Holuhraun
Holuhraun var lítið basalthraun sunnarlega í Ódáðahrauni milli Dyngjufjalla og Dyngjujökuls. Hraunið var nánast óþekkt og lítið rannsakað þar til síðsumars 2014. Þá urðu þar eldsumbrot og hraungos sem stóðu yfir í hálft ár. Nýja hraunið sem kom upp í gosinu var síðan kallað sama nafni og gamla hraunið. Flatarmál þess er nokkru stærra en Þingvallavatn.
Rannsóknir
breytaHoluhraun hið eldra er unglegt en þó er aldur þess ekki þekktur með vissu. Líklegast er að það hafi orðið til í smágosi um eða eftir aldamótin 1800. Í bókum sínum um Ódáðahraun leiðir Ólafur Jónsson líkur að því að hraunið hafi komið upp í eldgosi við jaðar Dyngjujökuls árið 1797. [1] Því til rökstuðnings vitnar hann í Árbækur Jóns Espólín en þar segir m.a. um þetta ár: „Þá sá Jón bóndi Jónsson í Reykjahlíð norður, réttorður maður, eldsloga nokkura suður á fjöllum tvö kvöld um veturinn, og varð vart við öskufall; þess urðu og fleiri varir“. Hjörleifur Guttormsson hefur ritað grein um Holuhraun [2] og bent á að menn sem fóru öræfaleiðir norðan Vatnajökuls sumarið 1797 urðu einskis varir. Árið 1807 kemur til álita, þá urðu Þingeyingar varir við mistur í lofti og brennisteinskeim í úrkomu. Gátan um aldur Holuhrauns hins eldra var enn óráðin.
Þorvaldur Thoroddsen gaf hrauninu nafn og nefnir það bæði í Ferðabókum sínum og í Landfræðisögunni. Hann skoðaði hraunið á ferð sinni um Ódáðahraun 1884: „Miðja vegu milli Urðarháls og Jökulsár er allmikið hraun á miðjum söndunum. Nær það fast upp að jökli og langt norður, og er ákaflega illt yfirferðar. Kölluðum við það Holuhraun. Hraun þetta hefur komið úr gígahrúgu rétt við jökulröndina. Gígar þessir standa í óreglulegri hrúgu og eru úr gjalli, sumir blóðrauðir. Þar eru margar sprungur og gjár“. [3] Ólafur Jónsson lýsir hrauninu ýtarlega í bókum sínum: „Holuhraun er ákaflega úfið og stórbrotið sunnan til, allt sundur sprungið og umhverft, yfir að líta sem ægilegar borgarrústir, þar sem brot af turnum og múrveggjum standa enn og hallast á ýmsa vegu. Innan um þennan óskapnað eru djúpar kvosir og sprungur, en svo mikill sandur er kominn í hraunið að allt er það sæmilegt yfirferðar, þótt úfið sé. Norðurhluti hraunsins er miklu sléttari og að engu frábrugðinn venjulegu helluhrauni“. [4]
Gamla hraunið
breytaAðalupptakagígur Holuhrauns (frá 1797) er skammt utan við ystu jökulgarða Dyngjujökuls og ekki er að sjá að gos hafi orðið undir jöklinum sjálfum. Nokkrum kílómetrum norðar er síðan stutt gígaröð á sömu sprungu. Í heild er gígaröðin 6,5 km með stefnu til NNA. Hraunið sjálft er um 23 km2 að flatarmáli. Lengd hraunsins frá syðsta gíg út á hrauntunguna sem lengst hefur runnið er 10 km. Hraunið fór yfir sanda Jökulsár á Fjöllum en upptakakvíslar hennar koma undan Dyngjujökli á fjölmörgum stöðum á þessum slóðum. Þetta er basalthraun og hefur einkenni sem benda til tengsla við megineldstöðina í Bárðarbungu. Ólafur Jónsson og fleiri hafa bent á að Holuhraun hafi hugsanlega orðið til í tveimur gosum á mismunandi tíma og að syðsti gígurinn sé þá frá yngra gosinu.
