Ásgeir Einarsson (23. júlí 180915. nóvember 1885) var íslenskur bóndi og alþingismaður á 19. öld. Hann fæddist í Kollafjarðarnesi á Ströndum, sonur Einars Jónssonar dannebrogsmanns, (f. 9. júlí 1754, d. 6. desember 1845) og konu hans Þórdísar Guðmundsdóttur (f. um 1777, d. 31. júlí 1861). Systkini Ásgeirs voru; Torfi Einarsson á Kleifum alþingismaður, þótti höfuðskörungur og þingmaður Strandamanna 1867-1877 - Um hann átti Jón forseti að hafa sagt við öl : "Væri ég ekki Jón á Gautlöndum, vildi ég vera Torfi á Kleifum", Magnús Einarsson á Hvilft í Önundarfirði, en hann var smiður ágætur og hugvitsmaður og var um tíma varaþingm. Jóns forseta í Ísafjarðarsýslu, Guðmundur Einarsson á Kleifum, Jón bóndi og skipstjóri á Sveinseyri við Dýrafjörð og Ragnheiður Einarsdóttir kona Sakaríasar bónda á Heydalsá og Kollafjarðarnesi en móðir Guðlaugar Sakaríasdóttur konu Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal.

Ásgeir hóf búskap í Kollafjarðarnesi 1839. Hann var kjörinn fyrsti þingmaður Strandamanna fyrir ráðgjafarþingið 1845 og var var þjóðfundarmaður 1851. Ásgeir þótti afbrigða duglegur búhöldur og auðsæll. Þóttu þau hjónin höfðingjar í héraði og höfðu mikla mannheill. Ásgeir var því í flestum greinum hinn mesti hamingjumaður og eftir hann er þessi vísa, er hann kvað er hann var við smíðar á bát í Kollafjarðarnesi:


Til þín vandast bænin bein;
ég bið með anda sterkum,
að engum standi manni mein
af mínum handaverkum.


Árið 1860 þegar Ásgeir fluttist að Þingeyrum í Húnaþingi var þar torfkirkja hrörleg. Ásgeir ákvað að byggja upp kirkju á staðnum úr íslensku grjóti og var það flutt vestan úr Nesbjörgum og dregið á sleðum yfir ísi lagt Hópið og stóð bygging hennar 13 ár frá 1864 til 1877. Þingeyrakirkja er í senn fögur, svipmikil og sérkennileg og af mörgum talið eitt merkasta guðshús á Íslandi. Kirkjubyggingin kostaði 16 þúsund ríkisdali og af þeim reiddi Ásgeir sjálfur fram 10 þúsund. Eftir hann er og lýsing Þingeyrarkirkju, Reykjavík 1878.

Árið 1875 gerðist hann þingmaður Húnvetninga og sat sem slíkur til 1880. Hann bjó í Ásbjarnarnesi 1863-1867 en fluttist svo á ný að Þingeyrum 1867 og bjó þar til æviloka.

Einkasonur hans og konu, hans 26. júní 1838 Guðlaugar Jónsdóttur kammerrás og sýslumanns á Melum, Jónssonar (f. 1813, d. 9. febrúar 1887) var hinn annálaði hesta- kvenna- vín- og vísnamaður Jón Ásgeirsson, en eftir hann er vísan þjóðkunna:

Nú er hlátur nývakinn,
nú er grátur tregur,
nú er ég kátur nafni minn,
nú er ég mátulegur.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.