Balkanskagabandalagið

Balkanskagabandalagið var herbandalag sem sett var á fót árið 1912 með sáttmálum milli Balkanríkjanna Grikklands, Búlgaríu, Serbíu og Svartfjallalands og beindist gegn Tyrkjaveldi[1], sem réð á þeim tíma enn yfir stórum svæðum á Balkanskaga. Ófremdarástand hafði ríkt á Balkanskaga frá byrjun 20. aldarinnar vegna margra ára stríðsástands í Makedóníu, Ungtyrkjabyltingarinnar í Tyrklandi og umdeildrar innlimunar Bosníu og Hersegóvínu í Austurríki-Ungverjaland. Stríð Tyrkja við Ítali árið 1911 hafði einnig veikt stöðu Tyrkjaveldis og hleypt eldi í æðar Balkanríkjanna. Að áeggjan Rússa lögðu Serbía og Búlgaría deilumál sín til hliðar og gengu þann 13. mars árið 1912 í bandalag sem upphaflega átti að beinast gegn Austurríki-Ungverjalandi[2] en beindist í reynd gegn Tyrkjaveldi eftir að leynilegum viðauka var bætt við samninginn.[3] Serbía skrifaði svo undir bandalagssamning við Svartfjallaland og Búlgaría við Grikkland. Balkanskagabandalagið vann bug á Tyrkjum í fyrra Balkanstríðinu sem hófst í október 1912 og tókst að hafa af Tyrkjaveldi nánast öll evrópsk landsvæði þess. Eftir sigurinn kom hins vegar upp ágreiningur milli bandamannanna um skipti landvinninganna, sérstaklega Makedóníu, og leystist bandalagið í raun upp í kjölfarið. Litlu síðar réðst Búlgaría á fyrrum bandamenn sína og byrjaði síðara Balkanstríðið.

Landamæri Balkanríkjanna fyrir og eftir Balkanstríðin.

Bakgrunnur breyta

 
Bosníudeilan árið 1908 umbylti jafnvægi valda á Balkanskaga og hratt af stað atburðarás sem stuðlaði að myndun Balkanskagabandalagsins. Forsíða franska tímaritsins Le Petit Journal.

Eftir Krímstríðið (1853–1856) gerðu Rússar sér grein fyrir að hin stórveldin svífðust einskis til að koma í veg fyrir að Rússaveldi hefði aðgang að Miðjarðarhafinu. Fóru Rússar því að leggja á ráðin um að þenja út veldi sitt á óbeinan hátt með stuðningi og bandalögum við smærri ríki á Balkanskaga. Í þessu skyni nýttu þeir sér slavneska þjóðernishyggju sem miðaði við að stofna sjálfstæð ríki Slava á Balkanskaganum. Stuðningur við Slava einkenndi því rússneska utanríkisstefnu alveg fram að endalokum rússneska keisaraveldisins árið 1917.[4] Eftir sigur Rússa á Tyrkjum í stríði árin 1877–78 settu Rússar á fót sjálfstætt búlgarskt ríki. Á svipaðan hátt neyddu Rússar Tyrkjaveldi til að viðurkenna sjálfstæði og útþenslu Serbíu árið 1878.[5] Þessi tvö ríki viðurkenndu bæði áhrif Rússa á svæðinu en hagsmunaárekstrar þeirra leiddu til mikillar óvinsemdar og jafnvel stutts stríðs á milli þeirra. Þar sem óvild Evrópuveldanna í garð Rússa færðist stöðugt í aukana og áríðandi var að ná sér niðri á Austurríkismönnum fyrir að innlima Bosníu vildi Rússland ekkert frekar en að til yrði „Slavablokk“ vinveitt þeim á Balkanskaga. Ætti hún að beinast bæði gegn Austurríki-Ungverjalandi og Tyrkjaveldi. Rússneskir erindrekar fóru því að hvetja Serbíu og Búlgaríu til að miðla málum og mynda með sér bandalag.

