Zwolle
Zwolle er höfuðborg héraðsins Overijssel í Hollandi en er ekki nema næststærsta borgin í héraðinu með 123 þúsund íbúa (2014). Í Zwolle var Hansasambandið hið nýja stofnað árið 1980.
Zwolle | |
---|---|
Hérað | Overijssel |
Flatarmál | |
• Samtals | 119,28 km2 |
Mannfjöldi (1. Janúar 2014) | |
• Samtals | 123.130 |
• Þéttleiki | 1.032/km2 |
Vefsíða | www.zwolle.nl |
Lega og lýsing
breytaZwolle liggur við ána Ijssel nánast miðsvæðis í Hollandi, rétt austan við Ijsselmeer og vestast í héraðinu Overijssel. Næstu borgir eru Kampen til vesturs (15 km), Apeldoorn til suðurs (40 km) og Almelo til suðausturs (45 km). Í Zwolle mundar áin Vecht í Ijssel. Borgin er því skipgeng alla leið til Norðursjávar.
Fáni og skjaldarmerki
breytaFáni Zwolle er hvítur kross á bláum grunni (öfugt við finnska fánann). Merkið er kross heilags Mikjáls erkiengils en hann er verndardýrlingur borgarinnar. Skjaldarmerkið er eins, nema hvað það er borið af tveimur ljónum og efst er kóróna. Hún táknar keisara þýska ríkisins (ekki hollenska konungdæmið), því Zwolle var áður fyrr hluti af þýska ríkinu. Það var Friðrik III keisari sem léði borginni fyrsta skjaldarmerkið 1488. Núverandi skjaldarmerki var formlega tekið upp 1974.
Orðsifjar
breytaBorgin myndaðist á lítilli sandhæð milli ánna Ijssel, Vecht, Aa og Zwarte Water. Slík hæð kallaðist suol eða suolle á hollensku (sbr. geschwollen á þýsku). Á korti frá 1543 er borgin merkt sem Suol. Það breyttist svo í Zwolle með tímanum.
Söguágrip
breytaBlómaskeið
breytaZwolle var stofnuð í kringum árið 800 af frísneskum verslunarmönnum og uppgjafahermönnum Karlamagnúsar. Bærinn kom þó ekki við skjöl fyrr en 1040 en í því kom fram að kirkja í bænum hafi verið vígð heilögum Mikjál. Bærinn var undir yfirráðum biskupanna í Utrecht og það voru þeir sem veittu Zwolle borgarréttindi 1230. Árið 1294 gekk borgin í Hansasambandið og barðist með því gegn Valdimar IV Danakonungi 1361. Gullaldarár Zwolle voru á 15. öld, er viðskipti voru enn blómleg. Á þessum tíma voru náin samskipti við borgirnar Deventer og Kampen en þær gáfu til að mynda út sameiginlega mynt. Efnahagslegt hrun varð í borginni í sjálfstæðisstríði Hollendinga og kom borgin lítt eða ekki við sögu næstu aldir.
Heimstyrjöldin síðari
breytaZwolle var hertekin af Þjóðverjum 10. maí 1940 og héldu þeir borginni til apríl 1945. Kanadískur hermaður, Leo Major, vann það þrekvirki að frelsa borgina úr höndum nasista einsamall. Kanadísk hersveit var við borgarmörkin, tilbúin að gera ásás. Major var sendur leynilega inn í borgina, við annan mann, til að kanna varnir Þjóðverja. Þegar félagi Majors var drepinn, tók Major það til bragðs að skjóta á götum borgarinnar og henda handsprengjum út um allt. Þjóðverjar héldu að bandamenn hefðu gert árás og voru ringlaðir. Þá uppgötvaði Major aðalstöðvar SS-sveitanna í borginni. Hann lagði eld að þeim, drap nokkra yfirmenn nasista í skotbardaga og hélt áfram að vera með læti. Þetta endaði með því að Þjóðverjar drógu sig til baka frá borginni en Major labbaði til kanadísku sveitar sinnar með tugi stríðsfanga. Jafnskjótt gátu Kanadamenn þrammað inn í Zwolle án frekari vandræða. Fyrir vikið hlaut Leo Major orðu fyrir.
