David Lloyd George

Forsætisráðherra Bretlands (1863–1945)

David Lloyd George (17. janúar 1863 – 26. mars 1945) var breskur stjórnmálamaður úr Frjálslynda flokknum. Sem fjármálaráðherra Bretlands á árunum 1908 – 1915 bar Lloyd George ábyrgð á ýmsum umbótum sem renndu stoðum undir uppbyggingu bresks velferðarríkis. Mikilvægasta hlutverk hans var þó sem forsætisráðherra Bretlands í samsteypustjórn á árunum 1916 – 1922 í og eftir fyrri heimsstyrjöldina. Hann gegndi lykilhlutverki á friðarráðstefnunni í París árið 1919 þar sem Evrópa var endurskipulögð eftir ósigur Miðveldanna.

David Lloyd George
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
6. desember 1916 – 19. október 1922
ÞjóðhöfðingiGeorg 5.
ForveriH. H. Asquith
EftirmaðurBonar Law
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. janúar 1863
Chorlton-on-Medlock, Manchester, Englandi
Látinn26. mars 1945 (82 ára) Tŷ Newydd, Caernarfonshire, Wales
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn
MakiMargaret Owen (1888 – 1941) Frances Stevenson (1943 - 1945)
BörnRichard Lloyd George, Mair Eluned Lloyd George, Gwilym Lloyd George, Lady Olwen Evans, Megan Lloyd George
StarfStjórnmálamaður
Þekktur fyrirAð vera forsætisráðherra Bretlands í fyrri heimsstyrjöldinni
Undirskrift

Sem forsætisráðherra samsteypustjórnar eftir kosningarnar árið 1918 gaf Lloyd George Íhaldsmönnum flest ráðuneyti svo að Frjálslyndi flokkurinn sem hann var sjálfur hluti af varð í minnihluta. Hann varð formaður flokksins seint á þriðja áratugnum en á þeim tíma mátti flokkurinn líða fylgishrun eftir því sem ágreiningur jókst innan hans. Þegar kom á fjórða áratug var Lloyd George valdalítill og rúinn trausti, sérstaklega þegar seinni heimsstyrjöldin byrjaði og hann var vændur um að hafa meiri samúð með Þýskalandi en með bandamönnunum.

Lloyd George er eini forsætisráðherra Bretlands sem hefur verið velskur og talað velsku að móðurmáli.[1]

Æviágrip breyta

David Lloyd George fæddist þann 17. janúar 1863 í Chorlton-on-Medlock í Manchester. Faðir hans lést þegar hann var þriggja ára og velskættuð móðir hans flutti með börn sín í hús bróður síns í Norður-Wales, þar sem þau ólust upp. Sem ungur maður stundaði David Lloyd George laganám og rak eigin lögfræðistofu sem málaflutningsmaður. Hann gerðist mikill stuðningsmaður velskra þjóðernissinna sem kröfðust jafnra réttinda fyrir Wales innan breska alríkisins.

Árið 1890 var Lloyd George kjörinn á breska þingið fyrir Carnarvon-kjördæmi í Wales. Á þingi vakti hann athygli þjóðarinnar með því að mótmæla seinna Búastríðinu og gagnrýna meðferð Breta á Indverjum.[2]

Þegar Frjálslyndi flokkurinn komst til valda árið 1905 varð Lloyd George viðskipta- og verslunarráðherra í ríkisstjórn Henry Campbell-Bannerman forsætisráðherra. Þegar Campell-Bannermann lést tók Lloyd George við fjármálaráðuneytinu í stað Herberts Henry Asquith, sem gerðist forsætisráðherra. Sem fjármálaráðherra stórjók Lloyd George fjárframlög til flotans, hersins og til ellilífeyrisþega.[3] Hann hækkaði auk þess lágmarkslaun landbúnaðarverkamanna[4] Til þess að fjármagna aukin útgjöld voru ýmsir nýir skattar lagðir, þar á meðal nýr tekjuskattur á þá sem áttu hærri árstekjur en 5000 pund og innflutningstollar á tóbak og áfengi. Íhaldsmenn og breskir landeigendur voru öskureiðir Lloyd George fyrir þessa verknaði, bæði vegna nýju skattanna en einnig vegna þess að hann neitaði að setja á nýja verndartolla sem þeir aðhylltust til að fjármagna útgjöldin.[5] Litið er á þessar umbætur í fjármálaráðherratíð Lloyd George sem byrjun breska velferðarríkisins, þar sem ríkið hafði ekki áður að neinu ráði veitt fjárstyrk til veikra og óstarfhæfra Breta.[6]

