Þorleifur Þórðarson
Þorleifur Þórðarson (um 1185 – 1257) var íslenskur goðorðsmaður á Sturlungaöld. Hann var frændi Sturlunga, sonur Þórðar Böðvarssonar prests í Görðum á Akranesi, bróður Guðnýjar konu Hvamm-Sturlu og móður Snorra Sturlusonar, og konu hans Snælaugar Högnadóttur. Hálfsystir Þorleifs, dóttir Snælaugar fyrir hjónaband var Guðrún Hreinsdóttir, sem um árabil var frilla Snorra og móðir Ingibjargar Snorradóttur. Þeir Þorleifur og Snorri voru góðir vinir.
Faðir Þorleifs lést 1220 og tók hann þá við goðorðinu og bjó í Görðum. Hann var einn helsti höfðingi Borgfirðinga og þegar Sturla Sighvatsson fór að seilast til aukinna valda á Vesturlandi stóð hann fast á móti. Sturla hrakti Snorra burt úr Borgarfirði vorið 1236 en vorið eftir söfnuðu þeir frændurnir liði um Suðurnes og Borgarfjörð. Sturla kom þó með fjölmennara lið og eftir að Snorri hafði forðað sér börðust Þorleifur og Sturla í Bæjarbardaga 1237. Þorleifur beið þar lægri hlut og neyddist til að fara í útlegð næstu árin. Hann sneri aftur þremur árum síðar og tók við búi sínu að nýju.
Bræður Þorleifs voru þeir Böðvar Þórðarson (um 1187 - 1264) í Bæ í Bæjarsveit, sem giftur var Herdísi Arnórsdóttur systur Kolbeins unga, og Markús Þórðarson (f. um 1190) á Melum í Melasveit. Þeir bræður komu allir töluvert við sögu á Sturlungaöld.