Eldgos 2014-2015
breytaAðdragandi
breytaMikil skjálftahrina hófst í Bárðarbungu um miðjan ágúst 2014. Til að byrja með var skjálftavirknin mest innan öskjunnar í fjallinu. Síðan tók virknin að færast til norðausturs, yfir Dyngjujökul og í átt að Holuhrauni. Jafnframt mældist stöðugur skjálftaórói innan Bárðarbunguöskjunnar. Mörg hundruð skjálftar voru skráðir á hverjum sólarhring, sá stærsti 5,7 stig, en hann átti sér stað 26. ágúst. Talið er að bergkvika hafi streymt úr kvikuhólfi undir Bárðarbungu og út í sprungusveim sem leiddi hana um 40 km leið að Holuhrauni.
Gosannáll
breyta- Þann 29. ágúst 2014 varð lítið hraungos í Holuhrauni . Það stóð einungis í fáa klukkutíma og lauk samdægurs, en var forboði meiri tíðinda.
- Aðfaranótt 31. ágúst hófst öllu stærra gos í Holuhrauni. Gosið náði hámarki á fyrsta degi. Þá gaus úr rúmlega 1500 m langri gossprungu. Hraun flæddi til NA og var orðið um 4 km2 á fyrsta sólarhring. Kvikustrókar risu í 50-100 m hæð þegar mest gekk á á fyrsta degi gossins.
- Þann 4. september náði hraunið 10 km² stærð. Ekkert teljandi öskufall fylgdi gosinu.[5] Tvær nýjar sprungur mynduðust þann 5. september nokkru sunnan við aðal gossprunguna og nær Dyngjujökli. Syðsti hluti þeirra er 1-2 km frá jaðri jökulsins. Þessar gossprungur kulnuðu fljótt. Gosið á aðalsprungunni hélt hinsvegar áfram. Kvikustreymi mældist milli 100 og 200 m3/s og hraunið gekk fram um nálægt 1 km á dag.
- Síðdegis 6. sept. var hraunið orðið um 16 km2 að flatarmáli. Í ljós kom að yfirborð Bárðarbunguöskjunnar hafði sigið um 15 m.
- Þann 7. sept. komst hrauntungan í vestari meginkvísl Jökulsár á Fjöllum. Ekki fylgdi því nein sprengivirkni en gufubólstrar stigu til himins. Nöfn fóru að festast á aðalgígum gossprungunnar. Stærsti gígurinn er nefndur Baugur norðan við hann er Norðri en sunnan hans er Suðri. Kvikustrókavirkni afmarkast við Suðra og Baug. Mestur gangur er í Baug með 50-100 m háum kvikustrókum en virknin í Suðra einkennist af strókum sem ná hátt í 50 m. Kvikustrókavirkni í Norðra hefur nánast lagst af en mikinn hita leggur upp frá gígnum og líklegt að þar kraumi glóandi hraun. [6] [7]
- Þann 11. september þakti hraunið rúma 20 km².
- Þann 14. september var hraunið orðið um 25 km² að flatarmáli og náði langleiðina að Vaðöldu. Gosið hafði þá haldist nokkuð óbreytt í um viku tíma en nú virtist hafa dregið nokkuð úr virkninni, sem einkum var bundin við gíginn Baug og smærri gíga rétt hjá honum er nefndir hafa verið Baugsbörn. Baugur var orðinn um 60 m hár. Skjálftavirkni hafði einnig dregist nokkuð saman en þó voru tíðir skjálftar í Bárðarbunguöskjunni og undir norðurjaðri Dyngjujökuls. Einnig var áberandi skjálftavirkni undir Upptyppingum. Skjálftarnir í öskjunni voru margir hverjir stórir og náðu allt að 5,4 stigum.
