Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur

Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur (d. 6. ágúst 1228) var goðorðsmaður á 12. og 13. öld. Hann bjó í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp og var höfðingi Vatnsfirðinga þegar Sturlungaöld hófst.

Þorvaldur var sonur Snorra Þórðarsonar í Vatnsfirði og Jóreiðar Oddleifsdóttur konu hans. Hann virðist hafa verið ójafnaðarmaður. Ungur að árum var hann í nokkur ár hjá Hrafni Sveinbjarnarsyni frænda sínum á Eyri í Arnarfirði og fór mjög vel á með þeim, en er Þorvaldur tók við Vatnsfjarðargoðorði að föður sínum látnum, 1194, urðu algjör umskipti og Þorvaldur hataðist við Hrafn. Gerði hann þrjár ferðir yfir fjöllin til að reyna að ná Hrafni. Loks tókst það og hann lét taka Hrafn af lífi á Eyri 4. mars 1213.

Elstu synir Hrafns, Sveinbjörn og Krákur, voru á barnsaldri þegar faðir þeirra var drepinn, en seinna leituðu þeir liðsinnis Sturlu Sighvatssonar og fóru síðan að Þorvaldi og brenndu hann inni á Gillastöðum í Króksfirði 1228.

Þorvaldur var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Kolfinna Einarsdóttir. Árið 1224 gifti Snorri Sturluson honum Þórdísi laundóttur sína og var hún nokkrum áratugum yngri en Þorvaldur. Börn þeirra voru Einar goðorðsmaður í Vatnsfirði og Kolfinna. Þorvaldur átti líka nokkrar frillur og með þeim allmörg börn. Þekktastir eru synirnir Þórður og Snorri Þorvaldssynir, sem reyndu að hefna föður síns þegar þeir fóru í Sauðafellsför.