974
Heimildir
breyta- „Ingibjörg H. Bjarnason (Alþingisvefur)“. Sótt 11. mars 2006.
- „Ingibjörg H. Bjarnason (nemendaverkefni)“. Sótt 11. mars 2006.
- Minningargrein eftir candidatus theologiae Jón Val Jensson
- MÁLSVARI ÍSLENSKRA KVENNA
- Erindi flutt í Alþingishúsinu 8. Júlí 2012 í tilefni af því að þann dag voru 90 ár liðin frá því að Ingibjörg H.Bjarnason var kjörin á þing fyrst kvenna flutt af Kristínu Ástgeirsdóttur. Geymt 12 ágúst 2014 í Wayback Machine