Árni beiskur (d. 22. október 1253) var Íslendingur sem uppi var á Sturlungaöld. Hann var einn af mönnum Gissurar Þorvaldssonar og var sá sem greiddi Snorra Sturlusyni banahöggið í Reykholti haustið 1241.

Ekkert er vitað um ætt og uppruna Árna en hans er fyrst getið í Sturlungu sumarið 1241, þegar hann drap Kol auðga á Kolbeinsstöðum og flúði síðan á náðir Gissurar og var liðsmaður hans þaðan í frá. Hann var með Gissuri þegar hann fór að Snorra um haustið. Hann fór svo utan með Gissuri og fylgdi honum í suðurgöngu til Rómar og hefur því líklega verið einn af tryggustu fylgismönnum hans.

Árni virðist svo hafa verið sérlega tryggur Halli syni Gissurar og hljóp með honum út úr Flugumýrarbrennu um haustið 1253. Hallur var særður til ólífis en Árni, sem var orðinn roskinn, hrasaði í dyrunum og féll flatur. Brennumenn spurðu hver þar væri á ferð en Árni svaraði: „Árni beiskur er hér og mun ég ekki griða biðja. Sé ég og, að sá liggur hér skammt frá mér, er mér líkar eigi illa að ég hafi slíka för og hann“ - og átti þá við Hall. Kolbeinn grön, frændi Snorra, sem var einn brennumanna, sagði þá: „Man engi nú Snorra Sturluson, ef þú fær grið.“ Síðan var Árni drepinn.