Mýrdalssandur er jökulsandur á sunnanverðu Íslandi.

Horft yfir Mýrdalssanda af Höfðabrekkuheiði

Mýrdalssandur var áður engi og skógi vaxinn og allmikil byggð þar en Kötlugos hafa eytt byggð því þeim fylgja jökulhlaup og öskufall. Byggðalag sem nefnist Tólfahringar en það voru 12 bæir norðan Skaftártungu lagðist líka í eyði. Jökulhlaupin í kjölfar gosa haf aukið sand fram í sjó þannig að nú er fjörusandur þar sem áður var 20 faðma dýpi. Á landnámstíð var fjörður inn með Hjörleifshöfða. Fyrsta gosið varð 894 og það næsta 1000 og þá varð hlaup um Mýrdalssand og þriðja gosið og jökulhlaup því samfara var árið 1311 og var það kallað Sturluhlaup. Það var kennt við Sturlu Arngrímsson bónda í Lágey en hann bjargaðist úr hlaupinu á jaka með ungbarn í fanginu og rak á honum út á sjó og á Meðalllandsfjörur eftir nokkra daga. Þetta hlaup tók af marga bæi og fórust allir þar. Fjórða hlaupið kom árið 1416, það fimmta árið 1580 og það sjötta 1612. Sjöunda hlaupið varð árið 1625 og varð þá mikið öskufall. Áttunda hlaupið var árið 1660 og stóð 3-12 nóvember. Níunda hlaupið varð 1721 en það hófst 11. maí. Tíunda hlaupið var árið 1755. Ellefta hlaupið var 1823 og stóð í 28 daga. Tólfta hlaupið varð árið 1860 og rann það í 16 sólarhringa. Þann 12. okt., 1918 fundust jarðskjálfakippir á Vík í Mýrdal og gufumekkir sáust yfir og miklir dynkir heyrðust til fjalla en fram vestanverðan Mýrdalssand rann dökkmórauð jökulflóðsalda sem bar við himinn og féll til sjávar beggja megin við Hjörleifshöfða. Landgræðsla Ríkisins hóf árið 1979 að sá melgresi á Mýrdalssandi en það var liður í að hefta sandfok við þjóðveg 1.

Mýrdalssandur hefur verið einn af tökustöðum nokkurra stórmynda. Stjörnustríðsmyndin Rogue One: A Star Wars Story var m.a. tekin upp við Hjörleifshöfða og Hafursey á Mýrdalssandi.

Hafursey er 582 m hátt fjall sem rís upp úr sandinum.

Heimildir

breyta
  • Katla jökulhlaup October 12th, 1918
  • „Hvað getur þú sagt mér um Kötlugosið 1918?“. Vísindavefurinn.
  • Mýrdalssandur uppgræðsluáætlun (Landgræðsla Ríkisins 2014)[óvirkur tengill]
  • Kötlugosið Vísir, 280. tölublað (14.10.1918), Bls 2-3)
  • Jökulhlaup af Kötlugosum,Fréttir, 167. tölublað (15.10.1918), Bls.3-4
  • Mýrdalssandur, Morgunblaðið, 201. tölublað (01.09.1929), Blaðsíða 6

Tengill

breyta