- 16. september. Mánuður síðan jarðskjálftavirknin hófst í Bárðarbungu. Á þessum mánuði hafa mælst yfir 20.000 skjálftar stórir og smáir. Skjálftar af stærðinni 5 eða meiri voru orðnir 23. Gos í Baugi og nærliggjandi gígum.
- 21. september Eldgosið í Holuhrauni hélt áfram með sama hætti. Hraunflákar breiddu úr sér um miðbik hraunsins. Hraunbreiðan náði nú yfir 37 ferkílómetra lands sem samsvarar að hún myndi ná yfir stóran hluta byggðar í Reykjavík og er það flatarmál jafnstórt Mývatni.[8]
- 26. september Hraunið fór yfir veginn á Flæðum á nokkrum stöðum. [9]
- 28. september var hraunið orðið 44,5 km². [10]
- 5. október Hraunið náði yfir 50 km² og hrauntunga breytti farvegi Jökulsár á Fjöllum. [11]
- 7. október. Blámóða yfir Reykjavík, eldrautt sólarlag.
- 8. október. Gos var að mestu bundið við gíginn Baug. Stöðugt hraunrennsli. Hraun flæðir til austurs út í Jökulsá og er orðið yfir 53 km². Mikið gas stígur upp og dreifist um landið eftir vindátt. Öflugir skjálftar sem fyrr í og við Bárðarbunguöskjuna. Yfirborð hennar hefur sigið rúma 30 m. Dregið hefur úr skjálftavirkni við ganginn út í Holuhraun.
- 16. október. Brennisteinsdíoxíð mældist 3394 míkrógrömm á rúmmetra að nóttu til í Grafarvogi. [12]
- 17. október. Síðustu vikuna héls gosið óbreytt og með jöfnu hraunflæði. Síðasta sólarhring mældust um yfir 80 skjálftar á landinu öllu, þar af 84 við Bárðarbungu. Skjálftavirkni varð vart við Tungnafellsjökul og þar urðu rúmlega 40 skjálftar á ofangreindu tímabili. GPS stöðin í öskju Bárðarbungu sýnir að sigið heldur áfram með svipuðum hraða.
- 26. október. Gosmengun á Höfn í Hornarfirði fór upp í 21.000 míkrógrömm.[13]
- 5. nóvember. Hraunið er orðið um 70 km² að flatarmáli. GPS-stöðin í öskju Bárðarbungu sýnir að sigið heldur áfram með svipuðum hraða og verið hefur undanfarnar vikur. Sigskálin er 1,1-1,2 rúmkílómetrar að stærð og mesta sig orðið 44 metrar.
- 24. nóvember. Enn gýs kröftuglega í Holuhrauni. Hraunrennslið og útstreymi gass í gosmekkinum er sveiflukenndara en áður. Flæði hrauns í september var nærri 200 rúmmetrum á sekúndu en meðaltal fyrir nóvember er talið vera undir 100 rúmmetrum á sekúndu.
- 1. desember. Óverulegar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Holuhrauni undanfarnar tvær vikur. Hraunkvika streymir jafnt og þétt frá um 400 m langri gosrás þar sem gígurinn Baugur er í aðalhlutverki. Hraunið hefur ekki lengst en það hefur breikkað og er nú komið yfir 75 km². Rúmmál hraunsins hefur ekki verið metið nákvæmlega en er líklega um 1 km³. Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu er enn mikil og askjan sígur. Smærri skjálftar mælast við bergganginn og gosstöðvarnar í Holuhrauni.
- 22. desember. Eldgosið heldur áfram með líkum hætti og verið hefur síðustu vikur. Hraunið flæðir nú í lokaðri rás allt að jaðri hraunbreiðunnar austanverðar, 15 km frá gígaröðinni. Hraun rennur einnig til norðurs.
