Órækja Snorrason
Órækja Snorrason (1205 – 24. júní 1245) var sonur Snorra Sturlusonar og frillu hans Þuríðar Hallsdóttur. Hann ólst upp hjá föður sínum í Reykholti. Eftir að synir Þorvaldar Vatnsfirðings voru teknir af lífi 1232 eftir Sauðafellsför setti Snorri Órækju yfir veldi hans á Vestfjörðum. Þar þótti hann sýna mikinn yfirgang og safnaði hann til sín óþjóðalýð, ræningjum og ofstopamönnum. Ekkja Þorvaldar, Þórdís systir Órækju, átti síðar vingott við Odd Álason á Söndum í Dýrafirði og lét Órækja telja sér trú um með falsbréfi að þau sætu á svikráðum við hann, fór að Oddi og tók hann af lífi 13. janúar 1234. Oddur var vinur Sturlu Sighvatssonar og þegar Sturla sneri aftur úr Rómarför sinni náði hann Órækju á sitt vald og lét menn sína fara með hann upp í Surtshelli, þar sem þeir áttu að blinda hann og gelda. Ekki tókst það þó vel og Órækja læknaðist af sárum sínum en fór úr landi og gekk meðal annars suður til Rómar. Hann kom aftur heim með föður sínum 1239.
Eftir víg Snorra hefndi Órækja hans meðal annars með því að drepa stjúpbróður sínn, Klæng Bjarnarson, sem hafði deilt við Snorra um arf eftir Hallveigu Ormsdóttur móður sína og var með í för er Snorri var drepinn. Hann safnaði svo liði um Borgarfjörð og fór að Gissuri Þorvaldssyni. Börðust þeir í Skálholti í janúar 1242 en Sigvarði biskupi tókst að stöðva bardagann. Síðar þetta ár náðu Gissur og Kolbeinn ungi Órækju og Sturlu Þórðarsyni á sitt vald með svikum við Hvítárbrú og ráku þá úr landi. Órækja dó í Noregi 1245.
Kona Órækju var Arnbjörg Arnórsdóttir (f. 1215), systir Kolbeins unga.