Sæmundur fróði Sigfússon
Sæmundur fróði Sigfússon (1056 – 22. maí 1133) var goðorðsmaður og prestur í Odda á Rangárvöllum. Hann er hvað frægastur meðal almennings fyrir að hafa verið í Svartaskóla og fyrir að hafa klekkt á skrattanum oftar en einu sinni, og á t.d. samkvæmt þjóðsögum að hafa komið ríðandi frá meginlandi Evrópu á baki kölska sem var þá í selslíki.
Vegna lærdóms Sæmundar hefur það orð snemma farið af honum að hann væri fjölkunnugur og hafa orðið til ýmsar þjóðsögur um galdrakunnáttu hans og viðskipti við Kölska.
Hann stóð að lögtöku tíundar á Íslandi á árunum 1096 til 1097 ásamt Gissuri Ísleifssyni biskupi og Markúsi Skeggjasyni lögsögumanni og að hans ráði settu biskuparnir Þorlákur Runólfsson og Ketill Þorsteinsson kristnirétt hinn eldri 1123.
Fjölskylduhagir
breytaFaðir Sæmundar var Sigfús prestur í Odda, Loðmundarson, Svartssonar, Úlfssonar aurgoða. Úlfur var sonur Jörundar Hrafnssonar landnámsmanns á Svertingsstöðum, sonar Hrafns heimska Valgarðssonar. Móðir Sæmundar var Þórey dóttir Eyjólfs halta, sonar Guðmundar ríka Eyjólfssonar.
Menntun
breytaOft er sagt að Sæmundur hafi verið fyrstur Íslendinga til að stunda nám í Frakklandi en þess ber að geta að á þessum tíma var landsvæðið sunnan við Saxland og austan við Rín oft kallað Franconia og má vera að hann hafi lært þar. Enginn eiginlegur háskóli var þó til í Evrópu á þessum tíma svo að Sæmundur hefur líklega stundað nám við klausturskóla eða á einhverju biskups- eða fræðasetri. Svo mikið er víst að hann fór ungur utan til náms og var þar lengi. Hann kom líklega heim einhverntíma á árunum 1076-1078.
Sæmundur settist að í Odda eftir heimkomuna, vígðist til prests og lét reisa kirkju helgaða heilögum Nikulási. Hann hélt skóla í Odda og var talinn einn lærðasti maður síns tíma.
Sagnaritun
breytaSæmundur fróði Sigfússon var fyrstur manna til þess að rita sögur Noregskonunga. Hann skrifaði og mörg önnur söguleg efni. Rit hans eru öll glötuð en líklega voru þau rituð á latínu. Þá var hann einnig einn ritbeiðenda að Íslendingabók Ara fróða og Ari bar bókina undir hann þegar hann var búinn að skrifa hana. Oddur Snorrason munkur vísar einnig í rit Sæmundar í Ólafs sögu Tryggvasonar og einnig er vísað í hann í Landnámabók.
Heimildir
breyta- Sverrir Jakobsson. „Hvar var Svartiskóli sem Sæmundur fróði sótti?“. Vísindavefurinn 18.2.2002. http://visindavefur.is/?id=2122. (Skoðað 9.1.2011).
- „Sæmundur fróði. 800 ára minning; grein í Lesbók Morgunblaðsins 21. maí 1933“.
- „Sæmundur fróði. 1. tbl., 1874“.