Elevþeríos Venízelos

Forsætisráðherra Grikklands (1864-1936)
(Endurbeint frá Elefþerios Venizelos)

Elevþeríos Kýríakú Venízelos (ritað Ελευθέριος Κυριάκου Βενιζέλος á grísku; 23. ágúst 1864 – 18. mars 1936) var grískur stjórnmálamaður sem vann að auknu sjálfstæði og frjálslyndum lýðræðisumbótum innan Grikklands.[1][2] Sem formaður Frjálslynda flokksins gegndi hann embætti forsætisráðherra Grikklands frá 1910 til 1920 og 1928 til 1933. Áhrif Venízelosar á innan- og utanríkismál Grikklands voru svo djúpstæð að hans er jafnan minnst sem „stofnföður Grikklands sem nútímaríkis.“[3] David Lloyd George forsætisráðherra Bretlands taldi Venízelos „mesta stjórnarleiðtoga sem Grikkland hefur kastað upp frá dögum Períklesar.“[4]

Elevþeríos Venízelos
Ελευθέριος Βενιζέλος
Forsætisráðherra Grikklands
Í embætti
6. október 1910 – 25. febrúar 1915
Í embætti
10. ágúst 1915 – 24. september 1915
Í embætti
14. júní 1917 – 4. nóvember 1920
Í embætti
24. janúar 1924 – 19. febrúar 1924
Í embætti
4. júlí 1928 – 26. maí 1932
Í embætti
5. júní 1932 – 4. nóvember 1932
Í embætti
15. janúar 1933 – 6. mars 1933
Persónulegar upplýsingar
Fæddur23. ágúst 1864
Mournies, Krít, Tyrkjaveldi (nú Grikklandi)
Látinn18. mars 1936 (71 árs) París, Frakklandi
ÞjóðerniGrískur
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn
MakiMaria Katelouzou (1891–1894)
Elena Skylitsi (1921–1936)
Börn2
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Venízelos lét fyrst á sér bera í alþjóðamálum þegar hann lék lykilhlutverk í að tryggja sjálfstæði Krítar og síðan sameiningu Krítar við Grikkland. Honum var brátt boðið til Grikklands til að leysa stjórnarkreppuna sem þar ríkti og gerast forsætisráðherra. Honum tókst að koma á efnahags- og stjórnarskrárumbótum sem lögðu grunninn að nútímavæðingu gríska þjóðfélagsins og að endurskipuleggja land- og sjóher Grikklands svo hann yrði reiðubúinn komandi átökum. Í aðdraganda Balkanstríðanna árin 1912–1913 stóð Venízelos fyrir inngöngu Grikkja í Balkanskagabandalagið, bandalag Balkanríkja gegn Tyrkjaveldi. Eftir sigur bandalagsins á Tyrkjum tókst Venízelos að tvöfalda landsvæði og íbúafjölda Grikklands með því að frelsa Makedóníu, Epírus og flestar eyjarnar í Eyjahafi.

Í fyrri heimsstyrjöldinni (1914 – 1918) leiddi Venízelos Grikki inn í hóp Bandamanna og tókst að þenja út landamæri Grikklands enn frekar. Þetta olli miklum ágreiningi milli Venízelosar og Konstantín konungs Grikklands sem hafði meiri samúð með Miðveldunum og vildi því viðhalda hlutleysi Grikkja. Djúpstæð gjá myndaðist í grísku samfélagi milli stuðningsmanna Venízelosar annars vegar og konungsins hins vegar og átti hún eftir að leiða til stöðugs rígs og valdabaráttu í marga áratugi.[5] Eftir sigur Bandamanna í stríðinu tryggði Venízelos Grikklandi mikla landvinninga, sérstaklega í Anatólíu, sem komst nærri því að uppfylla draum Grikkja um að sameina alla grískumælandi þjóðflokka í eitt ríki. Þrátt fyrir þessi afrek tapaði Venízelos í þingkosningum árið 1920, sem stuðlaði að ósigri Grikkja í stríði þeirra við Tyrki á árunum 1919–22. Venízelos var fulltrúi Grikkja í samningaviðræðum sem leiddu til þess að sáttmáli við Tyrki var undirritaður í Lausanne. Sáttmálinn leiddi til þess að Grikkland og Tyrkland skiptust á íbúum hvorrar þjóðarinnar sem bjuggu í hinu ríkinu.

Í seinni embættistíð sinni tókst Venízelos að bæta samband Grikkja við nágrannaríkin og hélt áfram stjórnarskrár- og efnahagsumbótum sínum. Árið 1935 kom hann aftur inn á stjórnmálasviðið til að styðja misheppnað valdarán hersins. Þessi afglöp veiktu mjög gríska lýðveldið sem hann hafði sett á fót.

Heimild

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Kitromilides, 2006, Eleftherios Venizelos: The Trials of Statesmanship. Edinburgh: Edinburgh University Press, bls. 178
  2. 'Liberty Still Rules' Geymt 25 maí 2013 í Wayback Machine, Time, 18. febrúar, 1924
  3. Duffield J. W., The New York Times, 30. október, 1921, sunnudagur link
  4. Patrick Kinross, Ataturk: The Rebirth of a Nation, Orion Publishing Group, 2001, 18. kafli, The Partition of Turkey?
  5. Intrigue in Greece The Argus, Melbourne, 4. júlí 1916, bls. 7, National Library of Australia, sótt 18. júlí 2017