Hansaborg á ný
breytaÁrið 1980 söfnuðust fulltrúar ýmissa gamalla Hansaborga saman á ráðstefnu í Zwolle og stofnuðu Hansasambandið hið nýja. Samband þetta er meira menningarlegs en viðskipta- eða verslunarlegs eðlis. Markmið sambandsins er að auka ferðamennsku í viðkomandi borgum. Aðeins borgir sem áður fyrr voru meðlimir Hansasambandsins eru gjaldgengar í nýja sambandið. Í dag eru tugir borga í nýja sambandinu, þar á meðal Hafnarfjörður.
Bláfingur
breytaÍbúar Zwolle kalla sig gjarnan Blauwvingers (Bláfingur). Á miðöldum var mikill rígur milli nágrannaborganna Zwolle og Kampen. Íbúar Zwolle uppnefndu fólkið frá Kampen Kampersteuren (Styrjurnar frá Kampen) en styrjur voru þá enn til í fljótum Hollands. Eitt sinn, eftir borgarbruna í Zwolle, eyðilagðist klukknaspil í kirkjuturni nokkrum. Borgarráðið ákvað að selja klukkurnar sem heilar voru og vildu íbúar Kampen gjarnan kaupa þær. Þeir sendu vagna hlaðna gamalli mynt. Þegar fulltrúar Zwolle töldu myntirnar, fengu þeir bláa fingur (málmfingur). Því voru þeir uppnefndir Bláfingur. Þetta heiti hefur verið endurnýjað, en með jákvæðum blæ þó.
Byggingar og kennileiti
breyta- Frúarkirkjan er aðalkirkja miðborgarinnar. Hún var reist í fjórum áföngum. Kórinn var smíðaður 1394-99. Smíði þverskipsins lauk 1417, að aðalskipsins 1454. Turninn var svo reistur 1463-84. Hann kallast Peperbus á hollensku. Eftir siðaskiptin 1580 var kirkjan afvígð og notuð í borgaralegum tilgangi. En 1810, meðan Frakkar réðu ríkjum í Hollandi, var byggingunni skilað til kaþólsku kirkjunnar.
- Sassenpoort er gamalt borgarhlið sem reist var í kringum aldamótin 1400. Eftir að varnarmúrarnir voru rifnir stóð hliðið eftir eitt og sér. Það var gert upp 1894-97 í nýgotneskum stíl og fékk þá núverandi turnþök. Hliðið er friðað.
- De Passiebloem er heiti á þekktri vindmyllu innan borgarmarkanna. Hún stendur við ána Vecht og var reist 1776. Hún var notuð til að dæla mýrarolíu úr jarðlögum. Þrjár aðrar vindmyllur voru á svipuðum slóðum, en eru nú allar horfnar. Myllan hætti starfsemi 1928. Síðan þá hefur hún verið gerð upp tvisvar, síðast 1985, og er aftur komin í notkun.
- De Librije er veitingastaður í Zwolle. Það er í byggingu sem reist var á 15. öld og þjónaði sem munkaklaustur. Á seinni árum var húsinu breytt í veitingastað, sem þykir afbragðs góður. Þannig veitti Michelin Guide staðnum þrjár stjörnur en aðeins einn annar veitingastaður í Hollandi hefur hlotið álíka viðurkenningu. Árið 2011 hlaut veitingahúsið Millau-verðlaunin sem besti veitingastaður Hollands.
-
Turn frúarkirkjunnar kallast Peperbus
-
Sassenpoort
-
Vindmyllan De Passiebloem
-
De Librije er úrvals veitingastaður
Heimildir
breytaFyrirmynd greinarinnar var „Zwolle“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. ágúst 2011.