Peder Claussøn Friis

(Endurbeint frá Peder Claussøn)

Peder Claussøn Friis – eða Peder Claussøn – (1. apríl 154515. október 1614) var norskur prestur og fornmenntafræðingur, sem fékkst við sagnfræði og landafræði.

Peder Claussøn Friis (1545–1614).
Titilblaðið á Norske Kongers Chronica (1633). Efst á titilblaðinu er nafn Snorra Sturlusonar.

Æviágrip

breyta

Faðir hans var Claus eða Nicolas Thorolfsen Friis, sem um 1550 var prestur í Undal, (Audnedal) nálægt suðurodda Noregs. Þar ólst Peder upp. Hann fór til náms í Stafangri og tók svo við af föður sínum sem prestur í Undal, aðeins 21 árs gamall. Sama ár varð hann prófastur í Lista prófastsdæmi.

Jørgen Eriksen, biskup í Stafangri, kynntist Pétri Claussyni í fyrstu vísitasíu sinni 1572, og skipaði hann síðan kórsbróður eða kanoka í Stafangri 1575. Nokkrum árum síðar varð hann varaformaður dómklerkaráðsins þar. Hann tók síðar að sér ýmis erfið verkefni fyrir kirkjuna, sem leiddu til deilna og átaka við bændur og veraldleg yfirvöld. En þó að stundum skærist í odda naut hann samt virðingar meðal almúgans.

Peder Claussøn var fulltrúi Stafangurs-biskupsdæmis við hyllingu Kristjáns 4. í Osló 1591.

Peder var kvæntur, en ekki er vitað hvað kona hans hét. Claus sonur hans varð eftirmaður hans í prestsembætti, og hann átti einnig nokkrar dætur sem giftust bændum. Peder Claussøn dó um sjötugt á heimili sínu.

Í Undals-kirkju er málverk af Peder Claussøn Friis, sem sýnir grófgerðan og þróttmikinn kirkjuhöfðingja, dökkan yfirlitum. Árið 1938 var reist stytta af honum við prestsetrið í Valle. Hún er eftir Gustav Vigeland (1869–1943), sem ólst upp skammt þar frá, á bænum Mjunebrokka.

Fræðistörf

breyta

Peder Claussøn er kunnastur fyrir fyrir þýðingar sínar á konungasögum og einnig fyrir rit um staðfræði Noregs. Hann hafði ekki háskólamenntun og hafði aldrei ferðast til útlanda, en virðist þó hafa verið vel menntaður að þeirrar tíðar hætti. Staða hans innan kirkjunnar gaf honum færi á að kynnast mörgum lærðum og vel menntuðum mönnum, og hefur það vakið áhuga hans á norræna málinu og sögu og landafræði Noregs. Hinn lærði lögmaður í Agðafylki, Jon Simonsen, virðist hafa kennt honum fornnorsku, og fleiri hafa lánað honum forn handrit. Af erlendum höfundum (ritum) virðast þeir Olaus Magnus og Arngrímur Jónsson lærði hafa beint áhuga hans að sögulegum og landfræðilegum fróðleik.

Fyrsta rit hans var stutt lýsing á Íslandi, frá (1580). Síðan fylgdu fróðleiksgreinar um Færeyjar (1592) og Grænland (1596). Árið 1599 lauk hann við lýsingu á náttúru Noregs í nokkrum stuttum ritgerðum: „Om alle slags Djur, som ere udi Norrig“, „om Fiske“, „om Fugle“, „om Skove og Træ“ og „om Urter og Blomster“.

Hann var sá fyrsti sem þýddi Heimskringlu Snorra Sturlusonar yfir á norsku. Skattstjórinn Axel Gyldenstjerne fól honum verkið árið 1599, og þýddi Peder Claussøn einnig Böglunga sögur og Hákonar sögu Hákonarsonar, en í Sverris sögu notaði hann eldri þýðingu frá Björgvin. Þessari þýðingu gaf hann nafnið Norske kongers Chronica, og rekur hún sögu Noregs frá fornöld til 1263. Þýðingin hefur ekki síst gildi vegna þess að Böglunga sögur þýddi hann eftir handriti af lengri gerð sögunnar, sem nú er að mestu glötuð.

Um 1600 þýddi hann Landslög Magnúsar lagabætis og meðfylgjandi réttarbætur. Smárit hans „Om Tienden“ og „Enfoldig Forklaring over Fader vor“ eru glötuð, en sýna að hann hefur einnig ritað um trúmál. Á síðustu árum sínum fékkst hann einkum við landfræði Noregs. Fyrst tók hann saman „Stavangers beskrivelse“ (1609), og síðar tók hann saman í eitt rit drög sín að lýsingu Noregs: Norriges Beskrivelse (1613).

Ekkert af ritum Peders Claussøns var prentað meðan hann var á lífi. Þau voru skrifuð upp og gefin eða seld áhugamönnum. Um 1630 fékk kanslarinn Christian Friis eintak af Norriges oc Omliggende Øers sandfærdige Besschriffuelse. Hann gaf Ole Worm handritið, sem lét prenta það í Kaupmannahöfn 1632. Um svipað leyti barst eintak af konungasagnaþýðingunni Norske Kongers Chronica til Kaupmannahafnar, og lét Ole Worm prenta hana 1633. Önnur rit Peders Claussøns lágu óprentuð þar til Gustav Storm gaf þau út 1881. Með Norske Kongers Chronica fengu Norðmenn samfellda og læsilega framsetningu á sögu sinni frá fornöld til 1263, jafnframt því sem upplýst var að Snorri Sturluson væri höfundur Heimskringlu. Áður vissu menn ekki hver höfundurinn var. Talið er að nafn Snorra hafi verið í Heimskringluhandriti sem Peder Claussøn notaði.

Þýðing Claussøns var höfuðrit um efnið þar til útgáfur þeirra Johans Peringskiölds og Þormóðar Torfasonar komu fram um aldamótin 1700. Noregslýsingin varð einnig áhrifarík og varð fyrirmynd margra hliðstæðra verka.

Helstu rit

breyta
  • Norrigis Bescriffuelse, København 1632. — Ole Worm gaf út.
  • Norske Kongers Chronica, København 1633. — Ole Worm gaf út. Þýðing á Noregskonungasögum. Ný útgáfa, endurskoðuð, 1757.
  • Samlede Skrifter, Kristiania 1881. — Gustav Storm gaf út.

Heimild

breyta

Tenglar

breyta