Andrés prins, hertogi af Jórvík

Andrés prins, hertogi af Jórvík, (Andrés Albert Kristján Játvarður; f. 19. febrúar 1960) er þriðja barn og annar sonur Elísabetar 2. Bretadrottningar og Filippusar hertoga af Edinborg. Hann er sá áttundi í erfðaröðinni að bresku krúnunni.

Andrés prins, hertogi af Jórvík
Andrés árið 2007.
Skjaldarmerki Andrésar
Fæddur
Andrew Albert Christian Edward Mountbatten-Windsor

19. febrúar 1960 (1960-02-19) (64 ára)
ÞjóðerniBreskur
StörfAðalsmaður
TrúEnska biskupakirkjan
MakiSarah Ferguson (g. 1986; sk. 1996)
Börn2
ForeldrarElísabet 2. & Filippus prins

Andrés hefur gegnt þjónustu í konunglega breska sjóhernum sem þyrluflugmaður, leiðbeinandi og kapteinn á herskipi. Í Falklandseyjastríðinu flaug hann í nokkrum hernaðaraðgerðum, meðal annars í andyfirborðshernaði, sem tálbeita fyrir Exocet-eldflaugar og við brottflutning á særðum hermönnum. Árið 1986 kvæntist Andrés Söruh Ferguson og hlaut titilinn hertogi af Jórvík. Þau eignuðust tvær dætur, Beatrice og Eugenie. Hjónaband þeirra, aðskilnaður þeirra 1992 og lögskilnaður þeirra 1996 hlaut mikla umfjöllun í breskum fjölmiðlum. Andrés var sérstakur sendifulltrúi forsætisráðherra Bretlands fyrir alþjóðaviðskipti og fjárfestingar frá árinu 2001 til 2011.

Þann 20. nóvember 2019 gerði Andrés prins hlé á öllum opinberum skyldum sínum um „fyrirsjáanlega framtíð“ eftir mjög neikvæð almenningsviðbrögð við viðtali sem hann veitti fjórum dögum fyrr í þættinum Newsnight á BBC. Viðtalið snerist um ásakanir á hendur honum um kynferðislegt ofbeldi og tengsl hans við bandaríska kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein.[1][2][3] Í maí 2020 var tilkynnt að Andrés myndi láta af öllum opinberum hlutverkum sínum vegna tengsla sinna við Epstein.[4] Einnig var kunngert að Andrés væri viðriðinn glæparannsókn um málefni Epsteins og að bandarísk stjórnvöld hefðu óskað þess við Breta að fá að yfirheyra hann formlega.

Í ágúst 2021 var Andrés kærður fyrir nauðgun. Bandarísk kona að nafni Virginia Giuffre sakaði hann um að hafa nauðgað sér þegar hún var sautján ára á heimili hennar í London ásamt Epstein og vinkonu hans, Ghislaine Maxwell.[5] Málið var höfðað sem einkamál í New York í Bandaríkjunum.[6] Í febrúar 2022 gerði Andrés samkomulag við Giuffre til að málið yrði fellt niður í skiptum fyrir að hann greiddi henni og góðgerðarsamtökum hennar rúmlega tólf milljónir punda, eða um tvo milljarða íslenskra króna. Elísabet drottning fjármagnaði greiðsluna að hluta.[7]

Andrés var sviptur titlum sínum og her­ti­gn sinni af bresku konungsfjölskyldunni þann 13. janúar 2022 vegna málaferlanna gegn honum í New York.[8]

Tilvísanir breyta

  1. Quinn, Ben (20. nóvember 2019). „Prince Andrew to step back from public duties 'for foreseeable future'. The Guardian. London, England: Guardian Media Group. Sótt 20. nóvember 2019.
  2. Guðmundur Björn Þorbjörnsson (23. nóvember 2019). „Andrés prins, Epstein og viðtalið hörmulega“. RÚV. Sótt 6. apríl 2021.
  3. Ari Brynjólfsson (7. desember 2019). „Andrés prins sendur í út­legð“. Fréttablaðið. Sótt 6. apríl 2021.
  4. Nikkhah, Roya (21. maí 2020). „Prince Andrew didn't think it was all over, but it is now“. The Times. Sótt 20. júlí 2020.
  5. Vésteinn Örn Pétursson (9. ágúst 2021). „Andrés prins kærður fyrir nauðgun“. Vísir. Sótt 22. ágúst 2021.
  6. Jón Agnar Ólason (10. ágúst 2021). „Höfðar einkamál gegn prinsinum vegna kynferðisbrota“. RÚV. Sótt 22. ágúst 2021.
  7. Tryggvi Páll Tryggvason (16. febrúar 2022). „Segja hluta greiðslu Andrésar til Giuf­fre úr vasa drottningarinnar“. Vísir. Sótt 19. febrúar 2022.
  8. Þorvarður Pálsson (13. janúar 2022). „Andrés prins sviptur tign af konungs­fjöl­­­skyldunni“. Fréttablaðið. Sótt 13. janúar 2022.
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.