Súesdeilan, þriggjaveldainnrásin, Kadesh-aðgerðin eða Sínaí-stríðið var innrás Ísraels, Bretlands og Frakklands í Egyptaland árið 1956. Markmið innrásarríkjanna var að endurheimta völd vesturveldanna á Súesskurðinum og hrekja Gamal Abdel Nasser forseta Egyptalands, sem hafði þá nýlega þjóðnýtt skurðinn, frá völdum.[1] Eftir að átökin hófust beittu Bandaríkin, Sovétríkin og Sameinuðu þjóðirnar þrýstingi á innrásarríkin til að stöðva innrásina. Þessi atburðarás var mikil auðmýking fyrir Breta og Frakka[2] og styrkti mjög stöðu Nassers.[3][4]

Súesdeilan
Hluti af kalda stríðinu og deilum araba og Ísraela

Laskaðir egypskir skriðdrekar á Sínaískaga árið 1956.
Dagsetning29. október 1956 – 7. nóvember 1956 (1 vika og 2 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða Bandalag Breta, Frakka og Ísraela vinnur hernaðarsigur en Egyptar vinna pólitískan sigur og halda eftir Súesskurðinum.
Stríðsaðilar
Fáni Bretlands Bretland
Fáni Frakklands Frakkland
Fáni Ísraels Ísrael
Egyptaland Egyptaland
Leiðtogar
Fáni Bretlands Anthony Eden
Fáni Frakklands Guy Mollet
Fáni Ísraels David Ben-Gurion
Egyptaland Gamal Abdel Nasser
Fjöldi hermanna
Fáni Ísraels 175.000
Fáni Bretlands 45.000
Fáni Frakklands 34.000
Egyptaland 300.000
Mannfall og tjón

Ísrael:

  • 172 drepnir
  • 817 særðir
  • 1 handtekinn

Bretland:

  • 16 drepnir
  • 96 særðir

Frakkland:

  • 10 drepnir
  • 33 særðir
  • 1.650–3.000 drepnir
  • 1.000 almennir borgarar drepnir
  • 4.900 særðir
  • 5.000–30.000+ teknir höndum
  • Þann 29. október réðust Ísraelsmenn inn á yfirráðasvæði Egypta á Sínaískaga. Bretar og Frakkar sendu sameiginlega úrslitakosti til beggja aðila um að hætta átökum nærri Súesskurði. Þann 5. nóvember lentu breskir og franskir fallhlífaliðar við Súesskurðinn. Egypski herinn var sigraður en tókst þó að loka ferð allra kaupskipa um skurðinn. Það varð síðar ljóst að innrás Ísraelsmanna og árás Breta og Frakka sem fylgdi í kjölfarið höfðu verið skipulagðar fyrirfram af ríkjunum þremur.

    Bandamennirnir þrír náðu flestum hernaðarmarkmiðum sínum en skurðurinn var nú ónothæfur. Stjórnmálaþrýstingur frá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum leiddi til þess að bandamenn drógu herafla sína burt úr Egyptalandi. Dwight D. Eisenhower Bandaríkjaforseti hafði varað Bretland gegn því að gera innrás og hótaði nú alvarlegum efnahagsrefsingum gegn Bretum með því að selja skuldabréf sem Bandaríkjastjórn átti í breskum pundum. Sagnfræðingar telja Súesdeiluna almennt marka endalok Bretlands sem heimsveldis.[5][6] Súesskurðurinn var lokaður frá október 1956 fram í mars 1957. Ísraelsmönnum tókst að ná fram sumum markmiðum sínum, eins og að tryggja siglingarétt Ísraelsmanna í gegnum Tíransund, sem Egyptar höfðu lokað fyrir þeim frá árinu 1950.[7]

    Vegna átakanna stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar sérsveit friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna (UNEF) til þess að standa vörð um landamæri Egyptalands og Ísraels. Anthony Eden forsætisráðherra Bretlands sagði af sér, Lester B. Pearson utanríkisráðherra Kanada vann friðarverðlaun Nóbels og Sovétríkin fengu hugsanlega kjark til þess að ráðast inn í Ungverjaland.[8][9]

    Tilvísanir

    breyta
    1. Mayer, Michael S. (2010). The Eisenhower Years. Infobase Publishing. bls. 44.
    2. Abernathy, David (2000). The Dynamics of Global Dominance: European Overseas Empires, 1415-1980The Dynamics of Global Dominance: European Overseas Empires, 1415-1980, page CXXXIX. Yale University Press. Sótt 1. september 2015.
    3. Roger Owen "Suez Crisis" The Oxford Companion to the Politics of the World, Second edition. Joel Krieger, ed. Oxford University Press Inc. 2001.
    4. „An affair to remember“. The Economist. 27. júní 2006. Sótt 3. september 2014.
    5. Sylvia Ellis (2009). Historical Dictionary of Anglo-American Relations. Scarecrow Press. bls. 212.
    6. Peden, G. C. (desember 2012), „Suez and Britain's Decline as a World Power“, The Historical Journal, Cambridge University Press, 55 (4): 1073–1096, doi:10.1017/S0018246X12000246
    7. Major Jean-Marc Pierre (15. ágúst 2014). 1956 Suez Crisis And The United Nations. Tannenberg Publishing. „Still in 1950 Egypt blocked the Straits of Tiran barring Israel from the waterway ( Longgood 1958, xii-xiii).“
    8. Mastny, Vojtech (mars 2002). „NATO in the Beholder's Eye: Soviet Perceptions and Policies, 1949–56“ (PDF). Cold War International History Project. Woodrow Wilson International Center for Scholars.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]
    9. Christopher, Adam (2010). The 1956 Hungarian Revolution: Hungarian and Canadian Perspectives. University of Ottawa Press. bls. 37.