Guðmundur Einarsson (f. 1816)

Guðmundur Einarsson (f. í Skáleyjum á Breiðafirði 25. mars 1816 – d. á Breiðabólstað á Skógarströnd 31. október 1882). Prestur, prófastur, alþingismaður.

Foreldrar Guðmundar voru Einar Ólafsson (1770-1843) bóndi í Skáleyjum og meðhjálpari, og kona hans Ástríður Guðmundsdóttir (1771-1865) húsfreyja og ljósmóðir. Guðmundur var móðurbróðir Matthíasar Jochumssonar (1835-1920) prests og sálmaskálds. Lærði fyrst hjá séra Friðriki Jónssyni á Stað á Reykjanesi, síðan tvo vetur hjá Sveinbirni, síðar rektor, Egilssyni; tekinn í efri bekk Bessastaðaskóla 1835, stúdent 1838 með hæstu einkunn, fékk verðlaun á fæðingardegi konungs fyrir iðjusemi. Varð skrifari og kennari hjá Eiríki sýslumanni Sverrissyni. Vígðist 26. júní 1842 aðstoðarprestur séra Ólafs Sívertsen (1790-1860) í Flatey á Breiðafirði; bjó í Skáleyjum og gegndi Múlasókn á Skálmarnesi; fékk Kvennabrekku 1848, fluttist þangað 1849; fékk Breiðabólstað á Skógartrönd 18. ágúst 1868 og hélt til æviloka. Prófastur í Dalasýslu 1864-1869 . Var 1. þjóðfundarmaður Dalasýslu 1851, þingmaður Dalamanna 1853-1857, og 1869-1881. „Búhöldur mikill, gáfumaður, skáldmæltur. Ljúfmenni". (Texti að megni til úr Íslenzkum æviskrám).

Ritstörf

breyta

Um nautpeningsrækt, Rvk. 1859

Hugvekjusálmar, Kh. 1860

Um bráðapestina, Rvk. 1876

Undirstöðuatriði búfjárræktar, Rvk. 1877

Um sauðfénað, v. 1879

Í forstöðunefnd Gests Vestfirðings. Ritaði greinar og grafskriftir og erfiljóð í blöð, og átti Húskveðju í útfararminningu séra Jóns Matthíassonar, Rvk. 1860. Safnaði ýmsu um leiki, skemmtanir, gátur og þjóðsiði o. fl. (Þjóðsögur Jóns Árnasonar). Á 7 sálma í Sálmabókinni 1871.

Fjölskylda

breyta

Kona Guðmundar, 3. nóv. 1843, var Katrín Ólafsdóttir (1823-1903) húsfreyja, dóttir Ólafs Sívertsen (1790-1860) prófasts i Flatey, og Jóhönnu Friðriku Eyjólfsdóttur (1798-1865) húsfreyju og yfirsetukonu. Börn þeirra urðu 14 að tölu; upp komust, Ásthildur Jóhanna (1857-1938) húsfreyja, síðar kona Péturs J. Thorsteinsson (1845-1929); Ólafur Sívertsen (1861-1906) héraðslæknir að Stórólfshvoli, kvæntist Margréti Magnúsóttur Ólsen; Theodóra Friðrika (1863-1954) skáldkona, giftist Skúla Thoroddsen sýslumanni, ritstjóra og alþingismanni.

Heimild

breyta

Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár, 1948-1976