Annar stuðull að myndun bandalagsins var uppreisn í Albaníu árið 1911. Svo virðist sem samningaviðræður Serba og Búlgaríumanna hafi gengið í takt við framgang uppreisnarinnar. Í maí 1912 tókst Albönum að neyða Tyrki til að veita Albaníu aukna sjálfsstjórn. Þetta var reiðarslag fyrir Serba því nú var úti um von þeirra til að þenja út ríki sitt til suðurs þar sem albanskt sjálfsstjórnarhérað átti að vera. Serbar þurftu nú að þreyta kapphlaup við tímann gegn stofnun sjálfstæðs albansks ríkis. Búlgaríumenn notfærðu sér þessar áhyggjur Serba til að knýja fram stefnumál sín og neyða Serba til að láta af tilkalli sínu til hluta Makedóníu. Lokasamningur ríkjanna tveggja mælti svo fyrir um að ef ríkin sigruðust á Tyrkjaveldi í stríði skyldi Búlgaría fá alla Makedóníu sunnan línu milli bæjanna Ohrid og Kriva Palanka. Serbía átti að fá landsvæðið norðan við línuna, þ.á.m. Kosóvó, fram að ströndum Adríahafs. Serbía átti í raun að fá Albaníu í stað Makedóníu, sem átti eftir að leiða til deilnanna sem leystu upp bandalagið árið 1913 þegar stórveldi Evrópu kröfðust þess að Albanía yrði sjálfstætt ríki og neituðu Serbíu um landvinningaa í þá átt.

 
Balkanskagi við stofnun Balkanskagabandalagsins, fyrir Balkanstríðin.

Búlgaría hafði lagt á ráðin um útþenslu á kostnað Tyrkjaveldis síðan landið öðlaðist sjálfstæði í stríði Rússa við Tyrki. Eftir að þeim tókst að innlima Austur-Rúmelíu höfðu Búlgaríumenn lagt á ráðin um óbeina útþenslu með því að stofna uppreisnarhópinn IMRO í Makedóníu, þar sem Tyrkir réðu enn ríkjum. IMRO sagðist beita sér fyrir frelsun „makedónsku þjóðarinnar“. Í raun var um að ræða leppfélag Búlgaríumanna sem átti að stuðla að stofnun sjálfstæðs ríkis í Þrakíu og Makedóníu, sem átti síðan að vera innlimað í Búlgaríu líkt og Austur-Rúmelía. IMRO-hópurinn náði nokkrum árangri í fyrstu en Serbar og Grikkir gerðu sér fljótt grein fyrir tilgangi hans. Hófst þá hrottalegur skæruhernaður milli málaliða Búlgaríumanna og Grikkja í tyrknesku Makedóníu. Átökunum lauk ekki fyrr en Ungtyrkir komust til valda í Tyrkjaveldi og lofuðu öllum þegnum þess frelsi og jafnrétti óháð trú og þjóðerni. Búlgaría tók þá stefnuna á beina útþenslu með hersigri og hóf að byggja upp mikinn her í því skyni þar til Búlgaríumenn fóru að líta á sjálfa sig sem „Prússland Balkanskaga.“[6] Þó var bersýnilegt að Búlgaría gæti ekki sigrað Tyrki ein síns liðs í stríðsátökum og að þörf var á bandalagi. Með því að bæta viðauka í frumsáttmálann hugðust Búlgaríumenn beita serbneska hernum til að hertaka meginhluta Makedóníu á meðan búlgarski herinn gæti einbeitt sér að Þrakíu og að því að hertaka stórborgirnar Adríanópólis og Konstantínópel.

Í Grikklandi höfðu herforingjar gert uppreisn í ágúst 1909 og komið til valda umbótasinnaðri stjórn undir forystu Elefþeriosar Venizelosar, sem þeir vonuðust til að gæti limað Krít inn í Grikkland á ný eftir ósigur Grikkja gegn Tyrkjum árið 1897. Í aðildarviðræðum Grikkja að bandalaginu neitaði Búlgaría að skuldbinda sig til nokkurra sáttmála um skiptingu landvinninga með Grikkjum, ólíkt sáttmála þeirra við Serba um skiptingu Makedóníu. Búlgaríumenn höfðu lítið álit á gríska hernum og töldu að búlgarski herinn gæti auðveldlega hertekið meirihluta Makedóníu og hafnarborgina Þessalóníku áður en Grikkirnir næðu þangað. Þó var aðild Grikkja að bandalaginu bráðnauðsynleg til þess að áætlunin gæti heppnast því Grikkir voru eina Balkanríkið með sterkan herskipaflota og því voru þeir einir færir um að koma í veg fyrir að Tyrkjum bærist liðsauki sjóleiðina til Evrópu frá Asíu. Grískur erindreki í Sófíu lýsti hlutverki Grikkja í bandalaginu sem svo: „Grikkland getur boðið upp á 600.000 menn fyrir stríðsreksturinn, 200.000 menn á vígvöllinn og flotinn getur komið í veg fyrir að Tyrkland flytji 400.000 á milli Saloniku og Gallipoli.“

Svartfjallaland var mun smærra ríki en þó náinn bandamaður Serba og var talið annars flokks aðili að bandalaginu. Landið þáði boð Serba um aðild sem greiða þar sem það ásældist smávægileg landsvæði við Sanjak og norður-albönsku borgina Shkodra.

