Jørgen Ditlev Trampe

danskur aðalsmaður og embættismaður

Jørgen Ditlev Trampe (5. maí 18075. mars 1868), almennt nefndur Trampe greifi var danskur aðalsmaður og embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi í áratug, frá 1850 til 1860.

Stiftamtmaður á Íslandi breyta

Trampe var fæddur í Korsør í Danmörku. Foreldrar hans voru greifahjónin Frederik Christopher Just Gerhard von Trampe og Conradine Cecilie, fædd Haag. Frændi hans var Frederik Christopher Trampe, sem var stiftamtmaður á Íslandi 1806-1810. Trampe var skipaður stiftamtmaður á Íslandi 1850 og kom til landsins 29. apríl. Hann er sagður hafa verið glaðlyndur, mannblendinn og viðmótsgóður og var því í fyrstu vinsæll meðal Íslendinga, ekki síst eftir að hann tók upp þann sið að láta rita embættisbréf sín á íslensku, en áður höfðu öll slík bréf verið skrifuð á dönsku. Þótti þetta svo merkilegt, að Bókmenntafélagið kaus Trampe sama ár og hann tók við embætti sem heiðursfélaga sinn í virðingar- og viðurkenningarskyni.

Hann lagði líka stund á íslenskunám og gerði sér líka far um að kynnast landi og þjóð og ferðaðist víða um Suður- og Vesturland fyrsta sumar sitt í embætti. Þá kom hann meðal annars á Þingvallafundinn 1850. Væntu því margir góðs af störfum hans en fljótlega kastaðist þó í kekki milli hans og ýmissa leiðtoga Íslendinga, enda var Trampe fyrst og fremst konunghollur embættismaður og tók embætti sitt alvarlega.

Þjóðfundurinn breyta

Óvinsælasta verk Trampe og það sem hann er helst þekktur fyrir á Íslandi var að slíta Þjóðfundinum 1851 þegar ljóst var að frumvarp sem hann hafði lagt fram sem fulltrúi konungs um að Ísland yrði innlimað í Danmörku yrði fellt. Hafði Trampe fyrirfram búist við að leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar yrðu sér erfiðir og það svo að 4. mars 1851 hafði hann skrifað danska innanríkisráðueytinu og farið fram á að danskir hermenn yrðu sendir til Reykjavíkur til að halda uppi lögum og reglu. Danskt herskip var sent til landsins og jafnframt fékk Trampe fyrirmæli um að fresta þjóðfundinum eða slíta honum ef honum þætti þess við þurfa, eins og hann líka gerði.

Trampe var áfram stiftamtmaður á Íslandi til 1860 en verulega dró úr vinsældum hans við þá atburði sem urðu á þjóðfundinum. Hann var síðan skipaður amtmaður í Ringkøbing á Jótlandi og gegndi því embætti til dauðadags 1868.

Fjölskylda breyta

Kona hans (gift 1835) var Christiane Adolphine Siersted (1813—1887). Einn sonur þeirra, Christian, giftist Áróru, yngstu dóttur Þórðar Sveinbjörnssonar háyfirdómara.

Tengt efni breyta

Tenglar breyta