Forsætisráðherra í fyrri heimsstyrjöldinni breyta

Í fyrri heimsstyrjöldinni (1914 - 1918) var Lloyd George í fyrstu birgðaráðherra hersins en varð gerður að stríðsmálaráðherra eftir að forveri hans í því starfi, Kitchener lávarður, lést ásamt skipi sínu þegar það rakst á þýska sprengju. Lloyd George naut mikilla vinsælda í því embætti, m.a. með því að auka vægi breskra kvenna í hergagnaframleiðslunni.[7] Hins vegar jókst brátt óánægja almennings með Asquith forsætisráðherra og svo fór að Lloyd George tók við embætti hans þann 6. desember 1916.

Lloyd George myndaði stríðsstjórn í bandalagi við Íhaldsmenn og Verkamenn. Sem forsætisráðherra vildi Lloyd George m.a. stefna að gersigri á Tyrkjaveldi og ýtti á eftir því að Bretar hertækju Jerúsalem frá Tyrkjum.[8] Hann átti einnig hlut að máli í Balfour-yfirlýsingunni þar sem Bretar studdu rétt gyðinga til að setjast að í Palestínu.

Lloyd George gladdist yfir því þegar Rússakeisara var steypt af stóli í byltingu árið 1917 því það gerði bandamönnum kleift að útmála stríðið sem baráttu á milli frjálslyndra lýðræðisríkja og einveldisstjórna Miðveldanna.[9] Hann vonaðist að líkt og Frakkland í kjölfar frönsku byltingarinnar myndi Rússland eflast á vígvellinum vegna byltingarandans fremur en að veikjast. Lloyd George studdi það að keisaranum og fjölskyldu hans yrði veitt hæli í Bretlandi en dró stuðning sinn til baka vegna þrýstings frá Georg 5. konungi Bretlands.

Í voráhlaupi Þjóðverja gegn bandamönnum árið 1918 sendi Lloyd George um hálfa milljón nýrra breskra hermanna á víglínurnar í Frakklandi og biðlaði til Woodrow Wilson Bandaríkjaforseta um tafarlausan liðsauka, auk þess sem hann féllst á að franski marskálkurinn Ferdinand Foch yrði gerður að yfirhershöfðingja alls bandamannahersins. Sumaráhlaupinu var hrundið og fullnaðarsigur gegn Þjóðverjum var unninn þann 11. nóvember 1918.

Parísarráðstefnan breyta

 
Georges Clemenceau, David Lloyd George og Vittorio Orlando í Versölum

Lloyd George mætti fyrir hönd Breta á friðarráðstefnuna í París eftir stríðið. Hann var einn af hinum „fjórum stóru“, leiðtogum bandamannaþjóðanna sigursælu, ásamt Wilson Bandaríkjaforseta, Georges Clemenceau forsætisráðherra Frakklands og Vittorio Orlando forsætisráðherra Ítalíu. Ólíkt Clemenceau og Orlando mælti Lloyd George með því að komið væri fram af miskunnsemi gagnvart Þjóðverjum. Hann vildi ekki gera út af við efnahag og stjórnarkerfi Þýskalands líkt og Clemenceau vildi gera með því að krefja þá um stórtækar stríðsskaðabætur.

Aðspurður hvernig honum hefði gengið á friðarráðstefnunni sagði Lloyd George: „Ég held að mér hafi gengið eins vel og búast mátti við, í ljósi þess að ég sat á milli Jesú Krists [Wilson] og Napóleons Bónaparte [Clemenceau].“[10]

Síðari ár breyta

Lloyd George var á hátindi vinsælda sinna í kjölfar stríðsins og Andrew Bonar Law lét jafnvel þau orð falla að „hann gæti gerst einræðisherra til lífstíðar ef honum sýnist“.[11] Bandalag Frjálslyndra og Íhaldsmanna undir stjórn Lloyd George vann stórsigur í kosningum árið 1918 en samstarf þeirra entist ekki til lengdar. Árið 1922 drógu Íhaldsmenn (einkum að undirlagi Stanley Baldwin) stuðning sinn við samstarfið til baka og þar með lauk forsætisráðherratíð Davids Lloyd George.