Annar stuðull að stofnun bandalagsins var augljós veikleiki Tyrkjahersins. Tyrkjaveldi hafði háð stríð við Ítali í ár (29. september 1911 – 18. október 1912) í Líbíu þegar Ítalir gerðu innrás í Trípólí. Ítölum hafði lítið miðað áfram og mótstaða Tyrkja hafði verið sterkari en búist var við, en stríðið hafði reynt mjög á Tyrkjaveldi. Auk þess hafði hertaka Ítala á Tylftareyjum, þar sem Grikkir voru í meirihluta, sannfært Grikki um að þeir myndu tapa á því að taka ekki þátt í yfirvofandi stríði við Tyrkjaveldi.

Viðbrögð stórveldanna breyta

 
Áróður hernaðarbandalagsins, 1912.

Þróun bandalagsins fór ekki fram hjá evrópsku stórveldunum, en þótt opinbert samlyndi ríkti á milli þeirra um að virða skyldi landamæri Tyrkjaveldis rak hvert veldi fyrir sig eigin utanríkisstefnu á svæðinu vegna ólíkra hagsmuna. Sameiginleg opinber aðvörun Evrópuvaldanna til Balkanríkjanna gerði lítið til að koma í veg fyrir að átök brytust út á skaganum þar sem mikið var um óformleg skilaboð af ýmsu tagi sem gáfu vísbendingu um sundrungu þeirra og hagsmunaárekstra á Balkanskaga.

  • Rússland stóð að myndun bandalagsins og leit á það sem ómetanlegt vopn í væntanlegu stríði gegn keppinaut sínum, Austurríki-Ungverjalandi.[7] Rússar vissu þó ekkert um áætlanir Búlgaríumanna í Þrakíu og Konstantínópel. Þau landsvæði ásældust Rússar sjálfir og höfðu gert samkomulag við Frakka og Breta um að fá að innlima þau eftir væntanlegt stríð við Miðveldin.
  • Frakkland taldi sig ekki tilbúið til að heyja stríð gegn Þýskalandi árið 1912 og var því afar andsnúið Balkanskagabandalaginu. Frakkar létu bandamenn sína, Rússa, vita að þeir myndu ekki taka þátt í stríði milli Rússlands og Austurríkis ef því yrði hleypt af stað vegna bandalagsins. Frökkum mistókst þó að sannfæra Breta um að hjálpa sér við að koma í veg fyrir átök á Balkanskaga.
  • Bretland studdi óbreytt landamæri Tyrkjaveldis opinberlega en hvatti Grikki þó á bak við tjöldin til að ganga í bandalagið til að skapa mótvægi við áhrifum Rússa. Á sama tíma ýttu Bretar undir áætlanir Búlgaríumanna til að hernema Þrakíu þar sem þeir vildu heldur að Þrakía yrði búlgörsk en rússnesk.
  • Austurríki-Ungverjaland sóttist eftir aðgangi að Adríahafi á kostnað Tyrkja og var mjög á móti því að nokkurt annað ríki legði undir sig landsvæði þar. Veldi Habsborgara átti auk þess við vanda að glíma vegna mikils fjölda Slava sem bjó innan ríkja þess og beitti sér gegn þýsk-ungverskri stjórn alþjóðaríkisins. Serbar höfðu ekki farið leynt með metnað sinn til að innlima Bosníu og því litu Austurríkismenn á þá sem óvini og leiksoppa Rússa sem ynnu að því að espa upp Slava innan keisaraveldisins.
  • Þýskaland var þá þegar á kafi í innanríkismálefnum Tyrkjaveldis og stóð opinberlega gegn því að stríð yrði háð gegn bandamanni sínum. Þjóðverjar áttu þó von á væntanlegum ósigri Tyrkjaveldis og voru áfjáðir í að fá Búlgaríu til liðs við Miðveldin. Því voru þeir opnir fyrir þeirri hugmynd að ganga í bandalag með sterkari Búlgaríu í stað Tyrkja og töldu þann kost vel mögulegan þar sem konungur Búlgaríu var af þýskum uppruna og afar andsnúinn Rússum.

