Hrappsey

eyja í Breiðafirði á Vesturlandi

65°07′00″N 22°36′00″V / 65.11667°N 22.60000°V / 65.11667; -22.60000 Hrappsey er eyja á innanverðum Breiðafirði í mynni Hvammsfjarðar, um 7 kílómetra norðaustur af Stykkishólmi. Eyjan er 1,7 ferkílómetrar að stærð. Jarðgerð eyjarinnar þykir sérstök fyrir að vera að hluta af bergtegundinni anorþósít, sem er svipað að gerð og tunglið. Hrappsey er kölluð Hrafnsey í ýmsum eldri heimildum, til dæmis heitir hún Hrafsey í máldaga frá 1533 en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 heitir hún Hrappsey.

Samkvæmt máldaga Skarðskirkju var bænhús í Hrappsey árið 1237 en þess er ekki getið síðan. Árið 1241 flúði Tumi Sighvatsson yngri þangað undan Kolbeini unga og Gissuri Þorvaldssyni eftir víg Snorra Sturlusonar frænda síns. Eftir það er Hrappseyjar oft getið í heimildum, enda bjuggu þar ýmsir merkisbændur. Jörðin var hlunnindajörð og þar var mikil dún- og fuglatekja. Þar var líka góð fjárbeit.

Hrappseyjarprentsmiðja

breyta

Á síðasta fjórðungi 18. aldar var Hrappsey menningarmiðstöð því þá var þar prentsmiðja, hin eina utan biskupsstólanna, og töluverð útgáfustarfsemi stunduð. Þeir sem helst stóðu fyrir prentsmiðjunni voru Bogi Benediktsson, bóndi í Hrappsey og aðaleigandi prentsmiðjunnar lengst af, náfrændi hans Guðmundur Ólafsson bóndi í Arney, og Magnús Ketilsson sýslumaður í Búðardal, sem sjálfur var afkastamikill rithöfundur og skrifaði töluvert af því sem prentsmiðjan gaf út, þar á meðal fyrsta tímarit sem út kom á Íslandi, Islandske Maanedstidender. Prentsmiðjan var í Hrappsey frá 1773 til 1795 en þá var hún seld og flutt suður að Leirárgörðum.

Hrappsey hefur verið í eyði frá 1958. Hún var um tíma í eigu Háskóla Íslands, gefin af Guðmundi Magnússyni og konu hans, Katrínu Skúladóttur frá Hrappsey, en er nú í einkaeign.

Heimildir

breyta
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, H-K. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.
  • Íslendingabók islendingabok.is
   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.