- 1. janúar 2015. Gos og hraunrennsli heldur áfram með svipuðum hætti og undanfarnar vikur en þó má greina ofurhægan en nokkuð stöðugan samdrátt í virkninni bæði í gosefnaframleiðslu og jarðskjálftavirkni. Hraunið rennur í lokuðum rásum frá gígsvæðinu en kemur fram við hraunjaðrana og við hrauntotuna sem lengst nær til norðurs. Stærð hraunsins um áramót var tæpir 83 km². Rúmtak hraunsins var þá um 1,1 km³.
- 22. janúar. Krafturinn í gosinu hefur minnkað og er þriðjungur af því sem það var í upphafi.
- 1. febrúar. Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram. Sniðmælingar yfir hraunið úr lofti (30. desember og 21. janúar) sýna að þótt það hafi ekki stækkað mikið að flatarmáli þykknaði það umtalsvert á þessum fyrstu þremur vikum ársins. Rúmmál þess er nú tæpir 1,4 km³. Meðalþykkt hraunsins er um 16 m. Þykktin er yfir 20 m á stórum svæðum og næst gígunum er það yfir 40 m. Hraunrennslið var að meðaltali tæplega 100 m³ á sekúndu í mánuðinum. Það dregur því hægt og rólega úr goskraftinum. Gosið í Holuhrauni er orðið átta sinnum stærra en gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 og fimm sinnum stærra en gosið í Grímsvötnum 2011, ef magn gosefna er breytt í jafngildi þétts bergs. Grímsvatnagosið var um 0,25 km³og Eyjafjallajökulsgosið um 0,16 km³. [14] Mikil jarðskjálftavirkni er enn í Bárðarbungu og í kvikuganginum suður af gosstöðvunum. Skjálftar yfir 4 stig eru algengir en skjálfti yfir M5,0 að stærð hefur ekki mælst síðan 8. janúar. GPS mælirinn í Bárðarbunguöskjunni hefur verið óvirkur en óbeinar mælingar sýna stöðugt en dvínandi sig.
- 27. febrúar. Gosvirkni lítil og engin glóð sést í gígnum. Of snemmt er að segja til um hvort gosinu sé lokið.[15]
- 28. febrúar. Gosi lokið. Á fundi vísindamannaráðs var því lýst yfir að gosinu virtist lokið. Hraunstreymi frá gígnum virðist hafa hætt 26-27. feb. Ekki hafa mælst skjálftar yfir 3 frá 21. febrúar og ekki yfir 5 frá 8 janúar. Smásig virðist þó enn í gangi í Bárðarbungu, um 2 sm á sólarhring.
Samfellt gos stóð frá 31. ágúst til 27. feb. eða í rétta 6 mánuði.
Gasmengun
breytaAnnar fylgifiskur gossins var gasmengun sem birtist eins og bláleit móða. Sólin var eldrauð við upprás og sólarlag og geislamagn hennar dauft. Styrkur mengunarinnar kom mönnum á óvart. Mest er um brennisteinsdíoxíð en einnig eru brennisteinsvetni, koldíoxíð og kolmónoxíð í mengunargasinu. Þann 26. október fór styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) á Höfn í Hornafirði í 21.000 µg/m³ (míkrógrömm á rúmmetra). Mengunin stóð í skamman tíma. Þetta er það hæsta sem mælst hefur í byggð á Íslandi. Í Reykjavík fór gasstyrkurinn upp undir 3400 µg/m³. Mengunin stafaði af afgösun í hrauninu. Alls er talið að um 11 milljón tonn af brennisteinsdíoxíði hafi losnað úr Holuhraunskvikunni. [16] Almannavarnir og Veðuratofan sendu út aðvaranir og spár vegna þessa ástands. Fólk var hvatt til að hafa varann á og halda sig innandyra þegar gasmengunin var mikil. Á gosstöðvunum sjálfum var talið að lífshætta gæti skapast við ákveðin skilyrði. Vísindamenn á vettvangi voru því búnir gasmælum og gasgrímum.
