Ágúst H. Bjarnason
Ágúst Hákonarson Bjarnason (20. ágúst 1875 – 22. september 1952), var doktor í sálfræði. Ágúst var frumkvöðull í kennslu í sálarfræði og ritun bóka um sálarfræði á Íslandi. Hann samdi meðal annars fyrstu bókina um sálarfræði á íslensku.
Menntun
breytaÁgúst lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn árið 1894. Bylting varð í sögu sálfræði og heimspeki á Íslandi þegar Ágúst hélt svo ásamt Guðmundi Finnbogasyni til náms í Hafnarskólann í sálarfræði og heimspeki. Þeir luku báðir meistaraprófi árið 1901 og luku svo doktorsprófi árið 1911. Báðir höfðu þeir sálfræði sem aðalgrein. Lærifaðir Ágústs hét Harald Høffding en hann var heimspekiprófessor við Hafnarháskólann og samdi gagnmerka kennslubók, Psykologi i omrids, sem var ein helsta kennslubók í sálfræði á vesturlöndum, en hún kom út árið 1882. Doktorsritgerð Ágústs fjallaði um franska heimspekinginn Jean-Marie Guyau.
Kennsla, skriftir og skólastjórnun
breytaÁgúst ritaði fjölda greina en þekktasta og áhrifamesta rit hans er almennt talið Yfirlit yfir sögu mannsandans, sem byggðist á fyrirlestrum sem hann hélt á meðan hann var á síðustu metrunum á Hannesarstyrknum (Hannesar Árnasonar) við doktorsnám sitt og kom út í Reykjavík í fimm bindum á árunum 1905–1915, og síðar í endurskoðaðri, en ófullgerðri, útgáfu undir nafninu Saga mannsandans á árunum 1949-1954.
Þá gaf Ágúst út bókina Drauma-Jói sem kom út 1915 hjá Sigfúsi Eymundssyni. Þar eru sannar sagnir af Jóhannesi Jónssyni frá Ásseli og tilraunir sem Ágúst gerði á Drauma-Jóa, en það þótti merkilegt rannsóknarefni og mun ritið vera hið fyrsta sinnar tegundar um dulsálarfræði á Íslandi.
Í umsögn um bókina var skrifað: „Drauma-Jói var einkennilegur maður. Það var hægt að spyrja hann sofandi og þá sagði hann hluti sem áttu að vera öllum huldir. Hann ljóstraði oft upp málum sem áttu ekki að komast fyrir almenning. Hann vildi meina að draugar væru miklar víðara hugtak en menn töldu. Hann sá hluti sem voru týndir í draumi. Hann varð svona strax sem krakki. Einu sinni vísaði hann á koffort sem ferðakona týndi og hann sá hvað var í því og gat lýst því. Hann talaði alltaf með lokuð augun.“[heimild vantar]
Ágúst var um langa hríð meðútgefandi að [[Iðunn (tímarit)|Iðunni] ásamt tengdaföður sínum Jóni Ólafssyni. Þá er Ágúst sagður hafa samið greinina „Konunginn vantar“ eftir konungsheimsóknina 1907, en það var samt opinberlega eignað tengdaföður hans. Guðni Pálsson prentari og síðar skipstjóri lýsti útför prentfrelsisins og hinnar frægu greinar á þennan veg:
„Byrjað var að dreifa blaðinu um bæinn, þegar yfirvöldin komust á snoðir um greinina og efni hennar og var blaðið þegar í stað bannað. Eitthvað 200 eintök voru þá þegar farin, en restina bárum við Þorvaldur pólití út á Arnarhól og brenndum. Við keyptum 5 lítra af steinolíu hjá Jóni Þórðarsyni, sömuleiðis eldspýtur og aragrúi af krökkum og hundum fylgdu prentfrelsinu til grafar, en við Þorvaldur brenndum hvert eintak samviskusamlega.“
Þá var Ágúst mikilvirkur þýðandi og þýddi meðal annars hina merku bók Kjarnorka á komandi tímum sem var gefin út eftir stríð.
Ágúst var í hópi fyrstu kennara í Verzlunarskóla Íslands og kenndi þar þýsku.
Ágúst var skipaður prófessor í heimspeki árið 1911 við Háskóla Íslands og þar með fyrsti prófessorinn með doktorsgráðu við Háskóla Íslands, ef frá er talinn rektorinn sjálfur, Björn M. Ólsen. Ágúst var rektor Háskóla Íslands 1918 og 1928 og skólastjóri Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928 til 1944.
Ágúst samdi bækur bæði fyrir heimspeki og sálfræði en bók hans Almenn sálarfræði sem kom út árið 1916 var fyrsta íslenska frumsamda sálfræðibókin. Í bókinni er meðal annars komið inn á bakgrunn sálfræðinnar í heimspeki, rannsóknaraðferðir greinarinnar, einstök rannsóknarsvið eins og sáleðlisfræði Fechners, minnisrannsóknir Ebbinghaus og kenningar James og Lange um eðli tilfinninga. Bókin var byggð á kennslu hans í skólanum. Hann samdi einnig merkilegt rit um tilfinningar og kom að rannsóknum um dulræn fyrirbæri.
