Fríkirkjuvegur
Fríkirkjuvegur er gata í miðbæ Reykjavíkur sem liggur samhliða Tjörninni austanmegin og tekur við af Sóleyjargötu í suðri. Í framhaldi af Fríkirkjuvegi til norðurs er Lækjargata.
Gatan dregur nafn sitt af Fríkirkjunni í Reykjavík sem stendur við Fríkirkjuveg 5 en kirkjan var reist árið 1902. Byrjað var að leggja Fríkirkjuveginn um 1903 en áður lá þar götuslóði um austurbakka Tjarnarinnar sem nefndist Skálholtskotsvegur. Fríkirkjuvegar var fyrst getið í manntali árið 1908 en elsta húsið við götuna er Miðbæjarskólinn sem reistur var árið 1898[1] en hið yngsta er Fríkirkjuvegur 7 frá 1917 sem hýsir nú Listasafn Íslands en hýsti áður íshús og síðar skemmtistaðinn Glaumbæ.[1] Meðal annarra þekktra bygginga við götuna er aðalbygging Kvennaskólans í Reykjavík við Fríkirkjuveg 9.
Við götuna stendur einnig hið veglega hús Thors Jensens, að Fríkirkjuveg 11 sem nú í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, en Thor Jensen var langafi Björgólfs. Það olli töluverðum deilum er Björgólfur keypti húsið af Reykjavíkurborg árið 2008.[2]
Norðanmegin við Fríkirkjuna eru Fríkirkjuvegur 1 og 3. Miðbæjarskólinn var til húsa á Frikirkjuvegi 1 en nú fer þar fram hluti af starfsemi Kvennaskólans. Húsið að Fríkirkjuvegi 3 var íbúðarhús Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings og yfirkennara í Menntaskólanum í Reykjavík og Maríu Kristínar Claessen konu hans og fjölskyldu þeirra. Vinnuveitendasambandið átti húsið um tíma og síðar Reykjavíkurborg[3] en nú eru þar skrifstofur fyrirtækisins Fossar markaða.
Öll húsin við Fríkirkjuveg, að undanskildu húsi Listasafns Íslands, eru friðuð.
Tengt efni
breytaTilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Páll V. Bjarnason og Helga Maureen Gylfadóttir, „Húsakönnun Mæðragarðurinn og Tjörnin í Reykjavík“ Geymt 10 maí 2021 í Wayback Machine, bls. 10 (Reykjavík 2004)
- ↑ Visir.is, „Björgólfur Thor kaupir Fríkirkjuveg 11“ (skoðað 10. maí 2021)
- ↑ Freyja Jónsdóttir, „Fríkirkjuvegur 3“, Morgunblaðið 28. maí 2002 (skoðað 10. maí 2021)