Flatarmál hraunsins
breytaGosið í Holuhrauni er með stærri hraungosum sem orðið hafa hérlendis á sögulegum tíma. Um mánaðamótin september-október 2014 var það farið að nálgast 50 km² að flatarmáli. Þá var það sambærilegt við Tröllahraun á Tungnáröræfum en það rann á árabilinu 1862-4 og er ættað frá goskerfi Bárðarbungu. Í fyrstu viku október náði Holuhraun Tröllahrauni að stærð og var þar með orðið mesta hraun landsins frá því Skaftáreldahraun rann. Þann 1. desember var flatarmálið komið yfir 75 km² og þann 1. febrúar 2015 var það 85 km². Í töflunni hér að neðan eru talin 12 víðáttumestu hraun sem runnið hafa frá landnámstíð og flatarmál þeirra. Þar sést að Holuhraun er í 5. sæti en er töluvert langt frá því að komast í eitt af toppsætunum.
Meðalþykkt hraunsins er um 16 m. Þykktin er yfir 20 m á stórum svæðum og næst gígunum er hún yfir 40 m. Flatarmálið er 85 km² og rúmmál hraunsins þar af leiðandi 1,36 km³.
Hraun/eldstöð | Ár | km² | Heimild |
---|---|---|---|
Eldgjá | 934 | 800 | Árni Hjartarson 2011[17] |
Skaftáreldahraun | 1783-4 | 589 | Árni Hjartarson 2011 |
Hallmundarhraun | 10. öld | 205 | Árni Hjartarson 2014[18] |
Fjallsendahraun | 13. öld | 191 | Guðmundur E. Sigvaldason 1992[19] |
Holuhraun | 2014-15 | 85 | Jarðvísindastofnun 22. jan. 2015 [20] |
Hekla | 1766-8 | 65 | Sigurður Þórarinsson 1968[21] |
Tröllahraun[22] | 1862-4 | 51 | Elsa G. Vilmundardóttir o.fl. 1999[23] |
Húsfellsbruni | 10. öld | 43 | Helgi Torfason o.fl. 1999[24] |
Hekla | 1947 | 40 | Sigurður Þórarinsson 1968 |
Krísuvíkureldar | 1151 | 36,5 | Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson 1991[25] |
Kröflueldar | 1975-84 | 35 | Kristján Sæmundsson 1991[26] |
Mývatnseldar | 1724-29 | 33 | Kristján Sæmundsson 1991 |
Nafn eldstöðvarinnar og nýja hraunsins
breytaMenn voru lengi vel ekki á eitt sáttir um nafn nýja hraunsins enda dróst á langinn að gefa því heiti. Um miðjan desember 2015 ákvað hreppsnefnd Skútustaðahrepps að hraunið skyldi heita Holuhraun eins og hraunið sem fyrir var.
Algengast var í byrjun að nefna hraunið Holuhraun eftir gosstöðvunum í Holuhrauni. Ýmsir bentu þó á að Holuhraun væri nafnið á hrauninu frá 1797 og eðlilegt væri að gefa nýja hrauninu nýtt og sjálfstætt nafn. Fljótlega var stungið upp á heitinu Nornahraun. Aðalástæðan fyrir því nafni er að í upphafi gossins bar talsvert á nornahári umhverfis gosstöðvarnar sem myndast hafði í kvikustrókunum. Einnig var stungið upp á nafninu Flæðahraun eftir flæðum Jökulsár á Fjöllum (Jökulsárflæðum eða Flæðum) sem hraunið rann yfir og þekur nú. Það nafn er notað á nýju jarðfræðikorti af Ódáðahrauni sem kom út áður en endanlegt nafn var valið. [27] Margar aðrar uppástungur komu fram en niðurstaða Örnefnanefndar og sveitastjórnar Skútustaðahrepps var sú að nafnið Holuhraun skyldi haldast.[28] Eðlilegast er að líta svo á að eldstöðin beri sama nafn og heiti því Holuhraun og gosið heiti Holuhraunsgos.
