Landspítalasjóður Íslands
Landspítalasjóður Íslands var formlega stofnaður af íslenskum konum þann 19. júní 1916, er eitt ár var liðið frá því að þær fengu kosningarétt. Markmið sjóðsins var að safna fé til byggingar Landspítala.
Til að fagna kosningaréttinum komu konur saman til fundar á Austurvelli í Reykjavík þann 7. júlí 1915. Meðal þeirra kvenna sem ávörpuðu samkomuna var Ingibjörg H. Bjarnason skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík og hvatti hún til þess að eitt helsta baráttumál kvenna á vettvangi stjórnmálanna yrði að stuðla að byggingu nýs spítala.[1] Í kjölfarið efndu nokkur kvenfélög í Reykjavík til fjársöfnunar og urðu framlögin stofnfé sjóðsins. Félögin voru Hið íslenska kvenfélag, Hvíta bandið, Kvenfélag Fríkirkjusafnaðarins. Kvenréttindafélag Íslands, Lestrarfélag kvenna, Thorvaldsensfélagið, Ungmennafélagið Iðunn og Verkakvennafélagið Framsókn.[2] Ingibjörg H. Bjarnason var fyrsti formaður sjóðsins og sinnti hún formennskunni til dauðadags árið 1941.
Vel gekk að safna fé í Landspítalasjóðinn og lögðu margir hönd á plóg. Byggingaframkvæmdir við Landspítalann hófust árið 1925 eingöngu með fjárframlagi úr Landspítalasjóðnum. Fjárframlag frá ríkinu barst ekki fyrr en ári síðar. Landspítalinn var vígður árið 1930 og kom þá fram að Landspítalasjóður hafði lagt fram þriðjung byggingakostnaðar.[3]
Þann 15. júní árið 1926 lagði Alexandrína drottning hornstein að byggingu Landspítalans. Í steininn er m.a. ritað „Hús þetta - Landsspítalinn - var reistur fyrir fje sem íslenskar konur höfðu safnað og Alþingi veitt á fjárlögum til þess að: Líkna og lækna.“[4]
Landspítalasjóður er enn starfandi (2019) og úr honum er veitt fé til stuðnings rannsóknum og vísindastarfi á spítalanum, til bættrar aðstöðu sjúklinga og til að styrkja hvers konar aðra starfsemi spítalans sjúklingum og starfsfólki til hagsbóta.[2]
Tilvísanir
breyta- ↑ Mli.is, „Ágrip af sögu Minningargjafasjóðs Landspítala“ Geymt 15 maí 2020 í Wayback Machine (skoðað 23. júní 2019)
- ↑ 2,0 2,1 „Skipulagsskrá fyrir Landspítalasjóð Íslands“, Stjórnartíðindi, 16. apríl 2008 (skoðað 23. júní 2019)
- ↑ Þórdís Sigurðardóttir, „Landspítalinn - óskabarn íslenskra kvenna“ Geymt 24 júní 2019 í Wayback Machine, 19. júní (tímarit), 64. árg. (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Sunna Ósk Logadóttir, „Landspítali eða Landsspítali“, Morgunblaðið, 15. janúar 2007 (skoðað 24. júní 2019)