Sjá Íslendingasögur fyrir greinina um þann hóp sagna sem fjalla um atburði 9., 10., og 11. aldar. Íslendinga saga er ekki hluti af Íslendingasögunum.

Íslendinga saga er stærsta verkið í Sturlungu og er nær helmingur safnritsins. Þar segir frá atburðum sem gerðust á Íslandi á árunum 1183-1262, einhverjum mestu umbrotatímum Íslandssögunnar.

Sturla Þórðarson er meginhöfundur verksins og kann að hafa skrifað það allt. Hann var sjálfur náskyldur eða tengdur mörgum af helstu persónum sögunnar og tók þátt í ýmsum stórviðburðum tímabilsins. Þrátt fyrir það þykir honum takast merkilega vel að halda hlutlægni í frásögn sinni. Frásögnin þykir einnig mjög raunsæ, lýsingar á bardögum og öðrum örlagaviðburðum eru ekki fegraðar, heldur er tilgangsleysi ofbeldis og voðaverka látið koma skýrt fram og samúðin er með þeim sem tapar, hvort sem það eru frændur Sturlu eða óvinir. Því þykir sagan yfirleitt trúverðug heimild um íslenskt samfélag og sögu á 13. öld.