Wavre (hollenska: Waver) er höfuðborg héraðsins Vallónska Brabant í Belgíu. Íbúar eru 33 þúsund og eru frönskumælandi.

Skjaldarmerki Fáni
Upplýsingar
Hérað: Vallónska Brabant
Flatarmál: 41,80 km²
Mannfjöldi: 33.104 (1. janúar 2011)
Þéttleiki byggðar: 792/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]

Lega og lýsing

breyta

Wavre liggur miðsvæðis í Belgíu, ekki langt frá landfræðilegri miðju landsins. Næstu stærri borgir eru Leuven til norðurs (20 km), Brussel til norðvesturs (25 km), Charleroi til suðurs (40 km) og Liege til austurs (75 km). Í reynd er Wavre dæmigerður landbúnaðarbær. Nokkrir smærri bæir í kring tilheyra borginni.

Söguágrip

breyta
 
Platti til minningar um orrustuna við Wavre

1050 kom Wavre fyrst við skjöl og var þá bundið greifadæminu Leuven í landi Brabants. Hinrik I, greifi af Brabant, veitti Wavre borgarréttindi 1222. 1489 hertók Albert, fursti af Saxlandi, borgina og rændi borgarbúa. Ástæðan var að Wavre hafði staðið með Brabant í uppreisn gegn Austurríki. Borgin átti eftir að líða mikið næstu aldir. 1504 var henni eytt af Karli greifa af Gelderlandi. 1604 sátu Spánverjar um borgina og 1700 eyddi Loðvík 14. Frakklandskonungi borginni í 9 ára stríðinu. Auk þess geysuðu skæðar pestir í Wavre 1624-25 og 1668. Stórbrunar eyddu tugum húsa 1695 og 1714. 1794 hertóku Frakkar borgina og var hún innlimuð Frakklandi. 18. júní 1815 átti sér stað stórorrustan við Wavre er prússar og Frakkar áttust við. Napoleon var nýflúinn frá Elbu og hafði safnað stóru liði. Í Wavre hitti 30 þúsund manna franskur aukaher á prússa. Í orrustunni sem fylgdi hafði Napoleon betur. Prússar drógu sig í hlé. Margir prússneskir hermenn leituðu skjóls í Wavre. En Napoleon hafði ekki tíma til að sinna prússum betur, því Englendingar voru á leiðinni. Frakkar og Englendingar mættust samdægurs í harðri orrustu við bæinn Waterloo, suðvestur af Wavre. Þar sigruðu Englendingar en ekki fyrr en Blücher herforingi hafði safnað liði sínu saman aftur og gengið inn í orrustuna. Í heimstyrjöldunum á 20. öld varð Wavre fyrir miklum skemmdum, bæði í bardögum og í loftárásum. 1995 var héraðinu Brabant skipt upp og varð Wavre höfuðborg suðurhlutans, Vallónska Brabant.

Viðburðir

breyta

Á fimm ára fresti á sér stað mikil borgarhátíð, kölluð Jeu de Jean et Alice (Jean og Alice leikarnir). Hér er um uppsetningu á hugmynd prestsins Jean Pensis að ræða, en hún fer fram með tónlist, söng, dans og bellett. Í leikunum biðja íbúar Wavre landherraparið, herra Jean og frú Alice, um réttindaskjal, sem þau fá og gleðjast yfir. Þetta átti að hafa gerst 1222 er íbúar bæjarins báðu greifann af Brabant um borgarréttindi, sem við það fékkst. Leikarnir fóru fyrst fram 1954 og enda yfirleitt með Wavre-laginu (Chant de Wavre), sem einnig er leikið í klukknaspilinu í Jóhannesarkirkjunni á heila tímanum.

Þjóðhátíð borgarinnar er haldin árlega fyrsta sunnudag eftir 24. júní.

Karneval er haldið 21 degi fyrir páska.

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Turn Jóhannesarkirkjunnar
  • Jóhannesarkirkjan (Église Saint-Jean-Baptiste de Wavre) er höfuðkirkja og eitt helsta einkenni borgarinnar Wavre. Hún var reist í lok 15. aldar í gotneskum stíl og helguð Jóhannesi skírara en kirkja hefur verið á reitnum minnst frá 11. öld. 1631 var turninn hækkaður í 60 metra, en hann brann niður í borgarbrunanum 1695. Einkennandi við turninn er að hann er breiðari en kirkjuskipið og lítur frekar út eins og virkisturn. Í dag er turninn eingöngu með lítið hjálmþak.
  • Karmelítairkjan er gömul klausturkirkja sem vígð var 1662 í barokkstíl. Hún eyðilagðist í borgarbrunanum 1695 og var endurreist fram að 1720. Við hlið kirkjunnar var nunnuklaustur en Frakkar lögðu það niður 1797. Kirkjan skemmdist talsvert af Þjóðverjum er þeir hertóku Wavre 1940. Byggingin var gerð upp, en er ekki kirkja lengur. Í dag er hótelrekstur í byggingunni og er friðuð.
  • Í Wavre er skemmti- og ævintýragarðurinn Walibi Wavre með alls konar hringekjum, stórum sem smáum, og öðrum dæmigerðum stórtækjum. Í garðinum er einnig sundhöllin Aqualibi, með nokkrum stórum vatnsrennibrautum, öldugangi og öðrum lúxus.

Gallerí

breyta

Heimildir

breyta