Þingeyri

þéttbýli á Vestfjörðum

Þingeyri er þéttbýlisstaður í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Þorpið stendur við sunnanverðan Dýrafjörð, á eyri undir Sandafelli, og er talið draga nafn sitt af Dýrafjarðaþingi sem á árum áður var haldið á eyrinni. Á Þingeyri bjuggu 246 manns árið 2019. Þingeyrarhreppur var áður sérstakt sveitarfélag en sameinaðist fimm öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum 1. júní 1996.

Þingeyri. Séð ofan af Sandafelli yfir þorpið. Akfær vegur er upp á fellið.

Þingeyri var verslunarstaður um langan aldur og þar er meðal annars vörugeymslu- eða pakkhús frá 18. öld. Kauptún fór að myndast þar um miðja 19. öld og var þar þá meðal annars bækistöð bandarískra lúðuveiðimanna sem veiddu á Íslandsmiðum. Aðalatvinnuvegur er og hefur verið sjávarútvegur og þjónusta við hann og elsta starfandi vélsmiðja landsins, stofnuð 1913, er á Þingeyri. Ferðaþjónusta er einnig vaxandi atvinnugrein. Grunnskólinn á Þingeyri fagnaði 110 ára afmæli þann 27. nóvember 2007.[1] Á 21. öldinni var einn helsti atvinnurekandinn á Þingeyri útgerðarfyrirtækið Vísir allt til ársins 2014.[2][3][4] Við tók fyrirtækið Íslenskt sjávarfang.[5]

Bygging Þingeyrarkirkju hófst 1909 og var hún vígð 9. apríl 1911. Hún er teiknuð af Dýrfirðingnum Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt en altaristöfluna málaði Þórarinn B. Þorláksson listmálari.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, ólst að hluta til upp á Þingeyri hjá afa sínum og ömmu.

Eitthvað hefur borið á því að fasteignir á Þingeyri séu keyptar og nýttar sem sumarhús.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. „Skólinn á Þingeyri 110 ára gamall“. Sótt 29. desember 2007.
  2. „Lokun Vísis áminning um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu“. 2014.
  3. „Vísir með 70% ársverka í sjávarútvegi á Þingeyri“. 2014.
  4. „Nýr fiskvinnslukafli í sögu Þingeyrar“. 1999.
  5. „Starfsfólki hefur fjölgað og atvinna er stöðug“. 2015.
  6. „Þingeyri að breytast í sumarhúsabyggð“. 2012.

Tenglar

breyta