Þórður Sveinbjörnsson

Þórður Sveinbjörnsson (4. september 178620. febrúar 1856) var háyfirdómari, landfógeti og bæjarfógeti í Reykjavík. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1845-1850 og forseti Alþingis 1847. Þórður var ritstjóri Sunnanpóstsins árið 1835.

Þórður fæddist á Ytra-Hólmi á Akranesi og voru foreldrar hans Sveinbjörn Þórðarson lögréttumaður á Hvítárvöllum og fyrri kona hans, Halldóra Jónsdóttir. Þórður lærði í heimaskóla hjá Geir Vídalín biskupi og útskrifaðist með stúdentspróf 1802. Hann var svo skrifari Stefáns Stephensen amtmanns í hálfan annan áratug en hóf lögfræðinám við Kaupmannahafnarháskóla 1817 og lauk prófi vorið 1820. Hann fékk heiðurspening háskólans 1819 fyrir ritgerð sögulegs efnis.

Þórður vann síðan um tíma í Rentukammerinu en var skipaður sýslumaður í Árnessýslu 1822 og fór þá til Íslands. Hann varð 1. assessor í Landsyfirrétti 1834 og háyfirdómari 1836 og þjónaði því embætti til dauðadags. Hann gegndi landfógetaembættinu og jafnframt bæjarfógetaembættinu í Reykjavík frá hausti 1835 til 24. febrúar næsta ár og aftur um sumarið nokkurn tíma og gegndi einnig störfum stiftamtmanns í nokkra mánuði 1836. Hann fékk konferensráðsnafnbót 1848.

Þórður sat á Alþingi sem konungkjörinn þingmaður fimm fyrstu þingin, var forseti þess 1847, og var jafnframt konungkjörinn fulltrúi á þjóðfundinum 1851.

Fyrri kona Þórðar var Guðrún Oddsdóttir Stephensen, ekkja Stefáns Stephensen, en börn þeirra dóu ung. Þau hjónin bjuggu í Hjálmholti í Flóa en þegar Þórður var skipaður dómari fluttu þau að Nesi við Seltjörn. Guðrún dó 1838 og tveimur árum síðar giftist Þórður Kristínu Cathrine Lauritzdóttur Knudsen, einni hinna kunnu Knudsenssystra, sem þóttu einhverjar helstu glæsimeyjar Reykjavíkur um 1830-40. Kristín var 27 árum yngri en Þórður en hafði nokkrum árum áður hneykslað Reykvíkinga með því að eignast barn með manni systur sinnar og þóttu því nokkur tíðindi í bæjarlífinu þegar hún giftist einum æðsta embættismanni landsins. Þórður ættleiddi son hennar, sem eftir það nefndist Lárus Sveinbjörnsson, og eignuðust þau Kristín svo átta börn saman. Á meðal þeirra voru Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld og Áróra, kona Christians Trampe greifa, sonar Jørgens Ditlevs Trampe stiftamtmanns.

Heimild

breyta
  • Þórður Sveinbjörnsson (æviágrip á vef Alþingis)
  • „Candidati juris. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 3. árgangur 1882“.