Fríkirkjuvegur er gata í miðbæ Reykjavíkur sem liggur samhliða Tjörninni austanmegin og tekur við af Sóleyjargötu í suðri. Í framhaldi af Fríkirkjuvegi til norðurs er Lækjargata.

Tjörnin í átt að Fríkirkjuvegi. Á myndinni sjást Miðbæjarskólinn og Fríkirkjan.

Gatan dregur nafn sitt af Fríkirkjunni í Reykjavík sem stendur við Fríkirkjuveg 5 en kirkjan var reist árið 1902. Byrjað var að leggja Fríkirkjuveginn um 1903 en áður lá þar götuslóði um austurbakka Tjarnarinnar sem nefndist Skálholtskotsvegur. Fríkirkjuvegar var fyrst getið í manntali árið 1908 en elsta húsið við götuna er Miðbæjarskólinn sem reistur var árið 1898[1] en hið yngsta er Fríkirkjuvegur 7 frá 1917 sem hýsir nú Listasafn Íslands en hýsti áður íshús og síðar skemmtistaðinn Glaumbæ.[1] Meðal annarra þekktra bygginga við götuna er aðalbygging Kvennaskólans í Reykjavík við Fríkirkjuveg 9.

Við götuna stendur einnig hið veglega hús Thors Jensens, að Fríkirkjuveg 11 sem nú í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, en Thor Jensen var langafi Björgólfs. Það olli töluverðum deilum er Björgólfur keypti húsið af Reykjavíkurborg árið 2008.[2]

Norðanmegin við Fríkirkjuna eru Fríkirkjuvegur 1 og 3. Miðbæjarskólinn var til húsa á Frikirkjuvegi 1 en nú fer þar fram hluti af starfsemi Kvennaskólans. Húsið að Fríkirkjuvegi 3 var íbúðarhús Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings og yfirkennara í Menntaskólanum í Reykjavík og Maríu Kristínar Claessen konu hans og fjölskyldu þeirra. Vinnuveitendasambandið átti húsið um tíma og síðar Reykjavíkurborg[3] en nú eru þar skrifstofur fyrirtækisins Fossar markaða.

Öll húsin við Fríkirkjuveg, að undanskildu húsi Listasafns Íslands, eru friðuð.

Tengt efni breyta

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 Páll V. Bjarnason og Helga Maureen Gylfadóttir, „Húsakönnun Mæðragarðurinn og Tjörnin í Reykjavík“ Geymt 10 maí 2021 í Wayback Machine, bls. 10 (Reykjavík 2004)
  2. Visir.is, „Björgólfur Thor kaupir Fríkirkjuveg 11“ (skoðað 10. maí 2021)
  3. Freyja Jónsdóttir, „Fríkirkjuvegur 3“, Morgunblaðið 28. maí 2002 (skoðað 10. maí 2021)