Bárðarbunga

Eldfjall á Vatnajökli

64°38′27″N 17°31′40″V / 64.64083°N 17.52778°V / 64.64083; -17.52778

Vatnajökull með Bárðarbungu
Eldsumbrot í Holuhrauni, 2014

Bárðarbunga er hæsti punktur á norðvestanverðum Vatnajökli, um 2.000 m að hæð innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Undan henni gengur skriðjökullinn Köldukvíslarjökull auk fleiri smærri jökla. Bárðarbunga er stór og öflug megineldstöð og jafnframt víðáttumesta eldstöð landsins, talin vera nálægt 200 km löng og allt að 25 km breið. Bárðarbunga er önnur stærsta eldstöð og næsthæsta fjall landsins. Í Bárðarbungu leynist svo 850 m djúp askja.

Megineldstöð breyta

Undir Vatnajökli leynast sjö megineldstöðvar sem hafa verið nefndar, en þær eru ásamt Bárðarbungu: Grímsvötn, Þórðarhyrna, Kverkfjöll, Breiðabunga, Esjufjöll og Öræfajökull. Bárðarbunga er þeirra stærst og undir henni er gríðarmikið kvikuhólf og þykir jarðeðlisfræðingum ekki ósennilegt að kvikuinnskot sem ættir eiga að rekja þangað hafi verið á flakki í sprungum og rásum undir yfirborði jarðskorpunnar. Fjölmörg hraun bæði á Tungnáröræfum og í Ódáðahrauni eru talin ættuð úr Bárðarbungukerfinu. Þeirra á meðal eru Þjórsárhraun og Bárðardalshraun, Tröllahraun og Holuhraun. Líkur eru á að gos í Bárðarbungu geti orðið mjög stórt og mikið öskufall fylgi í kjölfarið, ásamt jökulhlaupum og eyðileggingu af völdum hvors tveggja. Í kjölfar slíks stórgoss mætti búast við hlaupi ofan í Skjálfandafljót, Jökulsá á Fjöllum og jafnvel í fljót sem koma undan bæði vestan- og sunnanverðum jöklinum, auk þess sem gosefni sem mikið bærist af upp í loftið myndu breyta veðurfari tímabundið og mjög til hins verra, eins og gerðist í Móðuharðindunum þegar gaus í Lakagígum.

Jarðskjálftar og sig í Bárðarbungu breyta

Árið 2014 varð fjöldi jarðskjálfta í Bárðarbunguöskjunni frá miðjum ágúst, sá stærsti 5,7 að stærð. Yfir 75 skjálftar hafa verið yfir 5 stig..[1]

Í byrjun september urðu menn þess varir að ísinn yfir Bárðarbunguöskjunni var tekinn að síga. Sigið mældist mest 59 metrar í janúar 2015. [2] Ástæðan fyrir þessu var talin sú að sjálf askjan væri að síga vegna kvikuflæðis frá kvikuhólfi undir henni og út í sprungurnar (ganginn) sem beindu bergkviku að gígum Holuhrauns. Eldgosið þar stóð yfir frá september 2014 fram í febrúar 2015 og olli umtalsverðri loftmengun en litlu öðru tjóni. Hluti af skjálftavirkninni undir öskjunni og þar með taldir stóru skjálftarnir urðu samfara þessu sigi.

Niðurstöður rannsókna á öskjusiginu voru birtar í vísindatímaritinu Science. Hátt í fimmtíu vísindamenn frá fjórtán háskólum í níu löndum tóku þátt í rannsókninni.[3]

Eldgos í (og við) Bárðarbungu breyta

  • 1797 - Gæti hafa gosið í Bárðarbungu árið 1797 og einnig snemma á 18. öld, þegar jökulhlaup spillti jörðum í Kelduhverfi.
  • 1996 - 30. september - Eldgos hefst i sprungu undir jöklinum milli Bárðarbungu og Grímsvatna. (Gjálpargosið)
  • 1996 - 2. október - Öskugos hefst, þ.e. gosið nær upp í gegnum jökulhelluna.
  • 2014-2015 - Umbrot í Bárðarbungu, jarðskjálftahrina, öskjusig og gos í Holuhrauni.

Nauðlending á Bárðarbungu breyta

Þann 14. september 1950 fórst þar íslensk flugvél Loftleiða án þess að nokkur léti lífið. Bandarísk DC-3 flugvél var send til þess að bjarga áhöfninni og gat hún lent á jöklinum en ekki hafið sig til flugs aftur.

Tilvísanir breyta

  1. Hátt í 15000 skjálftar á fjórum mánuðum Rúv, skoðað 14. júlí, 2016
  2. Bárðarbunga 2014 Geymt 26 desember 2014 í Wayback Machine Jarðvísindastofnun, skoðað 14. júlí, 2016.
  3. Varpar ljósi á stærstu eldgos Íslandssögunnar Rúv, skoðað 14. júlí, 2016

Tenglar breyta

Örnefni breyta

Jarðfræði breyta

  • „Hvað eru mörg gos þekkt í Bárðarbungu og hefur orðið mikið tjón af þeim?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvaða tjón gæti mögulega hlotist af gosi í Bárðarbungu?“. Vísindavefurinn.
  • Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands um Bárðarbungu 2014/15 Geymt 14 október 2015 í Wayback Machine
  • Veðurstofan um Bárðarbungu 2014/15

Fleiri fræðirit breyta

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.