Tröllahraun er basalthraun sem kom upp í eldgosi á Tungnaáröræfum á árunum 1862-1864. Tröllagígar eru í Heljargjá norðaustur af Gjáfjöllum og mynda 16 km langa slitrótta gígaröð. Þeir tilheyra Bárðarbungukerfinu eins og margar aðrar gígaraðir á þessum slóðum og á Veiðivatnasvæðinu. Gosið var óvenju langvinnt og stóð með hléum í rúm tvö ár. Það hófst 30. júní 1862 og því lauk einhvern tíma haustið 1864. [1] Lítið varð vart við gosið úr byggð. Gosmökkurinn sást þó frá Suðurlandi og eldsbjarmi þegar kom fram á haustið og veturinn. Einnig varð vart við allmikla blámóðu í lofti víða um land sem menn kenndu gosinu. Hraunið rann til suðvesturs eftir Heljargjá en síðan um skarð til vesturs meðfram norðanverðum Gjáfjöllum. [2] Stórit hvítir feldspatdílar eru í hrauninu. Það er úfið og ógreiðfært yfirferðar, gráhvítt yfir að líta því það er vaxið mosa og skófum. Enginn jarðvegur er á því aðeins efnislitlir sandskaflar hér og hvar sem fokið hafa úr sandorpnum hraununum umhverfis.

Kort af Tröllahrauni.

Grímur Thomsen skáld fór ásamt nokkrum fylgdarmönnum í leiðangur í átt til gosstöðvanna í ágúst 1862. Þeir komust inn að Hágöngum og sáu þaðan til gossins úr fjarska og létu við svo búið standa.

Pálmi Hannesson mun hafa stungið upp á nöfnunum Tröllagígar og Tröllahraun. Eldra nafn er Galdrahraun en það er komið frá Fr. le Sage de Fontenay. [3]

  1. Sigurður Þórarinsson og Guðmundur E. Sigvaldason (1972). „Tröllagígar og Tröllahraun“. Jökull (22): 13–26.
  2. Elsa G. Vilmundardóttir, Snorri P. Snorrason, Guðrún Larsen og Bessi Aðalsteinsson (1999). Berggrunnskort Tungnárjökull 1:50.000. Orkustofnun.
  3. Elsa G. Vilmundardóttir (1982). Gjáfjöll. Jarðfræðirannsóknir og borun 1981. OS82017/VOD013. Orkustofnun.