Fjölskylda
breytaFaðir: Hákon Bjarnason, kaupmaður og útgerðarmaður á Bíldudal, V-Barð., f. 5. sept. 1828, d. 2. apríl 1877. For.: Bjarni Gíslason, bóndi í Ytri-Görðum og víðar í Staðarsveit, Snæf., síðar prestur á Söndum í Dýrafirði, V-Ís., f. 11. júní 1801, d. 30. sept. 1869, og k.h. Helga Árnadóttir, húsfreyja, f. 29. mars 1791, d. 15. jan. 1860.
Móðir: Jóhanna Kristín Þorleifsdóttir, húsfreyja á Bíldudal, f. 16. des. 1834, d. 11. jan. 1896. For.: Þorleifur Jónsson, prófastur í Hvammi í Hvammssveit, Saurbæjarhr., Dal., f. 8. nóv. 1794, d. 1. maí 1883, og fyrri k.h. Þorbjörg Hálfdánardóttir, húsfreyja, f. 21. maí 1800, d. 20. jan. 1863.
Fyrri kona Hákonar Bjarnasonar var Þóra Gísladóttir, f. að Kaldaðanesi 1825. Hún var dóttir Gísla Sigurðssonar, f. að Kollabúðum á Reykjanesi 2. janúar 1783 - d. 20. júní 1862 og konu hans Sólveigu Jónsdóttur, f. að Kaldbaki Kaldrananesi 25. nóvember 1789 - d. 30. maí 1866.
Hákon og Þóra áttu dótturina Valgerði Sumarlínu, f. í Flatey á Breiðafirði 19. apríl 1855 og d. 1944 í Danmörku. Hún fluttist til Danmerkur og kvæntist þar Jacobi Kiil. Þeim varð tveggja barna auðið, Jóhannes Kiil og Ingeborg Johanne Kiil sem kvæntist Adolf Paludan Seedorff í Álaborg, f. 14. september 1893 - d. 1 september 1953 í Risskov. Frá Valgerði er kominn allstór fjölskylda mikilhæfs fólks sem von er. Ágúst ræktaði vel tengsl við systur sína og hennar fólk allt á sinni tíð. Þá hafa margir úr fjölskyldunni haldið sambandi fram á þennan dag (2014) við danska leggin sem frá Valgerði er kominn.
Ágúst ólst upp hjá foreldrum sínum á Bíldudal. Faðir hans, Hákon Bjarnason, rak þar þróttmikla verslun og þilskipaútgerð. Þótti hann dugnaðar- og atorkumaður hinn mesti, en þessi þilskipaútgerð hið vestra var komin á legg hjá Hákoni áður en hún var komin til svo nokkru næmi hið syðra, á höfuðborgarsvæðinu sem nú er kallað. Hákoni hafði þar að auki tekist að koma framleiðsluvöru sinni í það álit erlendis að besti saltfiskurinn frá Íslandi var kallaður „Bíldudalsfiskur“ og hélst það lengi síðan. Hákon umsvifamaður féll frá á besta aldri, aðeins 49 að aldri. Vöruskip sem hann kom með frá Kaupmannahöfn, strandaði á Mýrdalssandi í „páskaveðrinu mikla“ 1877 og fórst hann ásamt flestum þeim sem á skipinu voru. Ekkja Hákonar, móðir Ágústs, rak útgerðina og verslunina nokkur ár eftir þetta. Ágúst var einungis tæpra 2. ára þegar faðir hans fórst.
Ágúst kvæntist Sigríði Jónsdóttur Ólafsson Bjarnason f. 18. apríl 1883. Foreldrar hennar voru Jón Ólafsson ritstjóri, skáld og Alþingismaður og Helga Eiríksdóttir Ólafsson frá Karlsskála í Reyðarfirði. Þau áttu fimm börn: Hákon Bjarnason f. 1907, Helgu f. 1909, Jón Ólaf f. 1911, Maríu Ágústu f. 1912 og Harald f. 1922.
Systkini Ágústs sem komust á legg :
- Valgerður Sumarlína H. Kiil
- Þorleifur H. Bjarnason
- Brynjólfur H. Bjarnason
- Lárus H. Bjarnason
- Ingibjörg H. Bjarnason
Rit
breyta- Yfirlit yfir sögu mannsandans bindi I-V (1905 - 1915)
- Doktorsrit um Jean-Marie Guyau (1911)
- Almenn rökfræði (1913, 1925)
- Drauma-Jói (1915)
- Almenn sálarfræði (1916, 1938)
- Um tilfinningalífið (1918)
- Siðfræði (1924–1926)
- Heimsmynd vísindanna (1931)
- Vandamál mannlegs lífs (1943–1945)
- Saga mannsandans (endurskoðuð, en ófullgerð, 1949-1954)