Lýðveldishátíðin 1944
Lýðveldishátíðin var hátíð sem haldin var á Þingvöllum 17. júní 1944 í tilefni af stofnun lýðveldis á Íslandi.
Alþingi hélt sérstakan þingfund á hátíðinni og lýsti Gísli Sveinsson forseti sameinaðs Alþingis yfir gildistöku nýrrar stjórnarskrár þar sem Ísland var lýst lýðveldi. Á fundinum kusu alþingismenn einnig fyrsta forseta Íslands og var Sveinn Björnsson ríkisstjóri kjörinn í embættið til eins árs.
Daginn fyrir lýðveldishátíðina hafði Alþingi samþykkt að fella úr gildi Sambandslögin frá 1918 í samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. og 23. maí 1944. Við sama tækifæri voru samþykkt lög um fána Íslands og skjaldarmerki Íslands.