Örlygsstaðabardagi

Örlygsstaðabardagi er fjölmennasta orrusta sem háð hefur verið á Íslandi. Hún fór fram við eyðibýlið Örlygsstaði í landi Víðivalla í Blönduhlíð í Skagafirði þann 21. ágúst 1238. Frá Örlygsstaðabardaga segir í Sturlungu, og er frásögnin í þeim hluta hennar sem Sturla Þórðarson lögmaður og sagnaritari skrifar, en hann var viðstaddur bardagann og barðist í liði frændmenna sinna, Sturlunga.

Í Örlygsstaðabardaga áttust við Sturlungar annars vegar, undir forystu feðganna Sighvatar á Grund og Sturlu sonar hans, en andstæðingarnir voru þeir Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi Arnórsson. Sturlungar höfðu ætlað að gera aðför að Kolbeini unga á Flugumýri, þar sem hann bjó, en gripu í tómt. Þeir héldu kyrru fyrir í Blönduhlíð og við Vallalaug nokkra daga en á meðan safnaði Kolbeinn liði um Skagafjörð og Húnaþing en Gissur Þorvaldsson kom með mikið lið að sunnan. Liðsmunur var allmikill, því þeir Gissur og Kolbeinn, sem Sturlunga kallar oftast „sunnanmenn“, höfðu allt að 1700 manns, en þeir feðgar trúlega nálægt 1300. Erfitt er þó að fullyrða um þessar tölur.

Sunnanmenn komu austur yfir Héraðsvötn og tókst að koma Sturlungum að óvörum, svo að þeir hörfuðu undan í ofboði og bjuggu um sig í gerðinu á Örlygsstöðum, sem var ekki gott vígi, enda mun orrustan ekki hafa staðið lengi og fljótt brast flótti í lið Sturlunga. Alls féllu 49 úr þeirra liði en aðeins sjö af mönnum Kolbeins og Gissurar.

Á meðal þeirra sem féllu voru feðgarnir Sighvatur og Sturla, svo og Markús Sighvatsson. Kolbeinn og Þórður krókur Sighvatssynir komust í kirkju á Miklabæ en voru teknir þaðan og höggnir en Tumi Sighvatsson yngri komst einn bræðranna undan ásamt hópi manna upp í Miðsitjuskarð og þaðan yfir fjöllin til Eyjafjarðar. Sturla Þórðarson komst einnig í kirkjuna en fékk grið og einnig aðrir sem þar voru, að Sturlusonum, tveimur sonum Hrafns Sveinbjarnarsonar og tveimur mönnum öðrum undanskildum.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta