Ludwig Wittgenstein

(Endurbeint frá Wittgenstein)

Ludwig Josef Johann Wittgenstein (26. apríl 188929. apríl 1951) var austurrískur heimspekingur sem var brautryðjandi á ýmsum sviðum nútímaheimspeki, einkum í rökfræði, málspeki og hugspeki. Hann er af mörgum talinn einn áhrifamesti og merkasti heimspekingur 20. aldar.[1]

Ludwig Josef Johann Wittgenstein
Wittgenstein (fyrir miðju)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. apríl 1889
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 20. aldar
Skóli/hefðRökgreiningarheimspeki
Helstu ritverkRökfræðileg ritgerð um heimspeki (1921/1922), Rannsóknir í heimspeki (1953)
Helstu kenningarRökfræðileg ritgerð um heimspeki (1921/1922), Rannsóknir í heimspeki (1953)
Helstu viðfangsefnimálspeki, hugspeki, rökfræði, heimspeki stærðfræðinnar, þekkingarfræði, frumspeki
Ludwig Wittgenstein (1929)

Enda þótt ýmsar minnisbækur, seðlar og fyrirlestrar hafi verið gefnir út að honum látnum lét Wittgenstein þó einungis gefa út eina bók eftir sig meðan hann var á lífi — Rökfræðilega ritgerð um heimspeki (Logisch-Philosophische Abhandlung eða Tractatus Logico-Philosophicus) árið 1921.

Elstu verk Wittgensteins voru undir miklum áhrifum frá Arthur Schopenhauer og hinni nýju rökfræði sem Bertrand Russell og Gottlob Frege höfðu skapað. Þegar Tractatus (eins og bókin er oftast kölluð) kom út hafði hún veruleg áhrif á heimspekinga Vínarhringsins. Wittgenstein taldi sig aftur á móti ekki tilheyra þeim skóla hugsunar og sagði að rökfræðilegu raunhyggjumennirnir hefðu misskilið Tractatus illa.

Þegar Wittgenstein hafði lokið við Tractatus taldi hann sig hafa leyst öll heimspekileg vandamál og sagði skilið við ástundun heimspekinnar. Hann fluttist til Austurríkis og gerðist barnaskólakennari, garðyrkjumaður og arkítekt en gekk í klaustur um tíma. Árið 1929 sneri hann hins vegar aftur til Cambridge. Hann hlaut doktorsgráðu fyrir Tractatus og tók við kennslustöðu í Cambridge. Hann hafnaði eða endurskoðaði mikið af eldri verkum sínum. Hann þróaði nýja aðferð við að stunda heimspeki og nýjan skilning á eðli tungumáls í seinna stórvirki sínu Rannsóknum í heimspeki (Philosophische Untersuchungen), sem kom út að honum látnum.

Bæði eldri og yngri verk hans hafa haft gríðarleg áhrif á sögu rökgreiningarheimspeki. Meðal fyrrverandi samstarfsmanna og nemenda Wittgensteins sem héldu áfram að stunda heimspeki í anda aðferðar Wittgensteins eru Gilbert Ryle, Friedrich Waismann, Norman Malcolm, G.E.M. Anscombe, Rush Rhees, Georg Henrik von Wright, og Peter Geach. Meðal heimspekinga samtímans sem eru undir miklum áhrifum frá Wittgenstein má nefna Michael Dummett, Peter Hacker, Stanley Cavell, Cora Diamond og James F. Conant.

Helstu ritverk Wittgensteins

breyta

Helstu rit Wittgensteins eru:

  • „Logisch-Philosophische Abhandlung“ (Rökfræðileg ritgerð um heimspeki), kom fyrst út í Annalen der Naturphilosophie, 14 (1921)
    • Ensk þýðing: Tractatus Logico-Philosophicus, C.K. Ogden (þýð.) (1922)
    • Ensk þýðing: Tractatus Logico-Philosophicus, D.F. Pears og B.F. McGuinness (þýð.) (1961)
  • Philosophische Untersuchungen (Rannsóknir í heimspeki) (1953)
    • Ensk þýðing: Philosophical Investigations, G.E.M. Anscombe (þýð.) (1953)
  • Bemerkungen über die Grundlagen der Mathematik (Athugasemdir um undirstöður stærðfræðinnar), G.H. von Wright, R. Rhees og G.E.M. Anscombe (ritstj.) (1956)
    • Ensk þýðing: Remarks on the Foundations of Mathematics, G.E.M. Anscombe (þýð.), endursk. útg. (1978)
  • The Blue and Brown Books (Bláa bókin og Brúna bókin) (1958)
    • Íslensk þýðing: Bláa bókin, Þorbergur Þórsson (þýð.) með inngangi eftir Þorstein Gylfason.
  • Philosophische Bemerkungen (Heimspekilegar athugasemdir), Rush Rhees (ritstj.) (1964)
    • Ensk þýðing: Philosophical Remarks (1975)

Heimspeki

breyta

Enda þótt margar af minnisbókum Wittgensteins, ritgerðum hans, fyrirlestrum og ókláruðum verkum hafi komið út að honum látnum lét hann sjálfur frá sér fara um ævina einungis eina bók um heimspeki, Tractatus Logico-Philosophicus eða Rökfræðilega ritgerð um heimspeki sem kom út árið 1921. Í elstu ritum Wittgensteins má greina áhrif frá þýska heimspekingnum Arthur Schopenhauer og nýju rökfræðinni sem Bertrand Russell og Gottlob Frege höfðu þróað. Hann var einnig undir áhrifum frá þýska heimspekingnum Immanuel Kant. Þegar Rökfræðileg ritgerð um heimspeki kom út hafði hún strax mikil áhrif á Vínarhringinn og rökfræðilega raunhyggju. En Wittgenstein taldi sig ekki tilheyra þeim skóla hugsunar og og sagði að rökfræðileg raunhyggja fæli í sér alvarlegan misskilning á kenningunni í Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki.

Wittgenstein taldi að í Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki hefði honum tekist að leysa allar gátur heimspekinnar og gaf því heimspekina upp á bátinn. Hann menntaði sig sem barnaskólakennari og réði sig í vinnu sem slíkur eftir að hafa einnig unnið sem garðyrkjumaður í klaustri. Hann reyndi einnig fyrir sér sem arkitekt og teiknaði hús fyrir systur sína í Vínarborg. Húsið stendur enn. Árið 1929 sneri hann hins vegar aftur til Cambridge, þar sem honum var veitt doktorsgráða fyrir Rökfræðilega ritgerð um heimspeki og tók hann jafnóðum við kennslustöðu. Hann tók til gagngerrar endurskoðunar fyrri heimspeki sína og þróaði nýja heimspekilega aðferð til að fást við og skilja tungumálið. Þetta leiddi til annars meginverks hans Rannsókna í heimspeki, sem kom út að honum látnum.

Áhrif

breyta

Bæði yngri verk Wittgensteins og eldri verk hans hafa reynst gríðarlega áhrifamikil á þróun rökgreiningarheimspekinnar. Meðal fyrrum nemenda og samstarfsmanna Wittgensteins má nefna Gilbert Ryle, Friedrich Waismann, Norman Malcolm, G.E.M. Anscombe, Rush Rhees, Georg Henrik von Wright og Peter Geach.

Margir heimspekingar samtímans eru undir miklum áhrifum frá Wittgenstein, þar á meðal Michael Dummett, Donald Davidson, P.M.S. Hacker, John R. Searle, Saul Kripke, John McDowell, Hilary Putnam, Anthony Quinton, P.F. Strawson, Paul Horwich, Colin McGinn, Daniel Dennett, Richard Rorty, D.Z. Phillips, Stanley Cavell, Cora Diamond, James F. Conant og Jean-François Lyotard.

Ásamt öðrum hafa Conant, Diamond og Cavell sett fram túlkun á heimspeki Wittgensteins sem er stundum nefnd nýwittgensteinsk heimspeki.

Eigi að síður er varla hægt að segja að Wittgenstein hafi verið upphasmaður „skóla“ eða hefðar í venjulegum skilningi. Flestir þeir sem nefndir hafa verið hér að ofan eru ósammála um fleira en þeir eru sammála.

Wittgenstein hefur einnig haft þó nokkur áhrif á félagsvísindin. Meðal sálfræðinga sem Witgenstein hefur haft áhrif á má nefna Fred Newman, Lois Holzman, Brian J. Mistler og John Morss. Bandaríski mannfræðingurinn Clifford Geertz byggði þróun sína á máltáknhyggju að miklu leyti á heimspeki Wittgensteins.

Áhrifa Wittgensteins gætir mun víðar en í heimspeki og má jafnvel greina í listum. Bandaríska tónskáldið Steve Reich hefur tvisvar samið tónlist við tilvitnanir úr verkum Wittgensteins. Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Ethan Cohen skrifaði lokaritgerð um heimspeki Wittgensteins við Princeton-háskóla.

Eitt og annað

breyta
  • Sagt er að Wittgenstein hafi veifað glóandi skörungi framan í starfsbróður sinn Karl Popper í frægum og háværum rökræðum þeirra á milli í opinni málstofu við Cambridge-háskólann árið 1946. Rökræðurnar stóðu í tíu mínútur og æ síðan hefur farið tvennum sögum um hvað nákvæmlega átti sér þar stað.[2]
  • Wittgenstein ferðaðist til Íslands í september 1912. Sú ferð hans varð þýska listamanninum Wolfgang Müller innblástur að hljómplötunni Mit Wittgenstein in Krisuvik (2003).

Tilvísanir

breyta
  1. „„The Time 100". Afrit af upprunalegu geymt þann 10. desember 2005. Sótt 12. desember 2005.
  2. Um þetta má lesa hjá Edmonds og Eidinow (2001).

Heimildir og frekara lesefni

breyta
  • Anscombe, G.E.M., An Introduction to Wittgenstein's Tractatus: Themes in the Philosophy of Wittgenstein (New York: Harper and Row, 1959).
  • Ayer, A.J., Wittgenstein (Weidenfeld and Nicholson, 1985).
  • Bogen, J., Wittgenstein's Philosophy of Language (London: Routledge, 1972).
  • Conway, Gertrude, Wittgenstein on Foundations (Atlantic Highlands: Humanities Press, 1989).
  • Edmonds, David og John Eidinow, Wittgenstein's Poker: The Story of a Ten-Minute Argument Between Two Great Philosophers (New York: HarperCollins, 2001).
  • Findlay, J.N., Wittgenstein: A Critique (London: Routledge, 1984).
  • Fogelin, R.J., Wittgenstein (London: Routledge, 1987).
  • Grayling, A.C., Wittgenstein: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 1988).
  • Hacker, P.M.S., Insight and Illusion (Oxford: Oxford University Press, 1987).
  • Hacker, P.M.S., Wittgenstein's Place in Twentieth-Century Analytic Philosophy (Oxford: Blackwell, 1996).
  • Hanfling, Oswald, Wittgenstein's Later Philosophy (Albany: Suny Press, 1989).
  • Hilmy, S., The Later Wittgenstein: The Emergance of a New Method (Oxford: Blackwell, 1987).
  • Kenny, Anthony, The Legacy of Wittgenstein (Oxford: Blackwell, 1984).
  • Kenny, Anthony, Wittgenstein (Oxford: Blackwell, 1973).
  • Klenk, V.H., Wittgenstein's Philosophy of Mathematics (Martinus Nijhoff, 1972).
  • Logi Gunnarsson, Stigi Wittgensteins. Elmar Geir Unnsteinsson og Viðar Þorsteinsson (þýð.) (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2005).
  • McGinn, Marie, Wittgenstein (London: Routledge, 1997).
  • McGuinness, B.F., Wittgenstein: A Life. Young Ludwig: 1889-1921 (London: Duckworth, 1988).
  • McGuinness, B.F., Wittgenstein and His Times (Oxford: Blackwell, 1982).
  • Monk, Ray, How to Read Wittgenstein (New York: W.W. Norton & Co., 2005).
  • Monk, Ray, Ludwig Wittgenstein: The Duty of Genius (New York: Free Press, 1990).
  • Mounce, H.O., Wittgenstein's Tractats. An Introduction (Oxford: Blackwell, 1981).
  • Savikey, Beth, Wittgenstein's Art of Investigation (London: Routledge, 1999).
  • Sluga, Hans og David G. Stern (ritstj.), The Cambridge Companion to Wittgenstein (Cambridge: Cambridge University Press, 1996).
  • Stern, David G., Wittgenstein og Mind and Language (Oxford: Oxford University Press, 1995).
  • Stroll, Avrum, Wittgenstein (Oxford: Oneworld, 2002).

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta

Erlendir tenglar