Lloyd George var áfram áberandi í breskum stjórnmálum næstu árin og margir bjuggust við því að hann myndi einn daginn snúa aftur til valda. Frjálslyndir buðu hins vegar afhroð í þingkosningum árið 1924 og glötuðu smám saman áhrifastöðu sinni á stjórnmálasviði Bretlands.

David Lloyd George heimsótti Þýskaland árið 1936 og hreifst mjög af Adolf Hitler, sem tók á móti honum í heimsókninni.[12] Hitler sagðist vera heiðraður af því að hitta „manninn sem vann stríðið“ og Lloyd George kallaði Hitler „hinn þýska George Washington“.[13] Lloyd George studdi þó Bretland til sigurs þegar seinni heimsstyrjöldin braust út.[14]

Einkalíf breyta

Lloyd George var alræmdur fyrir það að vera mjög kvensamur og eiga stöðugt í fjölmörgum ástarsamböndum á meðan hann var kvæntur.[15] Hann eignaðist nokkur börn í lausaleik og hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni göntuðust um kvensemi forsætisráðherrans með því að syngja söngva með textanum „Lloyd George þekkti föður minn,“ og gáfu þar í skyn að Lloyd George væri sjálfur faðir þeirra.[16]

Heimild breyta

Tilvísanir breyta

  1. Harnden, Toby (2011-10-27), Dead Men Risen: The Welsh Guards and the Real Story of Britain's War in Afghanistan, bls. 11.
  2. Roy Hattersley. David Lloyd George: The Great Outsider (2010) bls. 119-44
  3. „David Lloyd-George“. Iðunn : nýr flokkur, 4. Tölublað (01.04.1917), bls. 303.
  4. Alin Howkins and Nicola Verdon. "The state and the farm worker: the evolution of the minimum wage in agriculture in England and Wales, 1909–24." Agricultural history review 57.2 (2009): 257-274. online
  5. Ramsden, John (1998-10-05), An Appetite for Power: A New History of the Conservative Party, HarperCollins.
  6. Gilbert, Bentley Brinkerhoff (December 1976), "David Lloyd George: Land, The Budget, and Social Reform", The American Historical Review, 81 (5): bls. 1058–1066.
  7. „David Lloyd-George“. Iðunn : nýr flokkur, 4. Tölublað (01.04.1917), bls. 311.
  8. Woodward, David R. (1998), Field Marshal Sir William Robertson: Chief of the Imperial General Staff in the Great War, Westport, Connecticut: Praeger, bls. 119 - 120.
  9. Grigg, John, Lloyd George: From Peace to War, 1912–1916 (1985), bls. 58-59.
  10. Cashman, Sean (1988), America in the Age of the Titans: The Progressive Era and World War I, New York University Press, bls. 526.
  11. Bogdanor, Vernon (20. janúar 2011). „The coalition is held together by fear“. New Statesman. Sótt 29. ágúst 2014.
  12. „Galdrakarlinn frá Wales“, Alþýðublaðið, 42. tölublað (20.02.1955), bls. 7.
  13. Jones, Thomas (1951), Lloyd George, Harvard University Press, bls. 248.
  14. „Vér munum sigra“, Stundin, 2. tölublað (01.09.1940), bls. 10.
  15. „Flagarinn faðir minn“, Þjóðviljinn, 241. tölublað (26.10.1960), bls. 5.
  16. „Lloyd George knew my father....but what's the origin of the famous song?“. Lloyd George Society. 31. janúar 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann febrúar 1, 2011. Sótt 3. apríl 2011.


Fyrirrennari:
H. H. Asquith
Forsætisráðherra Bretlands
(1916 – 1922)
Eftirmaður:
Andrew Bonar Law