Hallveig Ormsdóttir

Hallveig Ormsdóttir (um 119925. júlí 1241) var íslensk kona á 13. öld. Hún var dóttir Orms Jónssonar Breiðbælings, goðorðsmanns á Breiðabólstað í Fljótshlíð, sem var sonur Jóns Loftssonar í Odda, og Þóru frillu hans. Bróðir Þóru var Kolskeggur auðgi Eiríksson í Dal undir Eyjafjöllum. Ormur og Jón albróðir Hallveigar voru drepnir í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1218.

Fyrri maður Hallveigar var Björn Þorvaldsson goðorðsmaður á Breiðabólstað. Hann var af Haukdælaætt, hálfbróðir Gissurar Þorvaldssonar. Þau áttu synina Klæng, sem Órækja Snorrason lét drepa í Reykholti á annan dag jóla 1241, og Orm goðorðsmann á Breiðabólstað. Björn var drepinn á Breiðabólstað 17. júní 1221. Árið 1223 dó Kolskeggur auðgi og erfði Hallveig systurdóttir hans allt fé hans og var þá talin ríkasta kona landsins.

Árið 1224 gerði Hallveig helmingafélag við Snorra Sturluson og flutti til hans í Reykholt en þau munu líklega ekki hafa gifst. Sambúð þeirra virðist þó hafa verið góð. Engin barna þeirra lifðu til fullorðinsára. Hallveig dó í Reykholti 25. júlí 1241, nokkrum mánuðum áður en Snorri var myrtur, og þótti Snorra það allmikill skaði, sem var, eins og segir í Íslendinga sögu.