Tilvísanir
breyta- ↑ Ólafur Jónsson (1945). Ódáðahraun. Bókaútgáfan Norðri h.f.
- ↑ Hjörleifur Guttormsson 2014. Upprifjun um Grímsvatnajökul, Vatnajökulsveg og Holuhraun. Jökull 64, 107-124
- ↑ Þorvaldur Thoroddsen (1958). Ferðabók IV. Snæbjörn Jónsson & Co. h.f. Norðri h.f. bls. 367.
- ↑ Ólafur Jónsson (1945). Ódáðahraun I. Bókaútgáfan Norðri h.f. bls. 148.
- ↑ 50 sinnum stærra en gosið á föstudag; grein af Rúv.is 2014
- ↑ „Jarðvísindastofnun HÍ“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. júlí 2019. Sótt 8. september 2014.
- ↑ Jarðvísindastofnun HÍ, fésbók
- ↑ ruv.is „Hraunið næði yfir stóran hluta Reykjavíkur“
- ↑ [1],,Hraunið komið yfir veginn“
- ↑ [2],,Hraunbreiðan orðin stærri en Mývatn“
- ↑ http://www.ruv.is/frett/ain-grefur-sig-framhja-nyrri-hrauntungu
- ↑ http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/16/mikil_gosmengun_i_grafarvogi/
- ↑ http://www.ruv.is/frett/mikil-gosmengun-i-sudursveit
- ↑ „Jarðvísindastofnun HÍ“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. júlí 2019. Sótt 8. september 2014.
- ↑ http://www.ruv.is/frett/of-snemmt-ad-segja-ad-gosi-se-lokid
- ↑ Sigurður Reynir Gíslason o.fl. 2016. Umhverfisáhrif Bárðarbungugossins 2014-2015. Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands. Ágrip erinda og Veggspjalda.
- ↑ Árni Hjartarson (2011). „Víðáttumestu hraun Íslands“. Náttúrufræðingurinn. 1. hefti (81): 37–49.
- ↑ Árni Hjartarson (2014). „Hallmundarkviða, eldforn lýsing á eldgosi“. Náttúrufræðingurinn. 1-2. hefti (84): 27–37.
- ↑ Guðmundur E. Sigvaldason (1992). „Recent hydrothermal explosion craters in an old hyaloclastite flow, central Iceland“. Journal of volcanology and geothermal research (54): 53–63.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. desember 2014. Sótt 8. október 2014.
- ↑ Sigurður Þórtarinsson (1968). Heklueldar. Sögufélagið, Reykjavík.
- ↑ Sigurður Þórarinsson og Guðmundur E. Sigvaldason (1972). „Tröllagígar og Tröllahraun“. Jökull (22): 13–26.
- ↑ Elsa G. Vilmundardóttir, Snorri P. Snorrason, Guðrún Larsen og Bessi Aðalsteinsson (1999). Berggrunnskort Tungnárjökull 1:50.000. Orkustofnun.
- ↑ Helgi Torfason, Árni Hjartarson, Haukur Jóhannesson, Jón Jónsson og Kristján Sæmundsson 1999. Berggrunnskort, Vífilsfell 1613 III SA-B, 1:25.000.
- ↑ Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson (1991). „Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns“. Jökull (91): 61–80.
- ↑ Kristján Sæmundsson (1991). Jarðfræði Kröflukerfisins. Í: Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson (ritstj.) Náttúra Mývatns. Hið íslenska náttúrufræðifélag. bls. 25-95.
- ↑ Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Kristján Sæmundsson, Sigurður Garðar Kristinsson og Skúli Víkingsson 2015. Jarðfræðikort af Norðurgosbelti. Syðri hluti - Ódáðahraun. ÍSOR, Reykjavík
- ↑ Holuhraun skal heita HoluhraunSkoðað 16. desember 2015.