IJsselmeer

(Endurbeint frá Ijsselmeer)

IJsselmeer er stærsta stöðuvatn Hollands og jafnframt eitt stærsta manngerða stöðuvatn heims, 1.850 km2 Það var áður fyrr fjörður sem hét Zuiderzee. Fjörðurinn náði djúpt inn í landið en var lokaður af með sjóvarnargarði árið 1932.

Hollenskt kort af IJsselmeer

Landafræði breyta

Zuiderzee var nokkuð langur fjörður sem gekk til suðurs inn í norðanverð Niðurlönd. Mynni hans lá við norðurodda héraðsins Hollands annars vegar og við Frísland hins vegar. Fjarðarmynnið var mjög grunnt, enda komið í hollenska Vaðhafið. Utar liggja Vestur-frísnesku eyjarnar. Fjörðurinn náði mun lengra inn í landið en IJsselmeer gerir í dag. IJsselmeer skiptist í nokkur stöðuvötn. Þau helstu eru Markermeer, IJmeer, Gooimeer og Ketelmeer. Héraðið Flevoland var myndað með landþurrkun en við það minnkaði Ijsselmeer um tæplega helming. Helstu hafnarborgir við Ijsselmeer eru Amsterdam, Volendam, Lelystad, Hoorn, Enkhuizen og Lemmer.

Orðsifjar breyta

Zuiderzee merkir suðursjór en átt er við að fjörðurinn gamli gekk inn í landið til suðurs. IJsselmeer merkir vatnið þar sem áin Ijssel á mynni en IJssel er nyrsta og austasta óshólmakvísl Rínar. Á hollensku er Ijsselmeer ritað IJsselmeer, þar sem fyrstu tveir bókstafirnir eru ritaðir með stórum staf. Hollenska orðið –meer merkir stöðuvatn, ekki sjór.

Saga breyta

Zuiderzee breyta

Í upphafi var IJsselmeer lokað stöðuvatn sem Rómverjar kölluðu Lacus Flevus. En í gegnum aldirnar hafa gríðarleg stormflóð riðið yfir landið, bæði við vestur- og norðurströnd Hollands. Zuiderzee varð til við stormflóð á 12. og 13. öld er hafið braust inn í landið. Í stað stöðuvatnsins myndaðist langur fjörður til suðurs sem klauf Holland nær því í tvennt. Íbúar svæðanna voru í stöðugri hættu vegna sjávargangs og flóða. Þúsundir létust í flóðunum. Lengi hafa menn því velt fyrir sér hvernig stjórna mætti náttúruöflunum.

Afsluitdijk breyta

 
Sjávarvarnargarðurinn mikli, Afsluitdijk, er 32 km langur. Á honum er hraðbraut sem tengir Norður-Holland við Frísland.

Í lok 19. aldar hóf verkfræðingurinn Cornelius Lely að kanna möguleikann á því að loka Zuiderzee af með varnargarði og komst að því að slíkt væri bæði mögulegt og hagkvæmt. Hins vegar var ekkert gert í nokkra áratugi. En eftir flóðið mikla 1916, sem kostaði mörg mannslíf, voru áætlanir hans teknar fram á ný og raunhæfar framkvæmdaáætlanir gerðar. Vinnan við garðinn hófst árið 1927 og stóð yfir í fimm ár. Í vestri hefst garðurinn við borgina Den Oever í Norður-Hollandi og liggur síðan í nær beinni línu í norðaustur, til Fríslands. Þann 28. maí 1932 klukkan 13:02 var síðasta hleðslan í garðinum sett í með viðhöfn og þar með lokaðist Zuiderzee af frá sjónum. Garðurinn var þá orðinn 32 km langur og hlaut nafnið Afsluitdijk. Garðurinn var síðan hækkaður og breikkaður í 90 metra og lögð var eftir honum hraðbraut. Þann 20. september á sama ári var heitinu formlega breytt úr Zuiderzee í IJsselmeer. Þar með var orðið til eitt stærsta manngerða stöðuvatn heims sem ekki er uppistöðulón í virkjun. Ýmsar sögufrægar hafnarborgir, eins og Amsterdam og Hoorn, lágu þar með ekki lengur að sjó. Við Afsluitdijk er þó skipalyfta, þannig að skip og bátar geta farið um til hafs.

Uppþurrkun breyta

 
Þannig voru upphaflegu áætlanirnar um uppþurrkun IJsselmeers. Suðvesturhlutinn, sem í dag er Markermeer, varð hins vegar aldrei að veruleika.

Samfara myndun IJsselmeers voru þegar uppi áætlanir um að þurrka stóran hluta þess upp til nýmyndunar lands. Vinnan við það hófst skömmu eftir að Ijsselmeer varð til og árið 1942 var Noordoostpolder tilbúið til landnáms. Það er í dag landfasti hluti Flevolands. Á sjötta áratugnum var hafist handa við að þurrka syðsta hluta IJsselmeers upp. Við það myndaðist stærsta manngerða eyja heims, bróðurpartur Flevolands. Eyjan og Noordoostpolder voru gerð að nýjasta héraði Hollands 1986. Slíkt er einsdæmi í heiminum að heilt hérað verði til við nýmyndun lands. Árið 1976 var annar garður, ásamt akvegi, lagður þvert yfir IJsselmeer og náði hann frá Lelystad í austri til Enkhuizen í vestri. Garður þessi heitir Houtribdijk og var gerður til þess að hægt væri að þurrka upp suðurhluta IJsselmeer, sem heitir Markermeer, fyrir nýmyndun lands. En sökum þess að engin bráð spurn var þá eftir nýju landi í Hollandi var áætlunum um uppþurrkunina frestað. Auk þess er Markermeer orðið að stöðugu vistkerfi og vinsælu siglingasvæði fyrir seglbáta. Því er með öllu óljóst hvort þar verður nokkurn tímann þurrkað upp. Ijsselmeer er því tvískipt í dag, en margir Hollendingar líta þó svo á að Markermeer og önnur stöðuvötn í kringum Flevoland séu einungis hluti af IJsselmeer.

IJsselmeer í dag breyta

IJsselmeer og Markermeer eru miklar siglingaleiðir, bæði fyrir fraktflutninga og siglingar til dægradvalar. Margar hafnir eru við vötnin, sérstaklega smábátahafnir. Skip sigla frá Markermeer um skipaskurð við Lelystad yfir í IJsselmeer. Við Afslutdijk nyrst í IJsselmeer er svo skipastigi, þaðan sem siglt er inn í Vaðhafið. Bæði Markermeer og IJsselmeer eru að meðaltali um 20-40 cm fyrir neðan sjávarmál. Munurinn er þó miklu meiri á flóði. Stór úthafsskip sigla hins vegar í vestur frá Amsterdam eftir skipaskurði og til Norðursjávar við IJmuiden. Mörg náttúruverndarsvæði eru við IJsselmeer. Það helsta er Oostvaardersplassen á Flevoland. Svæðið er kjörið fyrir vað- og strandfugla.

Heimildir breyta