Balkanskagabandalaginu þótti tækifærið of gott til að láta ganga úr greipum sér þar sem Tyrkjaveldi var veikburða og íþyngt af innanlandsátökum. Í lok september tóku herir Balkanríkjanna og Tyrkjaveldis sér stöðu. Svartfjallaland var fyrsta ríkið sem lýsti yfir stríði, þann 8. október 1912 og hóf þannig fyrra Balkanstríðið. Hin ríkin þrjú settu Tyrkjum úrslitakosti þann 13. október en lýstu síðan yfir stríði þann 17. október.

Eftirmálar og afleiðingar breyta

 
Áróðursplakat af Balkanskagabandalaginu í Balkanstríðunum. Á því stendur: "Balkanríkin gegn harðstjóranum!"
 
Hér sjást landvinningar Balkanríkjanna eftir fyrra Balkanstríðið og útþenslulína samkvæmt leynilegu fyrirstríðssamkomulagi Serbíu og Búlgaríu.

Í stríðinu batt sameinaður her Balkanríkjanna enda á yfirráð Tyrkja í Evrópu. Sigur bandalagsins reyndist þó stuttlífur. Óvild ríkti enn meðal aðildarríkjanna og eftir sigur þeirra á Tyrkjum í fyrra Balkanstríðinu kom hún aftur upp á yfirborðið, sérstaklega þegar kom að skiptingu Makedóníu. Ágreiningurinn braut upp bandalagið og síðara Balkanstríðið braust fljótt út þegar Búlgaríumenn, fullvissir um að eiga auðveldan sigur vísan, réðust gegn Serbíu og Grikklandi. Serbnesku og grísku herirnir ráku Búlgaríumenn á bak aftur og gerðu gagnárás inn í Búlgaríu. Tyrkjaveldi og rúmenska konungdæmið nýttu sér stöðu mála og réðust einnig inn í Búlgaríu. Eftir að samið var um frið hafði Búlgaría þó bætt við sig nokkru landsvæði frá því fyrir fyrsta stríðið en Austur-Þrakía var aftur komin í hendur Tyrkja og meirihluti Makedóníu í hendur Grikkja. Ósigur Búlgaríumanna leiddi til þess að þeir gengu í lið með Miðveldunum í fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem óvinir hennar á Balkanskaga (Serbía, Grikkland og Rúmenía) voru í liði Bandamanna í stríðinu.

Á meðan á stríðinu stóð var Georg 1. Grikklandskonungur ráðinn af dögum í Þessalóniku. Þetta olli straumhvörfum í utanríkisstefnu Grikkja þar sem Georg, líkt og Venizelos forsætisráðherra, hafði verið hlynntur Bandamönnum en sonur hans og arftaki var hlynntur Þjóðverjum og reyndi því að viðhalda hlutleysi Grikkja í heimsstyrjöldinni. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út og Bandamenn sendu hermenn í gegn um Makedóníu stigmagnaðist ágreiningurinn milli konungsins og forsætisráðherrans, sem leiddi til djúpstæðrar gjár innan grísku þjóðarinnar. Þessi gjá átti eftir að setja mark sitt á grísk stjórnmál í hálfa öld og varð Grikkjum að falli í næsta stríði þeirra gegn Tyrklandi árið 1919.

Úrslit Balkanstríðana bundu varanlegan enda á bandalag Rússa og Búlgaríumanna og gerði Serbíu og Svartfjallaland að einu ríkjunum sem enn voru hliðholl Rússum á þessu mikilvæga svæði.

Heimild breyta

Tilvísanir breyta

  1. „Wars of the World; First Balkan War 1912-1913“. OnWar.com. 16. desember 2000. Sótt 14. ágúst 2009.
  2. Crampton (1987) Crampton, Richard (1987). A short history of modern Bulgaria. Cambridge University Press. bls. 62.
  3. „Balkan Crises“. cnparm.home.texas.net/Wars/BalkanCrises. 14. ágúst 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2003. Sótt 14. ágúst 2009.
  4. Tuminez, Astrid S. (2000). Russian nationalism since 1856: ideology and the making of foreign policy. Rowman & Littlefield Publishers, Inc. bls. 89.
  5. Frucht, Richard C. (2005). Eastern Europe: An Introduction to the People, Lands, and Culture. ABC-CLIO. bls. 538–9.
  6. Emile Joseph Dillon, "The Inside Story of the Peace Conference", Ch. XV
  7. Stowell, Ellery Cory (2009). The Diplomacy Of The War Of 1914: The Beginnings Of The War (1915). Kessinger Publishing, LLC. bls. 94.